11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í C-deild Alþingistíðinda. (2334)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg geri ráð fyrir því, eins og hv. þm. Mýra. (PÞ), að afráðið sje að svæfa frv. þetta. Þetta frv. er rödd utan af landi gegn skrifstofubákninu, og mjer er óskiljanlegt, hversvegna allshn. vill draga úr þunga þeim, er felst í frv. Það er alkunnugt, að margir starfsmenn ríkisins taka margföld laun fyrir störf sín. Þannig fá sumir starfsmenn sjerstök laun fyrir að halda reikninga við sjóði, er fyrir skömmu heyrðu undir embætti þeirra. Mjer er líka kunnugt um, að einn af starfsmönnum ríkisins hefir sjerstök laun fyrir úrskurð í sveitfestismálum, og svo mætti lengi telja.

Það er miklu meiri kraftur í því fólginn að samþ. frv. óbreytt, eins og hv. flm. (ÞórJ) hefir haldið fram, heldur en dagskrána, sem felur í sjer fullkomið undanhald, og jeg vona, að hv. deild sjái muninn á þessu og greiði atkv. með frv. óbreyttu. (HK: Og það verða margir, sem gera það).