16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi enga ástæðu til að þakka hv. fjvn. fyrir undirtektir hennar í þessu ljósmóðurmáli. Annars er það merkilegt, hvernig hv. deild hefir snúist í þessu máli, þar sem hún, sjer til lítils sóma hefir gert það að hreinu fíflskaparmáli og gert alt, sem hún hefir getað, til þess að eyðileggja það. Það lítur helst út fyrir, að hv. deildarmenn meti ekki mikils störf þessara kvenna. En jeg fyrir mitt leyti skal játa, að jeg met þau mikils og tel þau mikilsverð, já, svo mikilsverð, að jeg teldi það ekkert hneykslanlegt, þó að ein ljósmóðir fengi styrk á ári úr hverjum fjórðungi.

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) taldi það ekki mikilsvert, þó að ljósmóðir þessi hefði unnið hjarta mitt. Um það skal jeg ekki deila. En hitt er víst, að hún hefir ekki aðeins unnið mitt hjarta, heldur og fjölda mörg önnur. Annars er það alt annað en skemtilegt, hve sumum hv. deildarmönnum er mikið áhugamál að koma þessum litla styrk fyrir kattarnef. Og vel mættu þeir geyma fyndni sína til annara þarfari hluta. En auðvitað ræður hver sínum gerðum, og síst öfunda jeg þá af stórvirki því, sem þeir eru nú að vinna með hinni óstöðvandi fyndni sinni, og vart mun þá dreyma vel í nótt, er þeir hafa tekið ellistyrkinn frá öldruðu heiðurskonunni.