11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vildi aðeins láta í ljós ánægju mína yfir því, að Nd. fær nú að sjá framan í hæstv. forsrh. (JM). Þetta er þeim mun meira fagnaðarefni sem deildin hefir mjög sjaldan átt þess kost, því það hefir örsjaldan bólað á hæstv. ráðherra, og það jafnvel, er um stórmál hefir verið að ræða, sem snerta hann sjerstaklega.

Það, sem hjer hefir annars borið á milli, er þetta, að jeg gat þess, að í tíð hæstv. forsrh. (JM) hefði komist á það lag, að mönnum í stjórnarráðinu hefði verið borgað fyrir aukastörf. Þessu mótmælti hæstv. forsrh. (JM), en hv. 2. þm. Rang. (KlÞ) stóð þá upp og lýsti yfir því, að hann hefði áður sem landritari haft á hendi reikningshald ýmissa sjóða, án sjerstakrar borgunar. En þar sem það nú er upplýst, að þetta hefir síðan verið launað sjerstaklega, þá hefir hann þar með sannað mitt mál. Þá sagði hæstv. forsrh. (JM) loks í öngum sínum, að ekki væri vert að tala meir um þessar sakir, en jeg vil þá halda því fram, að það sje bein skylda þm. að tala um þær, úr því að þeir á annað borð eru sannfærðir um, að þetta hefir farið í ólestri. Jeg skal þó játa, að jeg hefði ekki farið að tala um gerðir fyrverandi stjórnar, ef ekki hefði staðið svo á, að höfuð þeirrar stjórnar var það sama og höfuð stjórnarinnar nú.