11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í C-deild Alþingistíðinda. (2337)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Ágúst Flygenring:

Jeg er dálítið kunnugur einni af þessum ríkisstofnunum, og það er áfengisverslun ríkisins. Jeg hefi kynt mjer þar bæði laun og vinnubrögð og okkur hv. 1. þm. N.-M. (HStef) kom saman um, að þar væri ekkert hægt að laga, nema að færa launin niður. Um það má altaf tala. En nú vil jeg samt benda hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) á eitt vel launað starf þar, en vil þó enganveginn segja, að það sje of vel launað. Það er fólgið í því, að halda nákvæma spjaldskrá yfir það, hvað hver maður drekkur í landinu samkvæmt þeim háleitu drengskaparloforðum, er menn verða að undirskrifa, til þess að öðlast nokkurn dropa. Yfir þetta er ekki aðeins haldin ársskýrsla, heldur mánaðarskýrslur yfir hvern drykkjumann í þessu landi. Eftir reglugerðinni ber að halda þessu í lagi; það er eitt aðalatriði í augum bindindismanna. Forstjóri gat þess við mig, að þessi maður væri í raun og veru alt of miklum störfum hlaðinn, enda þótt hann hefði ekki treyst sjer til að borga sjerstaklega fyrir yfirvinnu, þá væri það samt ekki ósanngjarnt; því eins og allir geta skilið, hlýtur starf þetta að vera afarmikið.

Hv. þm. Mýra. (PÞ) talaði áðan um eina skrifstofu hjer í bænum, sem ástæða mundi vera til að bæta starfskröftum við, og gladdi það mig að heyra slíkt til hans. Jeg vildi nú í því sambandi skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort ekki væri ástæða til að bæta við starfsliði á þessum stað, er jeg gat um, því engum getur dulist, hve áríðandi er, að spjaldskráin sje í lagi, og ef þar er ekki mikið í húfi, veit jeg ekki hvar það er. Til hvers skyldu menn um alt land, sem kaupa vín, vera látnir sverja eið um notkun þess, ef þessu er svo ekki haldið til haga og skrásett? Og til hvers skyldi vera ákvæði um það, hve mikið hver og einn má mest drekka, ef ekki væri haldinn neinn reikningur yfir slíkt? Til þess að halda þessu í góðu lagi, býst jeg við, að bæta þurfi við á skrifstofuna 4 mönnum.

Hv. þm. Str. (TrÞ) var að tala um of mikið starfsmannahald á skrifstofum ríkisins. Þótt slíkt sje náttúrlega ekki tilfellið hjer, þá þykir mjer ekki ólíklegt, að einmitt hann hafi stuðlað að því að koma þessu í það horf, sem það er í, eins og aðrir bindindismenn. (TrÞ: Fullkominn misskilningur!).