10.03.1924
Neðri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (2376)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Flm. (Halldór Stefánsson):

Jeg get að nokkru leyti vísað til greinargerðar frv. þessa, en verð þó að víkja að frv. nokkru nánar.

Það er ekki langt síðan, aðeins 2–3 ár, að bóla tók á því, að peningar vorir töpuðu gildi sínu gagnvart erlendum peningum, en svo hraðfara hefir tap þetta verið, að nú gilda þeir ekki nema til hálfs við útlendan, ófallinn gjaldeyri. Og fari þeir sílækkandi, eins og útlit er fyrir, ef ekkert verður aðhafst til að stöðva hrunið, þá má búast við því, að eftir 3–4 ár verði gildi þeirra að engu orðið, að svo miklu leyti sem slíkt má verða um peninga.

Menn eru nú farnir að skilja það, að ein afleiðing þess, að verðgildi gjaldeyrisins minkar, er síhrakandi efnahagur og örðugleikar á öllum sviðum. Ríkissjóður tapar við það, að tekjur hans missa gildi sitt. Einstaklingarnir tapa, einkum verkalýðurinn og starfsmenn ríkisins, því þeir geta ekki lengur látið tekjur sínar hrökkva fyrir útgjöldunum. Og alt atvinnulíf og framleiðsla líður við það, að verkamennina ber upp á sker og verða á einhvern hátt til byrði. Viðhorfið er fjárhagslegt ósjálfstæði ríkis og einstaklinga. Eru menn þegar farnir að tala um, að alment hrun og gjaldþrot vofi yfir, ef þessu fer fram. Jeg, fyrir mitt leyti — og jeg hygg, að það sje almennasta álitið um land alt — hefi litið svo á, að þetta sje fyrsta, sjálfsagðasta og brýnasta viðfangsefni þingsins að rjetta við fjárhaginn og styðja og efla atvinnuskilyrðin og atvinnulífið eftir föngum. Einn aðalþátturinn í því starfi er að stöðva gengishrunið, festa gengið og snúa því aftur til hagkvæmara horfs.

Deilt hefir verið um, hverjar væru orsakir lággengisins, og getur verið, að mönnum sjeu þær enn ekki fyllilega ljósar. Fullyrða má, að orsakirnar sjeu fleiri en ein, og verður þá að skilja þær að, taka hverja sjer og setja þau ráð við, sem við eiga. Mun jeg ekki fara frekar út í það, heldur snúa mjer að einni aðalorsök lággengisins, þeirri, sem óhætt má telja, að öllum almenningi komi saman um. Hún er sú, að við öflum ekki eins mikils og við eyðum, að við getum ekki með árlegri framleiðslu greitt árlega eyðslu vora í viðskiftum við erlendar þjóðir. Um þetta atriði verður flestum fyrst fyrir að leita til verslunarskýrslnanna sem sönnunargagns, en þegar til þeirra er farið, virðast þær ekki staðfesta, að gengishruninu valdi það, að hærri sjeu að verðgildi innfluttar vörur en útfluttar. En hjer er þess að gæta, að verslunarskýrslurnar eru ekki einhlítar, því þær taka alls ekki yfir öll viðskifti vor við útlönd. Sýna þær aðeins vörukaup, en ekki hve mikil lán eru tekin og hversu skuldirnar þannig aukast árlega. Ekki sýna þær heldur vexti af þeim lánum, nje fje það, sem Íslendingar eyða erlendis, hvort heldur er við dvöl eða ferðalög erlendis. Þá eru og smyglvörur ótaldar — sem vonlegt er — og eins það, að sumar útfluttu vörurnar munu ekki tilheyra oss íslendingum sjálfum, heldur eru þær framleiddar af útlendingum hjer á landi með útlendu fjármagni og vinnukrafti. Verður þá að leita annarsstaðar en í hagskýrslurnar til að komast að raun um, hvernig viðskiftahagur vor standi við útlönd, og er þá ekki í annað hús að venda en til reynslunnar sjálfrar, enda er hún ólygnust.

Fyrir nálega ári síðan mátu og áætluðu þeir, sem því voru kunnugastir, skuldir vorar við útlönd, og taldist svo til, að þær næmu 50–60 miljónum. Veit jeg ekki til, að það hafi verið alvarlega vefengt nje nein þau straumhvörf hafi orðið á síðasta ári, að þetta hafi breyst að mun, og þá síst til batnaðar. Má þá ætla, að skuldirnar sjeu eitthvað nálægt þessu, og hefir þetta fje tapast að mestu eða öllu leyti á þrem til fjórum síðustu árum. Hefir þá það, sem þessu nemur, vantað upp á það, að við öfluðum eins mikils og við eyddum í viðskiftunum við útlönd. Þegar það er athugað, hver hin eiginlega gjaldeyrisþörf okkar er, þá á hún að vera jöfn vöruinnflutningnum að við bættu afborgunum og vöxtum af lánum og skuldum, kostnaði við utanríkismál og ferða- og dvalarkostnaði Íslendinga erlendis. Þetta eru helstu þættirnir í viðskiftunum við útlönd. Ef allir þessir þættir viðskiftanna við útlönd væri óhjákvæmileg nauðsyn, Þá væri ekkert hægt við þessu að gera. En nú vill svo til — sem betur fer — að hjer má skilja á milli þess, sem kalla mætti brýna nauðsyn og óbrýna eða ímyndaða nauðsyn.

Brýn nauðsyn er á því, að keyptar sjeu þær vörur, sem óumflýjanlegar eru til framleiðslu eða framfærslu, svo og afborganir og vextir af lánum. Einnig er ferða- og dvalarkostnaður Íslendinga erlendis nauðsynlegur, þó minni gæti hann verið, og loks kostnaður við utanríkismálin.

Hinn þáttur viðskiftaþarfarinnar, sem óbrýnn verður að kallast, er innflutningur alóþarfrar vöru, sem mikið er að gert, svo og innflutningur annara vara, sem að vísu geta ekki heitið alóþarfar, en sem betra er þó að vera án en að stofna sjer þeirra vegna í fjárhagslegt ósjálfstæði. Í þriðja lagi eru þær vörur, sem mikið er til af í landinu og því óþarft að auka við í bráðina. Og loks eru þær vörur, sem vjer getum sjálfir veitt oss með auknum iðnaði eða framleiðslu.

Virðist því af þessu, að það sje eitt aðalráðið til gengisviðreisnar og til að rjetta við fjárhag ríkis og einstaklinga, að minka þörfina á erlendum gjaldeyri með því að taka alveg fyrir óþörf viðskifti við útlönd. Ekkert getur verið sjálfsagðara nje einfaldara.

Þá er næst að gera sjer grein fyrir því, hvernig höft á innflutningi myndi verka á gengismuninn. Alment er talið, bæði hjer og annarsstaðar, að almennur sparnaður sje öflugasta ráðið til gengisviðreisnar. Frv. það, sem hjer liggur fyrir, myndi styðja þá menn til sparnaðar, sem þess eru fúsir, og knýja hina, sem ekki vilja spara. Í öðru lagi myndu innflutningshöftin ýta undir og styðja innlenda framleiðslu og iðnað. Og aukinn iðnaður og framleiðlsa gæti veitt einhverju því fólki atvinnu, sem nú hefir enga. Í þriðja lagi myndi leysast fjármagn það, sem bundið er nú í vörubirgðum um land alt, hvort sem það væri þarfur eða óþarfur varningur. Mætti nota fjeð, sem losnar, annaðhvort til að auka framleiðsluna innanlands eða til þess að greiða eitthvað af skuldunum erlendis.

Alt yrði þetta til þess að minka þörfina og eftirspurnina eftir erlendum gjaldeyri, án þess að draga úr framleiðslunni, og ætti því að leiða til þess, að gengisfallið stöðvaðist, og, ef til vill, að gengið rjettist við aftur; gera landsmönnum yfirleitt mögulegt að mæta viðskiftaþörfinni og greiða afborganir og vexti af erlendum skuldum. Þetta er hin almenna skoðun um það, hvernig innflutningshöftin verka, og má því til sönnunar vísa í þingmálafundargerðirnar síðustu, víðsvegar af landinu.

Jeg get búist við, að einhverjir vefengi, að almenningur hafi vit á þessum málum, en jeg held, að oft sje það einmitt almenningur, sem finnur þau ráð, sem duga, og hafi heilbrigðast vitið. Ef einhverjir eru þeir, sem vantreysta heilbrigðu viti almennings í þessu máli, get jeg vitnað í álit bankanna beggja, því til stuðnings, og skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa örstutta kafla úr brjefum beggja bankanna til stjórnarinnar, um þessi mál, frá s. l. hausti.

Stjórn Landsbankans segir svo: „Að því er snertir gjaldeyriseftirspurnina af hálfu almennra vöruinnflytjenda, þá hafa bankarnir, að svo miklu leyti sem þeim er unt, haft hemil á eftirspurninni með því að takmarka lánveitingar til vöruinnflutnings. En bankarnir megna ekki heldur á þessu sviði að hafa áhrif nema að nokkru leyti; mikill fjöldi vöruinnflytjenda hefir sjálfur fje til slíkra hluta, eða þá nýtur lánstrausts erlendis. Verður því ekki hjá því komist að gera sjerstakar ráðstafanir til þess að hefta vöruinnflutninginn.“

Og stjórn Íslandsbanka kveður enn fastar að orði. Hún segir:

„Það getur nú eðlilega verið álitamál, hvaða ráðstafanir sjeu hagkvæmastar í framangreindu efni. En vjer verðum nú sem fyr að vera þeirrar skoðunar, að það, sem fyrst og fremst virðist liggja fyrir að gera, er að draga sem mest úr innflutningi til landsins, bæði á nauðsynjavörum og á þeim vörutegundum, sem unt er að komast af án um nokkurt tímabil, eins og t. d. 1 til 2 ár, og þar með ætti þá landsfólkinu jafnframt að verða beint í sparnaðaráttina, en það sýnist að vera lítt gerlegt á annan hátt. Vjer hyggjum, að ef til kæmi, væri rjettast að leggja afdráttarlaust bann við innflutningi þeirra vörutegunda, sem telst, að komast megi af án um tiltekið tímabil, en veita ekki undanþágur til innflutnings á þeim, því að það hefir sýnt sig, að þær draga mjög úr áhrifum bannsins, enda er slíkt fyrirkomulag auðveldast viðfangs. En innflutning á nauðsynjavörum yrði að reyna að minka á þann hátt og með því fyrirkomulagi, sem tiltækilegast þykir eftir nánari yfirvegun.

Með þessu mætti að líkindum spara erlendan gjaldeyri svo miljónum króna skifti árlega, og ætti það að geta orðið gengi íslensku krónunnar að ekki litlu gagni.“

Loks skal jeg minna á ummæli hæstv. atvrh. (KlJ) um þetta nýlega hjer í deildinni.

Jeg skal með örfáum orðum víkja aftur að orsökum lággengisins. Skoðanirnar um það hafa verið og eru á reiki, aðgerðirnar líka. Eina ráðið, sem reynt hefir verið hingað til, er að taka lán, en reynslan hefir sýnt, að það er einskisvert ráð, eða verra. Má t. d. benda á það, að eftir töku enska lánsins, sem minsta kosti átti meðfram að vera til gengisviðreisnar, þá örvaðist gengisfallið, og annað fyrirbrigði þessu líkt er það, sem endurtekur sig á hverju ári, er megnið af íslenskum gjaldeyrisvörum er selt á útlendum markaði, að þá fellur gengið. Hefir mönnum komið það mjög á óvart, hafa fremur búist við, að gengið rjetti þá við, en reynslan sýnir annað. Einhverjar hljóta orsakirnar að vera, og mætti gera tilraun til að skýra þetta á svofeldan hátt. Fyrst er það, að lántökur eru altaf skammgóður vermir, því fyr eða síðar dregur að skuldadögunum og vexti þarf stöðugt að greiða. Og einkennilegt er það, ef menn trúa því, að gengisfallið stafi af erlendum skuldum, að þeir skuli ætla sjer að koma í veg fyrir það með því að taka fleiri lán, bæta við skuldirnar; það er líkt og að kasta olíu í eld til að slökkva hann. En aðalorsökin til þess að lánin koma að svo litlu haldi er ef til vill sú, að lánin eru ekki rjettilega notuð, því ef einhverju af lánunum er varið til innkaupa á erlendum óþarfavarningi, verður það auðvitað til þess eins að örva gengisfallið. Svo verður og, ef andvirði seldra afurða er notað á sama hátt; verður þá gengisfallið auðskilið á sölutímamun. Jeg skal ekki fjölyrða frekar um þetta; jeg hygg, að menn sjeu nú orðnir sammála um, að lántökur sjeu einskisnýtar í þessu efni. Á hinn bóginn viðurkenni jeg, að innflutningshöft eru ekki það eina, sem gera þarf til úrræða. Það þarf til viðbótar skipulag um sölu afurðanna og eftirlitið með því, hvernig gjaldeyririnn er notaður.

Þetta er ekki ný hugmynd, heldur hefir oft verið á það bent áður, en jeg tel það alveg nauðsynlegt, ef menn vilja af nokkurri alvöru reyna að ráða fram úr gengisvandræðunum, og hefi jeg von um, að síðar á þinginu komi fram tillögur í þessa átt.

En fleira mætti ef til vill gera. Gengisskráningin er nú eingöngu í höndum bankanna. En nú mætti ætla, og jafnvel færa til þess nokkrar líkur, að bankarnir gætu haft hag af því, að verðgildi íslenskra peninga minkaði, einkum á vissum tímum ársins. Ef það er rjett, þá er það augljóst, að gengisskráningunni er ekki vel komið í höndum bankanna einna. Mjer virðist heppilegra, að gengisskráningin væri í höndum nefndar, er skipuð væri einum manni frá hvorum bankanna, einum frá hverjum aðalatvinnuvegi, sjávarútveg, landbúnaði, verslun og ef til vill iðnaði, og einum ráðherra. þetta er þó aðeins lausleg tillaga, sem jeg vildi kasta fram, mönnum til athugunar.

Jeg skal þá víkja að frv. sjálfu. Það er bygt á þeirri hugsun og sannfæringu, sem jeg hefi nú reynt að lýsa. Þar er í fyrsta lagi lagt til að banna allan óþarfan varning. Í öðru lagi varning, sem vjer getum komist af án um stundarsakir, annaðhvort vegna þess, að nægar birgðir eru til í landinu, eða varning, sem snertir lítið beinar lífsnauðsynjar, þó að það geti snert þægindi einstakra manna, að hafa hann. Loks er lagt til, að bannaður verði varningur, sem vjer getum veitt oss sjálfir með aukinni framleiðslu og iðnaði.

Eftir lauslega áætlun kaupum vjer nú árlega fyrir 8–9 milj. kr. af þeim varningi, sem lagt er til að banna innflutning á; það skiftir ekki svo miklu, hve alnærri hinu rjetta þessi áætlun er, um hitt er meira vert, að vjer greiðum ekki minna en þessu nemur, af skuldum vorum erlendis. Ef vjer skuldum 50–60 milj. króna, eins og jeg gat um, munu vextir af því nema 3–4 milj. kr., og er afgangurinn þá ekki of mikill til afborgana, og þyrfti þó mörg ár til að losna úr þessum skuldum.

Þó að menn sjeu samdóma um aðalatriði þessa máls, geta verið skiftar skoðanir um formið. Til eru lög, sem heimila stjórninni að banna innflutning á óþarfavarningi, en jafnframt til yfirlýstur þingvilji frá fyrri þingum um að nota þessa heimild sem vægast, og hafa lögin því ekki verið framkvæmd að ráði. Nokkur munur er á heimildarlögunum og þessu frv. Frv. lýsir miklu ákveðnari vilja í málinu, bendir á ákveðna leið að ákveðnu takmarki. Heimildarlögin eru óákveðin í formi sínu, gefa tilefni til hiks og hvörflunar í málinu, en veita ekki nægan stuðning eða aðhald.

Þetta mál mun nú þrauthugsað af hv. þm., og geri jeg mjer ekki vonir um, að jeg hafi skýrt það mikið fyrir þeim. Þó skal jeg nú láta hjer við sitja. Vona jeg, að málið verði ekki látið gjalda þess, þó að framsagan hafi ekki tekist fimlega. Jeg vænti þess, að málið fái að ganga áfram, og eftir eðli þess er nauðsynlegt, að því verði hraðað sem mest. Ef það er vilji þingsins, að frv. verði að lögum, þarf að koma í veg fyrir, að þessar vörur verði fluttar inn í landið á þeim tíma, sem hlýtur að líða þangað til innflutningshöftin eru komin á. Jeg vil því leyfa mjer að beina því til hæstv. stjórnar, hvort hún treysti sjer ekki til að gefa út auglýsingu, er banni innflutning á þessum vörum, meðan stendur á meðferð málsins hjer á þingi. Leyfi jeg mjer svo að óska þess, að frv. fái að ganga til 2. umr. og til fjhn. að þessari umr. lokinni.