14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í C-deild Alþingistíðinda. (2367)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Tryggvi Þórhallsson:

Það var aðeins örlítil kvittun til hæstv. forsrh. (JM), og rætist nú á honum hið fornkveðna, að „litlu verður Vöggur feginn“, er hann gerir sig ánægðan með það traust, sem þessi dagskrá felur í sjer. Jeg geri þá og ráð fyrir, að hann hafi verið ánægður með hina fyrstu kveðju, sem þessi hv. þingdeild sendi honum um leið og hann var að setjast í stjórnarsætið. En sú var kveðjan til hans, að deildin drap þá með miklum atkv. mun eitt hið fyrsta frv., sem telja mátti, að frá hans stjórn væri komið. Sje hann ánægður með þá traustsyfirlýsingu, sem deildin gaf honum þá, gæti jeg trúað, að hann hefði ekki minni ánægju af ræðu hv. 1. þm. Árn. (MT), er hann taldi upp þá sparnaðarmenn, er sætu ættu í stjórninni og nafngreindi báða hina ráðherrana, en slepti að minnast á hæstv. forsrh. (JM) í því sambandi.