11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í C-deild Alþingistíðinda. (2352)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að með frv. hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) væri horfið frá þeirri stefnu, sem áður hefði ríkt hjer. En jeg held, að hv. þm. (TrÞ) hafi þá ekki lesið frv., fyrst hann segir þetta. Hv. flm. gerir í frv. ráð fyrir 8 stunda vinnutíma. En að gefnu tilefni frá hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hefir hann nú lýst því yfir, að þessu atriði frv. megi breyta í 7 stundir. En hvað lagast nú við þetta? Verði þetta samþykt, þá er starfstíminn kominn ofan í það, sem hann er stystur nú, nema í stjórnarráðinu, og er þar með lögfestur. Og með þessu ætlar flm. að fækka starfsmönnum. En vitanlega verður það til hins gagnstæða. Hv. flm. sagði, að jeg hefði sagt, að mjer lægi í ljettu rúmi, hvort samþykt yrði, frv. eða dagskráin, en þó haft í hótunum að minna hann á þessar umr. síðar, ef frv. yrði samþ. En hann gleymdi að láta fylgja: ef sú stefna, sem hefir ríkt hjer, breytist ekki. En það fer vitanlega eftir því, hvernig stjórnin heldur á lögunum.

Eitt var það í orðum hv. flm., sem jeg gat ekki skilið, og fanst kenna mótsagnar hjá sjálfum honum. Hann sagði, að ef dagskráin yrði samþ., þá yrði auðveldara að ráðast á stjórnina á eftir, vegna hennar aðgerða í málinu, heldur en ef frv. yrði samþ. Jeg er ekki frá því, að jeg hafi áðan sagt heldur mikið, að mjer lægi í ljettu rúmi, hvort dagskráin yrði samþ. eða frv. Það ætti mikið fremur að samþ. hana. Ekki þó svo að skilja, að jeg ætlaði mjer að nota hana síðar sem árásarefni á hæstv. stjórn. Jeg er ekki svo grályndur, að búa yfir slíkum undirmálum. Og jeg ber það gott traust til hæstv. stjórnar, að hún muni gera sitt besta. En það er mín skoðun, að ef fylgja á frv. um sjö stunda vinnutíma, og ekki þar framyfir, þá sje það gagnslaust, og gagnstætt tilætlun hv. flm. Hjer eru menn að fara í kringum aðalatriði málsins; en aðalatriðið er það, að eftirlit sje gott hjá yfirmönnum skrifstofanna og hæstv. landsstjórn. Lágmark vinnutíma er þýðingarlaust í þessu efni, ekki síst, ef það er miðað við það lágmark, sem nú tíðkast.

En nú geta menn valið um frv. og dagskrána og samþ. frv., þeir, sem það vilja, til þess að forða hæstv. stjórn frá árásum síðar, eins og hv. flm. sagði, sem leiða kynni af dagskránni, ef hún væri samþykt. En það er vitanlega alveg úr lausu lofti gripið. En spá mín er sú, ef sjö tíma vinna verður lögboðin að þá verði það ekki til þess að unnið verði lengur eða meira en nú er gert, heldur þvert á móti, og er þá ver af stað farið en heima setið.