14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í C-deild Alþingistíðinda. (2362)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Tryggvi Þórhallsson:

Nú þykir mönnum mikils við þurfa að ganga frá frv. dauðu. Háttv. 1. þm. Árn. (MT) hefir nú gengið í lið með þeim, sem vilja koma þessu frv. fyrir, og hefir hann borið fram rökstudda dagskrá í þeim tilgangi, og var það ráð vel til fundið og hefir oft reynst vel til að drepa mál. Þessi rökstudda dagskrá er nákvæmlega sú sama og hjer var borin fram af nefndinni við 2. umr., nema að orðunum „í trausti þess“ er nú slept, og var það viturlega gert að sleppa þeim orðum. Háttv. 1. þm. Árn. fer nærri um það, að þessi þingdeild muni ekki samþykkja neitt það, er felur í sjer traust til stjórnarinnar, því það er vitanlegt, að í þessari þingdeild á stjórnin einskis trausts að vænta. Þessi dagskrá er alveg í sömu átt og hin fyrri dagskráin, og jeg álít, eins nú og við 2. umr., að það sje undanhald frá frv., að samþ. nokkra slíka dagskrá. Legg jeg því ákveðið til, að frv. verði samþ.