11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í C-deild Alþingistíðinda. (2383)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Jón Þorláksson:

Hæstv. atvrh. (KlJ) hjelt því fram, að yfirlýstur þingvilji hefði fram komið á þinginu 1921, um það, hvernig beita ætti heimildarlögunum frá 1920, og hefði hann ekki sjeð sjer annað fært en að hlíta þeim þingvilja. Sá þingvilji kom ekki fram nema í nál. frá samvinnunefnd viðskiftamálanna á því þingi og hjá frsm. hennar.

En þess verður fyrst og fremst að gæta, að það, sem þá varð ofan á, verður að skoðast í ljósi þeirra viðburða og orsaka, sem fyrir hendi voru og rjeðu ákvörðunum þingsins. Stjórnin hafði þá sett bráðabirgðalög, sem heimiluðu miklu víðtækari höft en næðu til algers óþarfa, og hafði veitt innflutningsnefndinni vald til að banna allan innflutning, einnig á nauðsynjavörum. Þess verður að gæta í þessu sambandi, að verðlagið náði hámarki sínu árið 1920, en verðfallið erlendis hófst þá þegar um haustið og jókst hraðfara alt fram á þingtímann 1921. Var þá komið svo, að helstu atvinnurekendur landsins virtust ekki lengur geta staðist, þar sem tilkostnaðurinn var svo miklu meiri en það, að afurðirnar gætu borið hann uppi, þar sem verðfallið náði ekki síður til okkar en annara þjóða.

En svo stóð á, að hjer í landi var mikið fyrir af dýrum vörubirgðum, sem keyptar höfðu verið 1920, og kom innflutningsnefnd og hæstv. stjórn saman um, að hindra bæri innflutning þeirra vörutegunda meðan birgðirnar entust. Og var því beint lýst yfir af þáverandi ráðherra (Pjetri Jónssyni), að það væri gert til þess að forða þeim frá fjártjóni, er lágu með vörurnar. En þetta varð til þess, að verðfall það, sem átti sjer stað erlendis um þær mundir, náði ekki hingað. Út af þessu sneri fjöldi atvinnurekanda sjer til þingsins og fór eindregið fram á, að höftum væri ljett af, þar sem nauðsynlegt væri að lækka kaup verkalýðsins, en þeir treystust ekki til að gera það meðan nauðsynjavörurnar lækkuðu ekki í verði.

Þetta verður að hafa í huga, þegar vitnað er í ákvæði þingsins 1921, og kemur það skýrt fram í nál. samvn. viðskiftamálanna, sem hæstv. atvrh. (KlJ) las aðeins upp lítinn kafla úr. (KlJ: Les meira upp bráðum!) Það er því rjett, að hin víðtæku innflutningshöft hafi skapað öfluga mótstöðu bæði innan þings og utan, eins og æfinlega verður, þegar farið er út í öfgar, og veldur það því, að menn geta oft og einatt ekki greint þá í augnablikinu það, sem kann að vera gott og heilbrigt í ráðstöfuninni. En það stendur fast, að heimildin til að banna innflutning á óþarfa var látin standa óbreytt, enda þótt jeg og margir litu svo á, að þar væri um svo lítinn innflutning að ræða, að ráða myndi litlu um gjaldeyrinn, hvort bannaður væri sá innflutningur eða ekki. Hinsvegar voru aðrir á annari skoðun. Var jeg frsm. nefndar þeirrar, sem með málið fór, og var hún að vísu ekki sammála, en kom sjer saman um þessa málamiðlun, og vildi jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp örfá ummæli mín um málið, sem jeg viðhafði síðar á sama þingi, þegar farið var fram á að fella heimildarlögin alveg úr gildi. Jeg sagði:

„Eins og kunnugt er, þá hefir verið gengið svo frá þessu máli, að búið er að taka af stjórninni heimildina til að takmarka eða banna innflutning á nauðsynjavörum, og var það gert með því að fella bráðabirgðarlögin frá 15. apríl úr gildi. Nú er því aðeins eftir heimildin til að takmarka eða banna innflutning á óþörfum varningi, en samkv. eðli málsins hlýtur altaf að vera nokkurt álitamál um einstakar vörutegundir, hvort óþarfar sjeu eða ekki.“

Og er þetta álit mitt alveg í samræmi við nál. það, sem hæstv. atvrh. (KlJ) las upp úr lítinn kafla. Verður því ekki deilt um, að heimild til að hefta innflutning á óþarfavörum hafi verið fyrir hendi síðan. En rjettmætt gæti talist, að hæstv. stjórn teldi vilja þingsins 1921 bindandi fyrir sig, ef ekki hefðu verið háð þing síðan. En hefði hæstv. stjórn fundist þingviljinn koma í bág við sína skoðun í málinu, þá hefði verið rjett og sjálfsagt, að hún hefði snúið sjer til þinganna 1922 og ’23, til þess að komast að raun um, hvort þá væri litið öðruvísi á málið. Að það var ekki gert, virðist fullgild sönnun fyrir því, að hæstv. stjórn hafi þótt þessi þingvilji frá 1921 í samræmi við sína eigin skoðun. Hæstv. atvrh. (KlJ) sagði og eina setningu í þessu sambandi, sem virðist sýna álit hans greinilega. Hann kvaðst hafa viljað fylgja höftunum fram „með allri gætni.“

Áfelli jeg hann ekki fyrir að vilja viðhafa gætni; hennar þarf með í svona máli. En fyrst svo er, kann jeg ekki við, að stjórnin sje nú að skjóta ábyrgðinni af sjer og yfir á þing, sem háð var fyrir 3 árum síðan. Vitanlega eru nú alt aðrar ástæður og ástand hjer og annarstaðar en þá var, og ef stjórninni hefði litist svo sem framfylgja bæri heimild þessari harðar en beinn yfirlýstur vilji var um, þá átti hún að sjálfsögðu að gera það, annaðhvort upp á eigin eindæmi eða með því að leita á ný eftir þingviljanum. Jeg verð því að líta svo á, að hvort sem heiður eða halli hlýst af meðferð máls þessa, þá sje hann eign hæstv. stjórnar, sem við tók 1922.

Jeg skal ekki fara langt út í efni þessa frv., sem nú liggur fyrir. En frá mínu sjónarmiði fá ekki ein eða nein innflutningshöft rjett verslunarjöfnuðinn nje gert innflutninginn minni en útflutninginn, ef þær ástæður haldast, sem nú eru. Því það, sem gert hefir verslunarjöfnuðinn óhagstæðan hingað til, er það, að kaupgeta almennings hefir verið meiri en landsins í heild, eða það, sem kalla mætti, að fölsk kaupgeta hefir átt sjer stað.

Í landi þessu er ótakmörkuð þörf fyrir útlendar vörur, og má víst teljast föst regla, að jöfnu verði útfluttrar vöru sje varið til kaupa á þeim, hvort sem óþarfinn er bannaður eða ekki. Jeg skal nefna einn vöruflokk, sem við höfum ótakmarkaða þörf fyrir; það er byggingarefni. Og takmarkast innflutningur þeirra aðeins af því, hvað menn treysta sjer til að leggja út fyrir þau. Eins er um aukning skipastólsins; hún er okkur ekki síður nauðsynleg, og vona jeg, að menn vilji ekki takmarka þá aukning á annan hátt en þann, hvað menn telja sjer fært að eyða í þeim tilgangi. Því næst það aldrei með innflutnigshöftum, að fá afgangs upphæð útfluttra vara í verslunarskýrslunum, og hafa því höftin ekki bein áhrif á gengið. Höftin eru aftur á móti góð, ef þau eru framkvæmanleg, til þess að hindra fólkið í að nota kaupgetu sína sem miður heppilegan eyðslueyri, en bein áhrif á gengið hafa þau ekki. Fyrsta og fremsta ráðið til að bæta það, er að uppræta síðustu leifarnar af þeirri fölsku kaupgetu, sem verið hefir mikil undanfarið. Sjerhvert fyrirtæki, sem rekið er með tapi, skapar falska kaupgetu. Og undanfarið hefir mest fölsk kaupgeta skapast við það, að ríkið rekur búskap sinn með tekjuhalla ár frá ári.

Það sem því liggur næst fyrir að gera, til þess að stöðva gengisfallið, er að taka fyrir tekjuhallann á ríkissjóði og snúa heldur inn á þá braut, að tekjuafgangur náist, sem svo mætti annaðhvort nota til styrktar atvinnuvegunum eða til að borga af skuldunum.

Jeg skal ekki að þessu sinni tala um þá kosti eða galla, sem eru á frv. þessu. Innflutningsbann er altaf vandasamt, og verður að framkvæma það með allri gætni, eins og hæstv. atvrh. (KlJ) sagði. En menn mega ekki missa sjónar á því, að tiltækilegasta leiðin til að afla landinu tekna og koma um leið í veg fyrir falska kaupgetu, er eflaust sú, að leggja háa tolla á miður nauðsynlegar vörur. Það verður altaf heppilegasta leiðin. Þar með er jeg ekki að mæla gegn því, að gera jafnframt aðrar ráðstafanir, nje að halda því fram, að innflutningshöft á óþarfavarningi geti ekki komið að einhverju gagni í bili.

Það hefir verið blandað inn í umræður þessar ýmsum uppástungum öðrum til að bæta gengið. Hv. samþm. minn (JakM) taldi, að lántaka væri best í því skyni. Það er engin vafi á því, að gengishrun í hverju landi er bundið við sjerstakar ástæður og ástand, sem þar er fyrir hendi. Þó nú einhverjir reyni lántökur til að halda við gengi sínu, þá tel jeg ástand okkar þannig nú, að slík leið sje bæði ótæk og óleyfileg, og það þótt einungis væri um það að ræða, að taka lán til að gjalda önnur, sem fyrir eru. Það er t. d. hætt við því, að ef við færum að gjalda skuldir okkar í Danmörku, þá myndu lánardrotnarnir, sem þannig fá óvænt goldnar skuldir sínar, vera meira eða minna fúsir til að lána okkur aftur, og svo er lánsviljinn ekki dauður í landinu, að menn myndu ekki færa sjer slíkt í nyt. Yrði því ný lántaka aðeins til að auka skuldasúpuna, og er þess síst þörf sem stendur.