14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í C-deild Alþingistíðinda. (2360)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Magnús Jónsson:

Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) varð eins og reið ljónynja, sem ver afkvæmi sitt, þegar ráðist var á þennan unga, sem úr hans eggi er komin. Það væri reyndar rjettara að líkja honum við grimman fugl, úr því að jeg líkti frumvarpinu við unga úr eggi kominn.

Jeg er nokkuð kunnugur á sumum þessum skrifstofum hjer í bæ, og það veit auk þess nær allur almenningur, að verk þau, sem þar skulu unnin, eru misjafnlega mikil, t. d. á pósthúsinu er stundum aðeins lítið að gera, þegar langt er á milli póst- eða skipaferða. En ekki þó rjett að segja, að þá sje ekkert að gera, því að bæði þarf þá að vinna upp margt, sem ekki vinnst til falls í mesta annríkinu, og svo eru náttúrlega altaf mikil dagleg afgreiðslustörf. En verulegan renslisjöfnuð er ekki unt að framkvæma á ekki stærri skrifstofum en hjer er um að ræða. Sama gildir um bankana. Þar eru langmest störfin, þegar stórir póstar eru nýkomnir frá útlöndum. Þetta vita líka allir, og eins hitt, að stjórnin hefir öðrum hnöppum að hneppa en að rápa á milli skrifstofanna. Það er því þetta, sem háttv. flm. hefir líklega eigi vitað um, og nú fengið loks upplýsingar um í ræðu minni áðan. Já, stjórnin verður að trúa sínum trúnaðarmönnum, skrifstofustjórum og öðrum forstöðumönnum stofnanna, fyrir því, að þar sje vel unnið. En hún getur þar fyrir gengið misjafnlega ríkt eftir því við trúnaðarmenn sína, að þeir haldi starfsfólkinu til vinnu og hafi ekki fleiri menn en nauðsyn býður. Í stjórnarráðinu á stjórnin vitanlega hægast með að líta eftir vinnubrögðunum, og eins og sagt hefir verið, getur hún með orðum og eftirdæmi haft góð eða ill áhrif í þessu efni. En of mikið má ekki leggja upp úr getu stjórnarinnar í þessu máli. En það er alls ekki þetta, sem hv. flm. (ÞórJ) er hjer með. Nei, með þessu frv. er verið að innleiða óheppilegan stífnisanda á skrifstofur ríkisins, sem stefnir að því, að menn munu ekki fást til að vinna þar neitt lengur en hinn lögákveðna vinnutíma, en krefjast sjerstakrar aukaborgunar, ef þeir þá fást til að vinna eitthvað lengur. Þessu er alls ekki hægt að bera á móti. Þetta frv. er vantraust á alla þá, sem falin hefir verið umsjá með slíkum stofnunum, og er víða bæði ranglátt og óverðskuldað, og verði farið að beita stífni á aðra hliðina, er mjög hætt við, að hún komi þá einnig fram hinumegin. Frv. þetta getur því aðeins orðið til ills eins, ef það verður samþ. Mjer skildist það á háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ), að við yrðum sóma okkar vegna að láta það fara lifandi út úr deildinni, þar sem það hefði verið samþ. við 2. umr., og svo mundi Ed. laga það. En þetta er alveg ófær regla við afgreiðslu mála hjeðan úr deildinni, ef það á að samþ. þau í trausti þess, að Ed. lagi það, sem aflaga fer. Þó það sje satt, eða hafi komið fyrir, að Ed. hafi lagað eða felt frv., sem hjeðan hafa komið, hafa þau stundum einnig verið aflöguð þar. Jeg held því fast við alt, sem jeg hefi sagt í þessu efni, að við eigum í engu að varpa okkar áhyggjum upp á Ed., heldur gera sjálfir hreint fyrir okkar dyrum.