11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Tryggvi Þórhallsson:

Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) fullyrti ekkert, en kvaðst þó búast við því, að jeg mundi hafa verið einn þeirra, sem stóðu að því, að seðlafarganið komst á við áfengisverslunina. Jeg get með sanni sagt, að því fer svo fjarri, að þetta hafi verið gert að mínum ráðum, að jeg mælti beinlínis á móti því. Jeg vissi um, þegar þetta var ráðið, og lagðist jeg þá allfast gegn því, og sama var um þáverandi atvrh., hv. 2. þm. Rang. (KlJ). Jeg tel þetta „humbug“, að því leyti sem því er ætlað að draga úr vínnautninni, og að leggja drengskaparorð við slíkar yfirlýsingar er blátt áfram hneykslanlegt.

Jeg skal þá víkja nokkrum orðum að hv. frsm. (JörB), þó að jeg hafi enga tilhneigingu til að lenda í deilum við hann, hvorki um þetta mál nje önnur. Það er enginn furða, þó að hv. þm. Borgf. (PO) beri fult traust til stjórnarinnar. En jeg tók einmitt fram, að það væri harðari áminning fólgin í því að samþykkja frv. heldur en dagskrána, og því vil jeg samþykkja frv. sjálft, að jeg tel þörf á, að hæstv. stjórn fái þá áminninguna, sem meiri veigur er í. Þar sem hv. frsm. (JörB) sagði, að í þessu efni væri alt komið undir stjórninni og lagasetning væri því gagnslaus, þá furðaði mig á því, að hann skyldi beina þessu máli með svo mikilli vægð til hæstv. stjórnar. Jeg veit ekki betur en að skrifstofufarganið og aukaborgun hafi aukist hvað mest undir þeirri stjórn, sem hæstv. núverandi forsrh. (JM) veitti einnig forstöðu. (PO: Vínverslunin er yngri). Það er satt, og tek jeg undir þau hörðu ummæli, sem fallið hafa um hana, enda muni fáir hafa jafn harðlega vítt opinberlega þá starfsemi sem jeg.

Hv. frsm. (JörB) lagði mjer þau orð í munn, að jeg vildi minka skriffinskuna með því að samþykkja þetta frv. Jeg sagði þetta nú raunar aldrei, en má þó færa til sanns vegar. Og þá veifaði hv. þm. fjárlögunum, eins og jeg bæri ábyrgð á þeim, og mun þessu hafa verið miðað til okkar hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) beggja, þar sem við eigum báðir sæti í fjvn. Vitnaði hv. frsm. (JörB) í skrifstofukostnað vegamálastjóra og vitamálastjóra. Það má vera, að hann hafi ekki heyrt það, sem hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) sagði af hálfu nefndarinnar, að það væri samhuga álit hennar, að leggja bæri niður aðstoðarmannastöðurnar á þessum skrifstofum, en hún treysti sjer ekki til þess að leggja það til, þar sem launalögin verða endurskoðuð næsta ár. Nefndin hafði fullan hug á þessu, en það var af praktiskum ástæðum, sem nefndin vildi ekki opna launalögin, og því hreyfði hún því ekki. Jeg skal ekki deila lengur um þetta við hv. frsm. (JörB), en jeg gat ekki að mjer gert að brosa, þegar hann fór að veifa fjárlögunum.