16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

1. mál, fjárlög 1925

Einar Árnason:

Aðeins örfá orð út af þeim umræðum, sem hjer hafa orðið um ljósmæður. Það hafa verið haldnar all hátíðlegar ræður um ljósmóðurina á Eyrarbakka. Þó jeg þekki ekkert konu þessa, efast jeg ekki um, að hún sje í alla staði mjög heiðvirð kona og eigi alt gott skilið hjá sveitungum sínum. En þó að hún síðastliðið sumar hafi unnið hjarta hv. 1. landsk. þm. (SE), eins og hann orðaði það, get jeg ekki lagt svo mikið upp úr því, vegna þess, að það er alt undir því komið, hve mikið þarf til að vinna hjarta hv. þm. Það, sem jeg vildi nú segja í þessu sambandi, er það, að mjer finst ekki eðlilegt, að gleymt sje þeirri ljósmóðurinni, sem er ljósa tveggja núverandi þingmanna, nefnilega háttv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem er aldursforseti Nd., og mín. Er það nú kona háöldruð, fullra 90 ára. En því miður man jeg ekki fyrir víst, hve lengi hún var ljósmóðir, en víst er, að það var kringum 50 ár. Annars skiftir það ekki svo miklu máli, hvort það var einu eða tveimur árum ofar eða neðar. Skal jeg svo ekki lengja umræðurnar frekar. Jeg vildi aðeins gera deildinni aðvart um þetta, vegna þess, að verði þessi tillaga um ljósmóðurina á Eyrarbakka samþykt, verður naumast hjá því komist að taka þessa gömlu fátæku konu með.