11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í C-deild Alþingistíðinda. (2336)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Jón Baldvinsson:

Úr því að menn eru farnir að vitna hjer, finst mjer ekki nema rjett, að jeg geri það líka.

Í nál. allshn. er svo um mælt, að heppilegast muni vera, að stjórnin sjái um starfsmannahald á skrifstofum stjórnarráðsins. Jeg held, að ekki verði um vilst, hvað dagskráin og nál. á við, og get jeg því ekki skilið, hví menn eru að fetta fingur út í það.

Úr því að farið er að tala um laun starfsmanna ríkisins, verð jeg að láta þess getið, að mjer finst það í rauninni alveg sanngjarnt, að starfsmenn áfengisverslunarinnar og landsverslunarinnar hafi hærri fastalaun en skifstofumenn ríkisins yfirleitt. Bæði er það, að stöður manna við þessar verslanir eru ótryggari en hinar, og í öðru lagi er beinlínis til þess ætlast, að margir skrifstofumenn ríkisins hafi aukastörf með höndum. Það er líka bein afleiðing af stuttum vinnutíma og lágu kaupi, enda er það hverju orði sannara, að margir þeirra hafa miklar aukatekjur, og eru jafnvel dæmi til þess, að menn, sem vinna í skrifstofum ríkisins, hafa haft um 20 þús. kr. árstekjur fyrir störf sín. En við svo búið má ekki standa. Kaupið þarf að vera nægilegt til lífsframfæris, svo að engar aukatekjur fyrir önnur störf þurfi að koma til mála. Það er vitanlega aðeins blekking að tala um lág laun þessara manna, meðan ástandið er sem það er nú. Ríkið á að vera sanngjarnt og hagsýnt um leið. Og því á það ekki að skera kaup manna svo við neglur sjer, að þeir freistist til aukastarfa. Jeg hygg því, er menn athuga dagskrána og nál., að mönnum verði það ljóst, að stjórnin, sem hefir hönd í bagga með skrifstofunum, hafi líka afskifti af þeim í þessa átt, enda er ekki við því að búast, að þingið hafi þekkingu á hverju einstöku tilfelli.

Hv. sessunautur minn (ÞórJ) talaði um, að það væri nú mín stefna, að menn bæru sem mest úr býtum fyrir sem minsta fyrirhöfn. Jæja, látum svo vera; þetta er þó ekki nema mannlegt. Þetta er nefnilega það, sem allir leitast við að gera, hvort sem þeir eru nú bændur, kaupmenn, útgerðarmenn eða verkamenn. En í þessu máli held jeg að þessi ummæli hitti mig ekki. Jeg hefi einungis lagt áherslu á, að ríkið borgaði fult kaup fyrir fult starf. Og það er svo fjarri mjer að vilja draga úr því, að menn vinni sem mest og best.