23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg skal reyna að ganga á undan með góðu eftirdæmi og vera svo stuttorður, sem unt er, þegar jeg nú vil gera nokkra grein fyrir brtt. fjvn. á þskj. 417. Fyrst hefir hún leyft sjer að gera þrjár brtt. við tekjukafla fjárlaganna. Hin fyrsta þeirra er við 2. gr. 14. lið, um að hækka áætlaðar tekjur af stimpilgjaldi upp í 600 þús. kr. Jeg þykist vita, að allir háttv. deildarmenn viti, að þessi hækkun er fram komin vegna verðtollslaganna, sem þingið hefir nýlega samþykt, en ekki hefir fyr verið tekið tillit til í fjárlagafrv. En eins og kunnugt er, á að innheimta þann toll sem stimpilgjald, og er því ekki nema eðlilegt, að tekið sje tillit til þessa tolls, með því að hækka tekjuáætlunina, sem því nemur, er búast má við, að hann gefi í aðra hönd.

Þegar verðtollsfrv. var til umræðu í hv. Nd., voru þar gefnar þær upplýsingar, að innflutningur þeirra vörutegunda, sem þá var gert ráð fyrir að tollurinn næði til, hefði numið um 10 milj. kr. árið 1921. Þar sem tollurinn er 20%, hefði hann átt að nema 2 milj. kr., ef gera hefði mátt ráð fyrir sama innflutningi. En þá var strax gert ráð fyrir því, að tollurinn sjálfur myndi draga til helmings úr innflutningnum, svo að tekjurnar af honum næmu í hæsta lagi 1 milj. kr., og það var sá tekjuauki, sem búist var við mestum, þegar frv. kom fyrir þessa hv. deild. En hjer voru gerðar verulegar breytingar á frv., eða svo miklar, að óhætt mun að fullyrða, að þær hafi rýrt tekjuaukann, sem það hafði í för með sjer, fast að helmingi þess, sem áður var hann áætlaður. Nefndin vill nú fara varlega í áætlunum sínum og áætla tekjuaukann vegna verðtollsins 300 þús. kr. Sumir hv. nefndarmenn vildu meira að segja fara enn varlegar í sakirnar og gera aðeins ráð fyrir 200 þús. kr. tekjuauka, vegna þess, að nú er aðflutningsbann á miklum hluta þeirra vörutegunda, sem tollurinn nær til. En nefndin bjóst við, að því hærri sem tekjur ríkissjóðs vegna verðtollsins væru áætlaðar, því minna gerði hæstv. stjórn að því að hefta innflutning, því að það liggur beint við, að stjórnin reyni að gæta þess, að ríkissjóður fái þær tekjur, sem honum eru áætlaðar í fjárlögum.

Ef þingið nú áætlar, að verðtollurinn gefi ríkissjóði 300 þús. kr. tekjur, þá geri jeg ráð fyrir, að hæstv. stjórn beiti ekki meiri innflutningshöftum en svo, að hún sje viss um, að ríkissjóður fái þessar tekjur.

Önnur brtt. nefndarinnar við þennan kafla er sú, að hækka áætluð skólagjöld upp í 20 þús. kr. Þetta skólagjald kom fyrst til sögunnar árið 1923 og náði þá aðeins til lægstu deilda þeirra skóla, er það á annað borð náði til. Eftir upplýsingum, sem nefndin hefir aflað sjer hjá ríkisfjehirði, nam gjald þetta fyrsta árið samtals 6850 kr.

Þegar þess er gætt, að gjaldið náði aðeins til neðstu deilda skólanna og að nú bætast næstneðstu deildirnar við, með tiltölulega jafnmörgum nemendum, má áætla, að gjaldið nemi í ár 13–14 þús. kr. Árið 1925 bætist ekki aðeins þriðja deildin við hvern skóla, sem verður gjaldskyld, heldur er gert ráð fyrir, að gjaldið nái þá einnig til lærdómsdeildar mentaskólans. Auk þess er það hækkað úr 100 kr. upp í 150 kr. fyrir innanbæjarnemendur. Er því ekki of hátt reiknað að ætlast til, að það gefi 20 þús. kr. tekjur, jafnvel þó gengið sje út frá því sem sjálfsögðu, að undanþágur frá því verði framvegis veittar, ef skilyrði fjárlaganna eru fyrir hendi.

Þriðja brtt. er um, að áætlaður arður af hlutafjáreign ríkissjóðs í Eimskipafjelagi Íslands falli niður. Eftir öllum upplýsingum um hag fjelagsins og frv. þeim, sem fyrir þinginu liggja, um að undanþiggja það opinberum gjöldum og styrkja það á ýmsan hátt, þá sýnist lítils arðs að vænta úr þeirri átt, og er það því aðeins að villa sýn að færa hann tekjumegin.

Næst er að minnast á brtt. nefndarinnar við 13. gr. C. 1. a., um að lækka styrkinn til Esju úr 180 þús. kr. niður í 150 þús. kr. Ástæðan til þessarar brtt. er sú, að stjórn Eimskipafjelagsins hefir skrifað atvinnumálaráðuneytinu brjef, þar sem hún gerir till. um, að strandferðum Esju verði breytt þannig, að þær byrji í öndverðum aprílmánuði og haldi áfram fram í nóvember. Þá fari skipið til útlanda og liggi þar í þurkví til 15. mars, en haldi síðan til Reykjavíkur, til þess að hefja strandferðirnar á ný. Gert er og ráð fyrir því, að mestur hluti skipshafnarinnar verði sendur hingað heim á meðan skipið er erlendis, en verði síðan sendur út aftur í byrjun marsmánaðar. Stjórn Eimskipafjelagsins áætlar, að við þessa tilhögun sparist um 54 þús. kr. Aftur á móti býst hún við því, að veita þurfi Goðafossi um 10 þús. kr. styrk til þess að halda uppi strandferðum yfir vetrarmánuðina, og að sparnaðurinn verði þannig samtals um 44 þús. kr.

Hæstv. stjórn hefir lagt þessa tillögu Eimskipafjelagsins fyrir samgmn. þingsins, og hafa þær fallist á þær. Sömuleiðis hefir hæstv. atvrh. (MG) fallist á þær, og sama er að segja um fjvn., og hefir hún því leyft sjer að bera fram þessa tillögu.

Næsta brtt. nefndarinnar er um, að kennaralaun háskólans lækki um 7000 kr. Ástæðan er sú, að nú er búist við því, að prófessorinn í hagnýtri sálarfræði verði, áður en fjárlög þessi ganga í gildi, skipaður landsbókavörður og hverfi því frá háskólanum. Telur nefndin því rjett að lækka kennaralaunin sem næst þeirri upphæð, sem hann annars myndi fá sem kennari. Í samræmi við þessa brtt. ber nefndin svo fram aðra, um að núverandi landsbókavörður fái hækkuð lögmælt eftirlaun, þegar hann lætur af embætti.

Þá er brtt. um að hækka náms- og húsaleigustyrk til stúdenta við háskólann hjer um 3000 kr., eða upp í 13 þús. kr. Nefndin sá sjer ekki fært að fara hærra, þó að hún hinsvegar viðurkenni, hversu afarerfitt stúdentar eiga með að komast af, og þó að hjer sje um mjög verulega niðurfærslu að ræða frá því, sem nú er. Árið 1923 var þessi náms- og húsaleigustyrkur 18 þús. kr., en í núgildandi fjárlögum 21 þús. kr. Þó að þessi till. nefndarinnar verði samþykt, þá er hjer um verulega lækkun að ræða. Jafnframt vil jeg geta nokkurs aths. um þennan styrk, sem sje að ætlast er til þess, að 12500 kr. komi úr sáttmálasjóði í þessu skyni. Fjvn. er því að vísu samþykk, að eftir skipulagsskrá sjóðsins ráði háskólaráðið því eitt, hvernig tekjum hans er varið. En hinsvegar vill nefndin slá því föstu, að ekkert það ákvæði finnist í stofnskrá sjóðsins, sem sje því til fyrirstöðu, að stúdentar sjeu styrktir af honum, heldur þvert á móti; það er í fullu samræmi við stofnskrána. Það er því undir stjórn sjóðsins, háskólaráðinu, komið, hvort stúdentar fá þennan styrk. Við háskólann eru nú um 100 stúdentar, og af þeim eru í ár 76 styrkþegar. Það er því ekki há upphæð, sem kemur í hlut hvers. Nefndin er annars þeirrar skoðunar, að frekar beri að veita eldri en yngri stúdentum styrk þennan, en hefir þó ekki treyst sjer til að setja ákveðnar reglur þar að lútandi. Það er ilt fyrir menn að þurfa að hætta námi að afloknu stúdentsprófi, en þó er enn meiri röskun á lífsbraut þeirra, sem þurfa að hætta eftir tveggja til þriggja ára háskólanám. Jeg vil vona, að háttv. deild samþykki því þessa hækkunartill., því að hún verður að teljast mjög sanngjörn. Það eitt kann að vera athugavert við hana, að hún gangi ekki nógu langt.

Íslenskir stúdentar við erlenda háskóla, sem nú munu vera um 25, fá nú 1200 kr. danskar hver, og nam styrkur þessi síðastliðið ár yfir 30 þús. kr. Nú er ekki meiningin, að styrkur þessi verði áætlunarupphæð, heldur fari ekki fram úr 12000 kr. samtals, samkv. till. hv. Nd. Sjá því allir, að hjer er mjög þrengt að kjörum þessara stúdenta, og er spurning, hvort margir þeirra verði ekki að hætta námi, ef svo langt verður gengið. Hv. Nd. hefir, að dómi nefndarinnar, farið of langt í því að skera styrk þennan við neglur sjer, og væntir hún þess, að hv. deild geti að minsta kosti fylgt till. sinni um 3000 kr. hækkun á þessum lið.

Þá hefir nefndin lagt til, að laun við Þjóðskjalasafnið verði færð úr 13 þús. kr. niður í 6750 kr., sem eru byrjunarlaun þjóðskjalavarðar með dýrtíðaruppbót. Það er nú búist við því, að embætti þetta verði veitt núverandi aðstoðarskjalaverði, en það embætti verði aftur á móti ekki veitt. Við þá ráðstöfun sparast þannig um 6000 kr.

Í sambandi við þetta vill nefndin leggja til, að ætlað verði til aðstoðar við safnið 1500 kr., í stað 1000 kr., sem nú er í frv. Er ekki nema sanngjarnt að ætla þjóðskjalaverði dálítið meiri aðstoð framvegis við að búa um skjöl en hingað til hefir verið, þar sem hann verður hjer eftir eini fasti starfsmaður safnsins, í stað tveggja áður.

Þá vill nefndin lækka styrkinn til Hannesar Þorsteinssonar um 500 kr., niður í 1500 kr. Stafar þessi till. ekki af því, að nefndin viðurkenni ekki vísindastarfsemi þessa manns, heldur af hinu, að búist er við því, eins og jeg tók áður fram, að hann taki nú við þjóðskjalavarðarembættinu og hafi því minni tíma til vísindaiðkana sinna en áður.

Þá leggur nefndin til, að liðurinn I, b. í 18. gr. frv. verði hækkaður um 200 kr. Ástæðan er sú, að í tilsk. frá 31. maí 1855, sem var enn í gildi þegar Hannes sál. Hafstein dó, var gengið út frá því, að börn embættismanna fengju 100 kr. styrk. En þrátt fyrir það hefir ennþá farist fyrir, að þau tvö börn hans, sem enn eru í ómegð, hafi fengið nokkurn slíkan styrk, líklega vegna þess, að kona hans var dáin á undan honum. Hinsvegar hefir Íslandsbanki lagt börnum þessum til 1000 kr. styrk hvoru í virðingarskyni við minningu föðurins. Nú hefir fjárhaldsmaður þeirra farið þess á leit, að börnin fengju þennan lögboðna styrk, 100 kr. hvort, frá þeim tíma, er faðir þeirra dó, og hefir hæstv. stjórn mælt með því. Fjvn. lítur svo á, að sjálfsagt sje að verða við þessari málaleitun, og leggur því til, að liðurinn verði hækkaður um 200 kr., en vill þó jafnframt láta þess getið, að hún ætlast til, að börnin fái lögmæltan styrk frá dánardægri Hafsteins sál., þó að styrkurinn hafi ekki verið tekinn upp í fjárlögum fyr en nú.

Þá kemur nýr liður, sem jeg reyndar gat um áðan, að veita Jóni Jacobson landsbókaverði 3000 kr., ef hann lætur af embætti. Eins og jeg hefi áður sagt, er í ráði, að svo verði, og hefir hv. mentamn. lagt eindregið til, að honum verði veitt þessi eftirlaun, og hefir fjvn. fallist á það.

Þá hefir nefndin gert tvær brtt. við 19. gr., og er sú fyrri þeirra skipulagsbreyting. Nú á gr. í frv. að vera í tveim liðum, en er aðeins í einum lið. Nefndin lætur hann óbreyttan að öðru leyti en því, að ákvæðið um að veita Ólafi J. Hvanndal greiðslufrest á viðlagasjóðsláni sje fært úr þessari grein og flutt til 21. gr. frv.

Hin brtt. við 19. gr. er sú, að áætla 100 þús. kr. fyrir væntanlegri hækkun dýrtíðaruppbótar embættismanna. Nefndinni hefir borist erindi frá hæstv. fjrh. (JÞ), þar sem hann skýrir frá því, að hann hafi látið hagstofuna reikna út dýrtíðaruppbótina fyrir árið 1925, eins og hún yrði eftir því verðlagi, sem var í aprílmánuði í ár. Komst hagstofan að þeirri niðurstöðu, að samkv. núgildandi verðlagi yrði hún 591/3%, en í fjárlagafrv. er hún nú áætluð 50%. Hæstv. fjrh. þykir ótækt, að þessi dýrtíðaruppbót verði í fjárlögum áætluð lægri en líkur eru til, að hún verði í raun og veru, og hefir því lagt til, að vegna þessarar hækkunar verði 168 þús. kr. áætlaðar í einu lagi í 19. gr. frv., þar eð ekki sje gerandi að skifta hækkuninni niður á allar þær gr. frv., sem hún nær til. Nefndin er honum sammála um þetta atriði, og eins um hitt, að taka beri tillit til hækkunarinnar, en vill áætla hana 100 þús. kr.; jafnvel þó að gera megi eins vel ráð fyrir henni hærri þegar til kemur, þá er þó ekki víst enn, hversu miklu hækkunin nemur. Ræður nefndin því hv. deild til að samþykkja sína brtt. heldur en till. hæstv. fjrh., þó að það skifti í sjálfu sjer ekki miklu máli, þar sem hjer er um áætlunarupphæð að ræða.

Annar liður 21. gr. fer í þá átt, að klæðaverksmiðjunni Álafossi verði veittur afborgunarfrestur af láni sínu. Verksmiðjan var áður, eins og kunnugt er, eign Sigurjóns Pjeturssonar og Einars bróður hans. Þeir hafa nú framselt bú sitt til gjaldþrotaskifta, en kona Sigurjóns hefir fengið verksmiðjuna framselda. hefir hún komist að samningum við Íslandsbanka, og er því líklegt, að verksmiðjan geti haldið áfram að starfa, ef henni verður veittur þessi afborgunarfrestur. Fyrverandi stjórn var með þessu og núverandi hæstv. stjórn einnig, og því hefir fjvn. komið fram með þessa brtt.

Þá hefir komið fram beiðni frá Guðmundi sýslumanni Björnssyni, þess efnis, að fastákveðið verði, hvernig honum beri að greiða vexti af viðlagasjóðsláni hans. Voru vextirnir fyrst ákveðnir 6%, en þá voru bankavextir 8%. Var tilætlunin sú, að vextir af láni hans skyldu vera 2% undir venjulegum bankavöxtum. Bankavextir fóru um eitt skeið niður fyrir 8%, en engu að síður var hann krafinn um 6% vexti. Vegna þessa fer sýslumaðurinn nú þess á leit að fá fastákveðið um þetta atriði. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir mælt með beiðni hans, og því hefir fjvn. komið með þessa brtt. Nú sem stendur eru útlánsvextir bankanna hjer 8%, og meðan svo er hefir þetta enga „praktiska“ þýðingu, en lækki þeir aftur, þá hefir brtt. sín áhrif, og þess vegna er mál þetta borið fram.

Þá á fjvn. ekki fleiri till. að þessu sinni, en um aðrar brtt. ætla jeg ekki að tala nú. Ef brtt. um að hækka tekjukaflann um 317 þús. kr. ÷ 5 þús. kr. verða samþyktar, aukast áætlaðar tekjur um 312 þús. kr. Sparnaðartill. nefndarinnar nema í alt 45 þús. kr. Hinsvegar hefir nefndin orðið að leggja það til, að tekinn yrði upp stór útgjaldaliður, sem sje 100 þús. kr. til viðbótar við dýrtíðaruppbótina, en aðrar hækkanir nefndarinnar nema 6000 kr. Ef brtt. þessar verða samþyktar, en ekki aðrar, þá fer fjárlagafrv. út úr þessari háttv. deild með töluverðum tekjuafgangi. Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um brtt. að sinni.