10.03.1924
Neðri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í C-deild Alþingistíðinda. (2379)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Mál það, sem hjer er til umræðu, er enginn nýr gestur. Það hefir verið á döfinni hjer um nokkur undanfarin ár, og samkomulag um það ekki altaf verið sem best. Má yfirleitt segja, að það hafi löngum átt erfitt uppdráttar. Nú er þó svo að sjá sem nokkur breyting sje orðin á þessu, m. a. hjá hv. þm. Býst jeg við, að sú breyting eigi ekki hvað síst rót sína að rekja til þess, að frá fjölmörgum þingmálafundum, sem haldnir hafa verið víðsvegar úti um land, hafa borist sterkar raddir um það, að nauðsyn beri til að hefta innflutning á ýmsum óþörfum vörutegundum. Þannig geri jeg ráð fyrir, að ýmsir hv. þm. hafi orðið að beygja sig fyrir þjóðarviljanum. Þetta er mjer gleðiefni, því eins og kunnugt er, þá hefi jeg verið mjög fylgjandi þessu máli á þeim tveim þingum, sem jeg hefi setið sem ráðherra.

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) mintist á afskifti bankanna af málum þessum, og gat þess m. a., að annar bankinn að minsta kosti hafi margsinnis skrifað stjórninni og hvatt hana til að halda sem strangast á innflutningshöftunum. Það er satt, að bankarnir hafa verið því mjög fylgjandi, en hins minnist jeg ekki, að frá bankanna hendi hafi stjórninni borist nýlega nema tvö brjef þessa efnis. En annars sagði mjer einn bankastjóranna, að stjórninni myndi berast nýtt brjef um þetta áður en þing kæmi saman, og var jeg þess mjög hvetjandi. Það brjef er samt ókomið ennþá, en sýnir þó hug bankans til þessa máls, enda auðgefið að fá það brjef hvenær sem vill.

Hvaða skoðun jeg hefi á þessum efnum, viðreisn fjárhagsins og viðrjetting gengisins, hjelt jeg að hefði komið nægilega ljóst fram í ræðu þeirri, sem jeg hjelt við framlagningu fjárlaganna. Jeg gerði þá skoðanir Dana á orsökunum til gengisfallsins að mínum, og það eru fleiri þjóðir, sem hafa sömu skoðun á orsökunum. Jeg hefi t. d. hjer fyrir framan mig grein í hinu alþekta danska blaði „Berlingske Tidende“, frá 19. febr. þ. á., eftir Svend Paulsen ritstjóra, sem mörgum er hjer kunnur. Hann hefir verið á ferð í Tjekkóslóvakíu og fengið m. a. tækifæri til að kynnast því, hver ráð það ríki hafi notað til þess að rjetta við og festa gengi sitt. Land þetta var mjög illa leikið af ófriðnum, allur iðnaður var í kaldakoli og akrarnir fallnir í órækt. Hjer þurfti því sterk tök til að rjetta landið við aftur, og ráðin, sem fundust til bjargar fjárhaginum og genginu, voru í sem fæstum orðum þessi:

1)Að koma í veg fyrir ofaukning (Inflation) ótrygðra seðla. Seðlaprentsmiðjunum var því ekki leyft að halda áfram eins og gert var í Austurríki og Þýskalandi, heldur voru þær stöðvaðar. 2) Að koma á pósitívum verslunarjöfnuði með því að stemma stigu fyrir því, að meira yrði flutt inn í landið en út. 3) Að gæta sem mestrar sparneytni, ekki aðeins af hálfu hins opinbera, heldur einnig meðal einstaklinganna og hjálpa þeim í þeirri viðleitni. — Auk þessa hefir hið opinbera strangt eftirlit með gjaldeyrinum. Þessum aðferðum hafa Tjekkóslóvakar beitt með svo miklum dugnaði, að afleiðingin hefir orðið sú, að þeirra króna er síst lengur undir sannvirði.

Jeg hefi að undanförnu hugsað talsvert um þetta mál, enda er megnið af frv. frá mjer komið. En það, hvaða leiðir skuli fara, til að draga úr ofmiklum innflutningi, er mjer ekki kappsmál, aðeins ef eitthvað verulegt verður gert, sem miðar að því. Það geta t. d. orðið skiftar skoðanir um það, hvað sje heppilegast, að banna algerlega innflutning óþarfra vörutegunda, eða leyfa hann, en hækka toll á þeim til muna, eða sameina þessar leiðir báðar að nokkru. Slíkt getur altaf orðið álitamál, og eins og jeg tók fram við framlagningu fjárlaganna, og gat um áðan, þá er mjer fjarri að gera það að kappsmáli.

Þá vil jeg víkja með fám orðum að ræðu hv. 1. þm. Skagf. (MG). Hann mun ekki hafa búist við að tækifæri fengist til að finna stjórn þessa í eldhúsinu, og því viljað nota þennan dag til eldhúsverka. Þeir eru nokkuð bráðir á sjer, sumir í Íhaldsflokknum. En það má mjer standa á sama um, því svo kunnugur er jeg orðinn þessu máli, að jeg get vel svarað án frekari undirbúnings.

Það voru þá fyrst tvær spurningar, sem hv. þm. (MG) beindi til mín. Sú fyrri var um það, hvort stjórnin hefði rannsakað innieignir erlendra manna hjer á landi. Til þessa er því að svara, að hagstofan hefir það með höndum nú. Hvað síðari spurningunni viðvíkur, um það, hvort gerðar hafi verið skýrslur um verðmæti út- og innfluttra vara, árið sem leið, þá get jeg upplýst, að það er ómögulegt að gera slíkar skýrslur nú, svo nokkuð sje á þeim að byggja, en þó eru nokkur skýrsludrög til.

Því er jeg sammála hjá háttv. þm. (MG), að verslunarreikningarnir okkar hafa verið óhagstæðir frá 1920, og sennilegt, að þeir sjeu það líka fyrir árið 1923, þó jeg viti ekkert um það enn með vissu, því fjölda verslunarskýrslur vantar enn, einkum frá Vestmannaeyjum og Akureyri.

Að svo miklu leyti sem í orðum hv. þm. (MG) virtist liggja ásökun til stjórnarinnar fyrir að hafa ekki beitt haftalögunum frá 1920 strangara en gert hefði verið, þá vil jeg taka það fram, að þar heggur hann helst til nærri sjálfum sjer, því tvö árin af þeim, sem lögin hafa gilt, voru einmitt stjórnarár hans. Hann verður því að svara sjálfur til saka um það, sem ógert var látið af því, sem gera átti, að minsta kosti 1921 og jafnvel líka 1920. Hv. þm. varð mjög skrafdrjúgt um það, að stjórnin hefði beitt slælega þessum lögum, og taldi, að með því hefði mátt spara margar miljónir. Eftir þessu mætti maður búast við, að stjórnin 1920–1921 hefði beitt þeim mjög stranglega. En það gerði hún samt sem áður ekki. Reglugerðin um beint bann á innflutningi tiltekinna vörutegunda kom ekki frá henni fyrri en eftir 1 ár, og var svo úr garði gerð, að hefði henni verið fylgt út í æsar, þá hefði sparnaðurinn orðið kr. 1200 þús. á ári, eða 2400 þús. kr. þau tvö ár, sem jeg hefi setið við stjórn. En við þennan útreikning er þó það að athuga, að óhjákvæmilegt hefði altaf orðið að leyfa sumt, sem þar var bannað, svo það hefði að sjálfsögðu höggvið skarð í sparnaðinn, og hann ekki lítinn.

Hv. þm. (MG) talaði enn um það, að reglugerðinni hefði verið slælega fylgt, og má vel vera, að meiri strangleika hefði mátt beita í því tilliti. En jeg geri ráð fyrir, að í stjórnartíð þessa hv. þm. (MG), þá hafi skrifstofustjóri annast nær einvörðungu um þessi störf, og svo hefir verið enn. Jeg mun ekki persónulega hafa haft afskifti af því, nema máske 4–5 sinnum — og jeg veit ekki betur en sá skrifstofustjóri hafi nákvæmlega fylgt sömu reglum og venju um þetta eftir að jeg tók við sem í stjórnartíð hv. þm. (MG) sjálfs. Þess skal meira að segja enn getið, að nokkurn tíma árs 1922 var að mestu tekið fyrir öll innflutningsleyfi. En þar sem búist var þá við, að horfurnar færu að batna, og þar sem vitað var, að Alþingi var illa við innflutningshöft, þá var losað um þetta haustið 1922. Þó hefir altaf verið nokkrum strangleika beitt í þessu efni, svo láta mun nærri, að ekki hafi verið leyfður innflutningur á vörum nema að litlum hluta af því umbeðna. Það er því síður en svo, að hver maður hafi fengið innflutningsleyfi fyrir það, sem hann hefir æskt. Jeg vil samt ekki verja mál mitt með neinum vafningum, og get vel játað, að meiri hörku hefði verið hægt að sýna en gert var. En jeg vona, að mjer fyrirgefist það, að jeg hefi jafnan talið mjer skylt að taka alveg tillit til vilja þingsins, og þingviljinn 1921 var án efa sá, að takmarka bæri innflutningshöftin eða jafnvel afnema þau. Skal jeg því til sönnunar lesa upp örstuttan kafla úr nál. viðskiftan. frá þessu sama þingi; þar segir svo:

„Það hefir orðið að samkomulagi í nefndinni að fallast á það, að heimildarlögin frá 8. mars 1920 hjeldust í gildi fyrst um sinn, en með því skilorði, að „óþarfur varningur“ í þeim lögum merki einungis óþarfar vörutegundir, en alls ekki nauðsynlegar vörur, þótt landsstjórninni þyki óþarft að flytja þær til landsins eftir þeim kringumstæðum, sem kunna að vera fyrir hendi í einhverju einstöku tilfelli.“ Og enn: „Þó telur nefndin óhjákvæmilegt, að undanþágur frá slíku innflutningsbanni sjeu, ef til kemur, veittar, eftir svipuðum grundvallarreglum og viðskiftanefndin hefir fylgt hingað til.“ (Alþt. 1921, A., bls. 540–541).

Það er eftir þessu lögð áhersla á það, að undanþágur sjeu veittar, og þær eiga að veitast á svipuðum grundvelli og viðskiftanefndin hafði veitt þær. Það vildi nú svo heppilega til, að einn maður úr þeirri nefnd var skrifstofustjóri í atvinnumálaráðuneytinu. Hann tók alla framkvæmdina í hendur árið 1921, þegar hv. 1. þm. Skagf. (MG) var ráðherra, og heilt ár eftir að jeg tók við, og framkvæmdin var á sama hátt í tíð beggja. Álasið og ákúrurnar til mín eru því harla einkennilegar frá hans hálfu.

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) sagði, að ef jeg hefði haft allan Framsóknarflokkinn með mjer 1922, þá hefði mjer verið innan handar að skipa svo þessum málum sem jeg hefði viljað. Jeg verð að segja, að mjer sje nú ekki annað kunnugt en að allur sá flokkur hafi fylgt mjer þá, en hitt er jafnkunnugt, að hann var í minnihluta. Því er þetta staðlausu stafir hjá hv. þm. (MG). Jeg hefi ávalt viljað meta meir yfirlýstan vilja þingsins en mína eigin skoðun, og kemur mjer það kynlega fyrir, ef hv. þm. vilja láta mig sæta vítum fyrir það.

Jeg hefi nú í fám orðum skýrt frá afstöðu stjórnarinnar til þessa máls, og hygg jeg, að varla verði annað sagt en að hún hafi stýrt þeim með gætni og samkvæmt vilja þingsins. Og þó jeg sje einn þeirra manna, sem álíta haftapólitíkina tvíeggjað sverð, meðal annars vegna þess, að ríkissjóður missir við hana tekjur, sem hann má varla við, þá skilst mjer það, að óbeinlínis sje svo mikill hagnaður að henni, að rjett sje að framfylgja henni eins og nú standa sakir.

Hv. flm. (HStef) beindi til mín þeirri spurningu, hvort stjórnin mundi ekki vilja gefa út reglugerð um bann á innflutningi á meðan málið er til umræðu í þinginu. Jeg býst nú ekki við, að stjórnin treystist til að gera það samkvæmt lögunum frá 1920 einum, en verði það yfirlýstur vilji þingsins, að svo verði gert, þá er mjer óhætt að segja, að hún muni ekki hika við að gera það.