11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í C-deild Alþingistíðinda. (2384)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Jeg skal játa það hreinskilnislega, að jeg varð alveg forviða í gær, þegar jeg fjekk álas fyrir framkomu mína í þessu máli; jeg átti alls ekki von á neinu álasi, og það þegar af þeirri ástæðu, að málinu var ekki hreyft með einu orði á síðasta þingi. Þá var stjórninni fundið margt til foráttu, og ekki alt stórvægilegt, en ekkert orð fjell henni til áfellis í þessu máli. Og þó hafði heimildarlögunum frá 1920 verið beitt vægar fyrir og um þingtímann, heldur en nokkru sinni fyr eða síðar á þeim 2 árum, sem núverandi stjórn hefir farið með völd, því að síðastliðið haust var aftur hert á framkvæmd þeirra. Mjer kom því mjög á óvart, að þetta mál skyldi nú notað til árásar á mig, þar sem það hafði ekki verið gert áður. Það kom ekki síður á óvart, að hv. 1. þm. Skagf. (MG) skyldi verða til þess að álasa mjer um þetta, því að um leið og hann gerir það, álasar hann einnig þeirri stjórn, sem hann átti sjálfur sæti í. Það er því nauðsynlegt að rekja sögu þessara viðskiftahafta og hvernig þeim hefir verið framfylgt, síðan þau voru leidd í lög 1920.

Frv. um viðskiftahöft kom frá fjhn. Nd. og var hv. 1. þm. Skagf. (MG) einmitt frsm. Fyrst í stað fór frv. einungis fram á að banna innflutning á glysvarningi eingöngu, en áður en það komst í gegnum þingið var það orðið víðtækara, svo sem lögin eru nú. Það sætir furðu, að ekki skyldu verða meiri umræður um málið heldur en urðu, og hafa menn vafalaust ekki gert sjer í hugarlund, að málið mundi varða mjög miklu fyrir þjóðina. Eins og frv. var orðið, bar það ekki með sjer, að sjerstaka nefnd skyldi skipa, heldur verður ekki sjeð annað en að stjórnin skyldi hafa alla framkvæmd í málinu. Það var aðeins einn þm., sem lagði áherslu á, að skipuð yrði sjerstök nefnd til að hafa eftirlit með innflutningi. Aðrir lögðu eindregið á móti nefndarskipun. Háttv. þm. Borgf. (PO) kvaðst enga trú hafa á slíkri nefndarskipun, háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) var einnig mótfallinn skipun sjerstakrar nefndar, og sama er að segja um hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hv. 1. þm. Skagf. (MG) var ekki harður á því, og orðaði hann það svo: „Jeg skal ekki eyða frekari orðum að því, hvort nauðsynlegt væri að skipa sjerstaka innflutningsnefnd til þess að annast eftirlitið“, en tók það þó fram, að stjórnin mundi þurfa einhverja aðstoð. Síðan bætti hann við: „Hjer mundi að eins verða bannaður innflutningur á tiltölulega fáum vörutegundum.“ Hann gerði þá ekki ráð fyrir miklum og ströngum höftum. (MG: Jú, það átti að vera algert bann á þessum tegundum.) Þetta eru óbreytt orð hv. þm. (MG: Þau eru ranglega þýdd.) Þau verða ekki skilin á annan veg.

Þáverandi forsætisráðherra (JM) kemst svo að orði um frv.: „ — — Það er gott, að stjórnin hafi heimildina, og getur verið ástæða til að beita henni, en þó skal jeg ekki um það segja, hvort það verður gert eða ekki.“ Og síðar segir hann svo: „En sem sagt, þá er gott að hafa heimildina, og verður reynt að nota hana, ef hægt verður og það henta þykir.“ Og enn segir hann: „Jeg skal ekkert um það segja, hvort stjórnin sjer sjer fært að nota þessa heimild, en þó er gott að hafa hana.“

Umræðumar voru sem sagt mjög stuttar í þessari hv. deild, en alls engar í Ed. Niðurstaðan af þeim er sú, að upphaflega var ætlast til, að höftin næðu eingöngu til glysvarnings, en síðar til tiltölulega fárra vörutegunda. Stjórnin lýsti yfir, að gott væri að hafa heimildina, og gæti vel verið, að hún yrði notuð. Þetta var alt og sumt.

Hinn 8. mars 1920 vorum lögin samþykt, og þegar í stað, 11. s. m., samin og gefin út reglugerð, þar sem öll framkvæmd laganna var falin sjerstakri nefnd, er kölluð var viðskiftanefnd. Jeg skal ekki fara út í, hversvegna þessi mikla og volduga nefnd var skipuð, en tilefni þess verður ekki sjeð á umræðunum. Ekki skal jeg heldur fjölyrða um það, hvernig nefndin var skipuð eða beitti valdi sínu. En það þykist jeg geta sagt, að þessum ráðstöfunum var ekki tekið með einróma lofi landsmanna.

Það kom og brátt í ljós, að þingið hafði ekki mikla trú á þessari nefnd. Eitt af fyrri verkum þingsins 1921 var að afnema hana með öllu, og var þá gefin út reglugerð 31. mars, sem telur upp þær vörutegundir, sem voru bannaðar. Jeg hjelt því fram í gær, að ekki hefði verið gefin út reglugerð um það, hvaða vörur bannað væri að flytja inn, fyr en ári eftir samþykt laganna. Þetta er alveg rjett, því að þessi reglugerð bannar fyrst innflutning á ákveðnum vörutegundum; þangað til var viðskiftanefndin einvöld. Mjer þykir annars undarlegt, að svo mikilvæg reglugerð skyldi ekki vera prentuð í Stjórnartíðindum, heldur einungis birt í Lögbirtingablaðinu.

Nú voru framkvæmdirnar komnar í hendur stjórnarinnar, og var það eftir að viðskiftamálanefnd hafði fjallað um málið á þingi 1921. Það leynir sjer ekki, að vilji nefndarinnar var sá, að innflutningshöftin væru að mestu leyti afnumin. Nefndin var í raun rjettri þeirrar skoðunar, að afnema bæri innflutningshöftin, en til samkomulags voru heimildarlögin látin standa óhögguð fyrst um sinn, þó með ákveðnum skilningi, eins og jeg las upp í gær. Til þess að sanna, að komið hafi fram yfirlýstur þingvilji það ár, sem miðaði til að draga úr höftunum, skal jeg leyfa mjer að lesa nokkuð frekar upp úr nál. samvinnunefndar viðskiftamála á þinginu 1921 — með leyfi hæstv. forseta. En áður skal jeg taka það fram, að jeg er samþykkur því, sem hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) sagði um afstöðu þingsins til þessa máls.

Í nál. segir svo: „Þó telur nefndin óhjákvæmilegt, að undanþágur frá slíku innflutningsbanni sjeu, ef til kemur, veittar, eftir svipuðum grundvallarreglum og viðskiftanefndin hefir fylgt hingað til, en telur, að stjórnarráðið eigi að afgreiða slíkar undanþágur sjálft, án þess að halda uppi sjerstakri skrifstofu til þess.“ Og enn segir nefndin:

„Meðal nefndarmanna eru skiftar skoðanir um það, hvort rjett eða hagkvæmt sje, að stjórnin noti þessa heimild laganna frá 8. mars. Meirihluti nefndarmanna er þeirrar skoðunar, að minkun sú á innfluttu vörumagni, sem leitt gæti af notkun heimildarinnar, muni nema svo lítilli fjárhæð, að ráðstöfunin yrði þýðingarlaus fyrir verslunarjöfnuð landsins, og kæmi því ekki að haldi til gjaldeyrissparnaðar. En nokkrir nefndarmenn álíta, að upphæðin muni nema svo miklu, að rjett sje að taka upp þessa tilhögun fyrst um sinn. Varð það að samkomulagi að leggja það á vald stjórnarinnar, hvort hún notar heimildina eða ekki.“

Það er satt, að ekki liggur fyrir formlega yfirlýstur þingvilji, en jeg vona, að allir þeir hv. þm., sem vilja meta þingræðið einhvers, leggi mjer það ekki til lasts, að jeg hefi fylgt því, sem jeg þóttist sannfærður um, að vilji meirihluta þingsins væri fyrir. Jeg er svo gerður, og hefi jafnan hallast æ meir að því, eftir því sem reynsla og aldur færist yfir mig, að jeg tel það óhæfu hverri stjórn að brjóta gegn vilja þingsins, hvernig sem hann er. (JÞ: Samanber steinolíumálið!) Það mál má gjarna taka upp aftur; jeg er alls óhræddur við það, og hefi þar skýlaus lagafyrirmæli bak við mig, sem standa óhögguð enn, og óvíst, að þau hafi meirihluta þingsins á móti sjer.

Það var tekið fram í þeim kafla, sem jeg las upp úr nál. viðskiftamálanefndar 1921, að lögin ætti að framkvæma eftir svipuðum grundvallarreglum sem viðskiftanefndin hefði gert. Nú vildi svo heppilega til, að einn af nefndarmönnum í viðskiftanefndinni var einnig skrifstofustjóri í atvinnumáladeild stjórnarráðsins. Enginn gat því verið kunnugri en hann um meginreglur nefndarinnar. Hvernig var lögunum svo framfylgt? Á þann hátt, að oft og tíðum voru gefnar undanþágur, og eftir upplýsingum, sem jeg hefi fengið, talsvert meiri en veittar voru á síðari hluta ársins 1923. Þegar núverandi stjórn tók við völdum, snemma á árinu 1922, hjelt þessi maður nákvæmlega hinni sömu reglu um framkvæmd laganna, að minsta kosti framan af árinu. Það sem hv. 1. þm. Skagf. (MG) álasar mjer fyrir, er því miklu fremur álas á stjórn þá, sem hann átti sjálfur sæti í.

Á þingi 1922 var þetta mál enn til umræðu. þá bar Framsóknarflokkurinn fram frv. um innflutningshöft, og kom það til umræðu, en ekki lengra. Hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) spyr, hversvegna málinu hafi ekki verið haldið áfram. Af þeirri ástæðu, er allir vissu, að engin von var til þess að fá málinu framgengt. Má vera, að það hafi nokkru um valdið, að það stóð þá í sambandi við annað mál, er einnig var á döfinni, sem sje gjaldeyrisráðstafanir. En hefðu andstæðingar þess máls viljað koma innflutningshaftafrv. fram, gátu þeir flutt brtt. við frv. (MG: Þær komu fram.) En þeim var ekki nægilega framfylgt.

Haustið 1922 var eins og lifnaði yfir öllu, og menn urðu talsvert bjartsýnni en áður. Jeg hygg, að það hafi þá verið talsvert almenn skoðun, ekki einungis meðal atvinnurekenda, kaupsýslumanna og þingmanna, heldur einnig með allri alþýðu, að horfurnar hefðu batnað svo, að nú þyrfti ekki lengur að halda í þessi höft. Það var því talsvert losað um þau, og á þingi 1923 komu engin ummæli í þá átt, að stjórnin hefði misbeitt þessu valdi á neinn hátt. Hafði stjórnin fulla heimild til að gera ráð fyrir, að framkvæmd laganna væri fullkomlega í samræmi við þingviljann.

Nokkru síðar versnaði ástandið að mun og gjaldeyririnn lækkaði enn meir, og var því innflutningur á óþarfavarningi heftur miklu meir en áður, svo að nú voru einungis einstaka undanþágur veittar. Jeg skal leyfa mjer að nefna örfá dæmi til þess að sýna, hvernig þessum lögum var beitt upp á síðkastið.

Kaupmaður á Akureyri beiddi um leyfi fyrir 5 píanóum og 30 harmoníum, en fjekk að flytja inn 1 píanó og 3 harmoníum. Kaupkona ein úti á landi beiddi um að mega flytja inn silki fyrir 10000 kr., en var leyft fyrir 2000 kr. Firma hjer í bæ óskaði eftir leyfi til að flytja inn kaffibrauð fyrir 6000 kr., fjekk leyfi fyrir 1000 kr. Í október var beðið um leyfi til að flytja inn leikföng fyrir 5000 kr., en var alveg synjað. Í sama mánuði beiddi annar maður um að fá að flytja inn 36 harmoníum, en fjekk ekkert. Öðrum var í sama mánuði neitað um innflutning á flugeldum fyrir 5000 kr. Menn munu nú samt hafa þóst verða þess varir á nýársnótt, síðustu, að eitthvað væri til í bænum af flugeldum, og þótt það grunsamlegt, þar sem ekki hafði verið leyfður innflutningur á flugeldum langan tíma. Stjórnarráðið lagði því fyrir lögreglustjóra að rannsaka þetta sjerstaklega, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að þetta hefðu verið gamlar birgðir. Jeg gæti nefnt miklu fleiri dæmi; hefi aðeins tekið þessi af handahófi og þykir ekki ástæða til að þreyta hv. deild á lengri upplestri. Þó skal jeg bæta því við, að kaupmaður einn á Sauðárkróki, jeg veit ekki hvort hann er kjósandi hv. 1. þm. Skagf. (MG), beiddi um leyfi fyrir 21 harmoniku, en þess var synjað. Þá kom það í ljós, að maðurinn hafði keypt þetta í Þýskalandi og borgað, og vörurnar voru komnar á land og lágu undir skemdum á afgreiðslunni. Þótti þá eftir atvikum rjett að veita leyfið, og vænti jeg þess, að hv. 1. þm. Skagf. (MG) muni ekki álasa mjer mjög fyrir, þó að jeg hafi þannig orðið þess valdandi, að auðið hefir verið að halda uppi dálitlum gleðskap hjá þeim góðu Skagfirðingum í vetur.

Jeg hygg, að jeg hafi skýrt nægilega frá, hvernig lögunum hefir verið beitt í seinni tíð, en þyki það ekki fullrætt, má bæta úr því við 2. umr. Jeg held því eindregið fram, að jeg hafi í þessu farið eftir vilja meirihluta þingsins. Og þar sem frv. til þessara laga var í upphafi flutt aðallega af hv. 1. þm. Skagf. (MG), þykir mjer undarlegt, að hann skuli verða til þess að álasa mjer fyrir framkvæmd mína á lögunum. Mjer hefði síður komið það á óvart, þó að hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) hefði álasað mjer fyrir að gefa ekki alt laust.

Út af fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf. (MG), um verslunarjöfnuðinn á síðastliðnu ári, skal jeg endurtaka það, sem jeg sagði í gær, að ennþá verður ekki sagt neitt um það með fullri vissu. Hagstofan hefir tjáð mjer, að samkvæmt skýrslum þeim, sem hún hefir fengið, hafi útflutningsgjöld 1923 numið 428.533 kr., og telur hún það samsvara 42,8 milj. kr. útflutningi. Þar við bætist síldarútflutningur, sem hefir numið 200000 tunnum, eftir skýrslum, sem lögreglustjórar hafa gefið jafnóðum og síldin var flutt út, en er sennilega of lágt reiknað eftir tollupphæðinni að dæma.

Áætlað söluverð þeirrar síldar er 6 milj. kr. Ennfremur hefir verið flutt út fóðurmjöl og áburðarefni fyrir um ½ milj. kr., og hefir útflutningurinn þá numið alls um 49,3 milj. kr.

Um innflutninginn getur hagstofan ekki sagt neitt með vissu ennþá, því að mjög margar innflutningsskýrslur eru ókomnar til hennar. Eftir skýrslum þeim, sem henni hafa þegar borist, hafa verið fluttar inn vörur á árinu fyrir 38 milj. kr. En hagstofustjóri gat þess munnlega við mig, að vel gæti verið, að margar upphæðir væri taldar í dönskum krónum, án þess að það væri tilgreint, og þá hækkar upphæðin nokkuð, auk þess sem enn vantaði margar skýrslur. En hann taldi ósennilegt, að þetta mundi nema svo miklu, að verslunarjöfnuðurinn yrði oss ekki hagstæður. Nákvæmari skýrslu er ekki unt að gefa að sinni.

Jeg hygg, að jeg hafi nú svarað flestu því, er máli skiftir. Hv. 1. þm. Skagf. (MG) spurði, hversvegna frv. um innflutningshöft hafi verið stöðvað á þingi 1922. Því hefi jeg svarað að nokkru leyti, og býst jeg við, að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem innan skamms mun taka til máls, muni svara því betur, en hann var þá framsögumaður þess máls af hendi Framsóknarflokksins.

Hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) fanst það ekki eiga vel við, að stjórnin kastaði nú allri ábyrgð á þingið 1921. Nei, það er öðru nær en það sje gert. Á þingi 1922 var stjórnin nýtekin við völdum, og hefir verið skýrt frá allri aðstöðu á því þingi. Á þinginu í fyrra komu engar ákærur á hendur stjórninni fyrir framkvæmdir hennar í þessu máli, og hafði hún því fylstu ástæðu til að ætla, að hún væri fullkomlega í samræmi við þingviljann. En síðan hafa orðið svo miklar breytingar, bæði vegna þess, að krónan hefir farið dagfallandi og kaupgeta manna minkað, að ástæða virðist til að gera eitthvað í þessu máli, og það hefi jeg gert með því að stuðla að því, að þetta frv. kom fram, og var ýmsum kunnugt um það, áður en frv. var útbýtt, svo sem hv. 1. þm. Reykv. (JÞ). Mjer er ekki kappsmál að halda í einstakar leiðir í þessu máli, heldur mun jeg beygja mig undir vilja þingsins í því efni. Jeg gæti t. d. vel sætt mig við, að svo hár verðtollur yrði lagður á sumar vörutegundir, að það jafngilti fullkomnu banni. Skal jeg svo láta staðar numið að sinni, enda mun tækifæri til að ræða málið betur síðar, því að jeg þykist þess fullvis, að frv. fái að ganga til nefndar.