11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í C-deild Alþingistíðinda. (2344)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Jakob Möller:

Jeg stóð upp, af því að mjer fanst tími til kominn, að einhver bæri friðarorð á milli hv. dm. Einkum tel jeg þessa þörf að því er snertir flokksmenn hæstv. stjórnar, því þeir hafa farið mjög geist og rasandi í þessu máli. Jeg gat vel skilið, fyrst, er hv. flm. (ÞórJ) bar fram frv., af hverju hann bar það fram í þessu formi. Þáverandi stjórn var ekki hans flokksstjórn, enda var ekki hægt að komast hjá því að skoða frv. sem nokkurskonar vantraustsyfirlýsingu til stjórnarinnar. En það þykir mjer gegna furðu, að hann skuli nú vera enn grimmari í þessu efni, rjett eins og nú sje um ennþá meiri nauðsyn að ræða. Sama er að segja um hv. þm. Borgf. (PO), að hans grimd í málinu hefir einnig vaxið. Jeg skal nú að vísu játa, að ef þessi hv. þm. vantreystir svo mjög sinni nýju stjórn, þá virðist ekki sitja á mjer að bera sættarorð þar á milli, en jeg vil nú samt, af bróðurlegum kærleika, benda á það, að þessi framkoma hv. þm. er alt að því óviðfeldin, eftir að hæstv. forsrh. hefir mælst til þess, að frv. yrði ekki samþ. (Forsrh. JM: Það er misskilningur, að jeg hafi mælst til þess). Hæstv. ráðherra (JM) kvaðst ekki búast við því, að meira yrði heimtað í bili en að málið yrði athugað. Þar sem nú frv. ber bæði vitni um, að menn treysti stjórninni ekki meir en í meðallagi og er auk þess viðurhlutamikið eins og það nú er, þá þykir mjer það sæta sjerstakri furðu, er flokksmenn hæstv. stjórnar fara svo geist.

Að því er snertir launakjörin á skrifstofum þess opinbera, þá þurfa menn ekki að ímynda sjer, að nokkurntíma komist samræmi á þar á milli. Hvað snertir skrifstofur stjórnarráðsins og aðrar slíkar, þá nýtur ríkið þess, að það hefir ávalt nóg af þessu lærða „proletariati“, en þar sem aftur er að ræða um verslunarfyrirtæki, þá verður það að keppa við önnur samskonar fyrirtæki og borga starfsmönnunum eins og þau. Væri það ekki gert, þá myndi ríkið aðeins ná í úrkast þeirra manna, og myndi það trauðla borga sig. En af þessu leiðir, að altaf verður ósamræmi á milli launakjara þessara ríkisstofnana. Eina ráðið er bara þetta, að hverfa algerlega frá þessum ríkisrekstri. Verði þetta ekki gert, þá verður krafa þeirra löglaunuðu starfsmanna, um meira samræmi, að lokum svo hávær, að ekki verður unt að komast hjá að láta undan henni að meira eða minna leyti. Þá er líka önnur leið, sú, að bæta mönnum upp þessi lágu laun með aukabitlingum, og er það sú leið, sem farin hefir verið til þessa.

Jeg get að vísu tekið undir það með hv. frsm., að skriffinskunni sje of langt komið, en það er ekki á svipstundu hægt að kippa slíku í lag. Það er jafnan hægara að auka við manni en að losna við hann aftur, hægara að hækka kaup manna en að færa það aftur niður.

Jeg geri annars ráð fyrir, að ekki velti á miklu, hvort þetta eða hitt verður ofan á í þessu máli; jeg býst við, að árangurinn verði nokkuð svipaður, hvort sem ber sigur úr býtum, frv. eða dagskráin. Það er því algerlega að óþörfu, sem hv. þdm. hafa farið svo geist í málinu.