11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í C-deild Alþingistíðinda. (2342)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Forsætisráðherra (JM):

Jeg skal láta þess getið út af ummælum hv. þm. Str. (TrÞ), að jeg kannast alls ekki við, að aukaborganir hafi aukist í minni tíð til starfsmanna í stjórnarráðinu, og veit jeg minsta kosti ekki til, að það hafi átt sjer stað á minni skrifstofu. Jeg býst við, að mjer sje eins vel kunnugt um það og flestum öðrum, hvernig hagaði til í stjórnarráðinu í þessu efni fyrir 1917, og ennfremur hygg jeg, að alveg eins megi finna aukaborganir eftir að jeg ljet af stjórn, svo að það er ekki vist, að það sje vert fyrir hv. þm. að minnast mikið á þetta. Það þarf auðvitað altaf að greiða eitthvað fyrir aukastörf, en að það hafi verið meira á árunum 1917–1922 heldur en fyr eða síðar, get jeg ekki viðurkent. Auðvitað hafa störfin í stjórnarráðinu aukist á þessum tíma sem annarstaðar, og er ekki um það að tala.

Jeg verð að segja það, að mjer þykir dálítið ósmekklegt að nota mál eins og þetta til þess að ráðast á stjórn, sem er farin frá fyrir löngu, en það verður að taka því eins og það er. Jeg þekti vel til á landshöfðingjaskrifstofunni frá 1896–1904 og var í stjórnarráðinu frá 1904–1908, og var sömu reglum fylgt alla þá tíð.