12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í C-deild Alþingistíðinda. (2390)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Ágúst Flygenring:

Umræðurnar hjer á undan hafa aðallega snúist um fortíð þessa máls, hvað í því hafi gert verið á fyrri þingum og um alt viðhorf þessara mála þá. En eins og nú er ástatt um hagi landsins, er full ástæða til þess að menn snúi sjer einnig að nútíðinni og að þessu frv. meira en gert hefir verið í umræðunum. Með þessum formála, ætla jeg þá að snúa mjer að frv. því, sem hjer liggur fyrir, og fara um það nokkrum orðum.

Háttv. flm. ætlar sjer að bæta hag þjóðarinnar með þessu frv., og um leið með þeim þjóðarhagsbótum að hafa bætandi áhrif á gengi hinnar íslensku krónu. Jeg get ekki verið á þeirri skoðun, að þetta sje rjetta leiðin til þess að rjetta hag ríkissjóðs, og til þess að bæta upp tekjuhalla ríkissjóðs verðum við að velja einhverja aðra leið; með þessu frv. verður það ekki gert. Við verðum þá t. d. að leggja háa tolla á aðrar vörur, sem nauðsynlegri eru taldar en þessar. En jeg efast mjög um það, að skattþegnar verði færari um að greiða háa skatta, þó þetta frv. verði samþ. Jeg hygg, að frv. muni hafa alveg gagnstæð áhrif. En nýir skattar verða alveg óumflýjanlegir, og jeg hygg, að enginn sje sá, sem hugsi sjer, að hjá því verði komist að grípa til þeirra. Jeg álít það vera óviðurkvæmilegt að banna með öllu innflutning á óþörfum eða lítt nauðsynlegum vörum, í stað þess að leggja tolla á þær og láta ríkissjóð taka tekjur af innflutningi þeirra. Ef þetta er ekki gert, verður að leggja gjöldin, tollana, á vörur, sem vjer getum ekki eða lítt án verið, annaðhvort til neyslu eða framleiðslu. En jeg vil draga úr og takmarka neyslu óþarfavarnings með háum tollum, en láta ríkissjóð hafa hag af því, sem inn flyst af þeim. Margar af þeim vörum, sem frv. vill láta banna oss að nota, eru alls ekki ónauðsynlegar. Vjer höfum vanið oss á að nota þessar vörur og getum því illa án þeirra verið. Þar á meðal er t. d. klæðnaður og skófatnaður. Heimilisiðnaður er nú orðinn nær enginn til hjer, og þó að til sjeu tvær klæðaverksmiðjur, sín í hvorum landshluta, Suður- og Norðurlandi, er langt frá því, að þær geti fullnægt klæðaþörf landsmanna; auk þess geta þær ekki búið til nema örfáar tegundir utanyfirfataefna. Sama gegnir um skófatnaðinn; án erlends skófatnaðar getum vjer ekki verið, þar sem enginn innlendur iðnaður er til, er getur bætt hann upp fyrir oss.

Hv. flm. (HStef) segir frv. vera bygt á og borið fram af almennum þjóðarvilja. Jeg fæ hvorki sjeð, hversu almennur sá þjóðarvilji er, nje að hann sje bygður á svo traustum grundvelli sem vera skyldi. Almenningsviljinn er vanur að breytast, og það oft fljótlega. Verði þetta frv. samþ., mun þessi almenni þjóðarvilji breytast fljótt, er hann rekur sig á afleiðingar bannsins, og hann mun reka sig illa á. Almenningsviljinn mun alls ekki vilja una því að fara aftur á bak og lifa upp aftur lífi forfeðra vorra fyrir 100 árum síðan. Það ætla jeg, að enginn maður á landinu vilji; enda hafa lifnaðarhættir þjóðarinnar breyst svo mjög á þessum síðustu 100 árum, að jeg efast um, að hægt verði að færast aftur í skorður þeirra tíma. Og við eflum ekki heimilisiðnaðinn með aðflutningsbanni einu saman; þar verður að koma fleira til. Enn eru margar þær nauðsynjavörur á bannlistanum samkvæmt þessu frv., sem ómögulegt er án að vera, nema menn eigi að fara að lifa eins og Eskimóar. Þó veit jeg ekki nema jeg geti orðið hv. flm. samferða í því að hefta að einhverju leyti eitthvað af þeim vörum, sem eru miður nauðsynlegar, því jeg tel mjög æskilegt, að menn kaupi sem minst af alóþörfum vörum. Hitt læt jeg þó ósagt um, hvort yrði betri leið að banna innflutning þeirra eða hátolla þær. Þó held jeg jafnvel, að hátollarnir mundu reynast skárra úrræði og þjóðin una betur við það. Að rjettu lagi — og það er heilbrigðast — ætti ekki að banna neinar vörur nema þær, sem skaðlegar eru, en ekki allar ónauðsynjavörur. Hljóðfæri eru t. d. ónauðsynleg, þ. e., menn komast af án þeirra, en þó er mjög óviðkunnanlegt að banna þau, því þau veita manni svo mikinn unað og ánægju. Það væri alllangt spor aftur á bak. Jeg hugsa mjer nú, að hv. flm. ætli sjer ekki að banna margt af þessum vörum nema um stundarsakir, t. d. 2–3 ár, og mætti þá vitanlega komast af án þeirra. Bifreiðar eru t. d. mjög þægileg samgöngubót, einkum til vöruflutninga, og er þar sparnaðarauki að þeim. Eru þær víða álitnar nauðsynlegar, og svo verður nú orðið að álitast hjer. Þær hafa rutt sjer til rúms um allan heim á síðastliðnum 24 árum. Á Norðurlandasýningunni um aldamótin, sem haldin var í Kaupmannahöfn, voru þær að vísu, en þá lítt þektar, en síðan hafa þær dreifst út um öll lönd í miljóna tali. Vjer getum alls ekki talið, að þær sjeu „luxus“-vörur hjer á landi, þótt svo kunni sumstaðar að vera, og varla eru þær taldar vera það í Ameríku, þar sem svo að segja hver bóndi á bifreið. Fæstar vörur geta talist alóþarfar, og líti maður á þær eingöngu, þá nemur það ekki miklu, sem vjer flytjum inn af þeim; máske fáein 100 þús. kr. virði, og munar þjóðarbúskapinn það ekki miklu. Það var í gær talið frv. til gildis í einni þingræðu, að það fækkaði til muna braskaralýð, sem ræðumaður taldi bæði óþarfan og óheiðarlegan, — en svo nefndi ræðum. þá kaupmenn, sem versluðu með þessar vörur. Þetta þykja mjer bæði ósæmileg og ómakleg orð af þingmanni um þessa stjett. Margir þessara manna eru í engu óþarfari eða óheiðarlegri en t. d. þeir, sem versla með kol og salt o. s. frv., og verði þeir dæmdur óþarfur lýður í landi, þá má svo að kveða um alla verslunarstjettina. Þeir menn, sem með þessar vörur hafa verslað, standa að mínum dómi — jeg þekki sjálfur marga þeirra — engum öðrum borgurum landsins að baki í mannkostum og heiðarleik. Fjöldi manna hefir nú þessa atvinnu að lífsstarfi, og ef nú lögin banna þetta, sem allstaðar er leyft annarsstaðar, finst mjer það vera mjög óeðlilegt og allnærri gengið persónufrelsi manna, ef þessir menn skulu sviftir atvinnu og þeim sama sem kastað út á götuna. Jeg held vissulega, að ef nú á að raska mjög grundvelli frjálsrar verslunar og kreppa mjög að persónufrelsi manna, og þar með svifta fjölda manna atvinnu, verði það aldrei til þess að bæta eða efla velgengni í landinu. Til þess verða menn að finna aðrar leiðir, og jeg efast ekki um það, að hv. flm. muni sjá þetta eins vel og jeg, er hann athugar það nánar.

Hv. flm. taldi þetta vera hið fyrsta spor í áttina til þess að gera nauðsynlegar breytingar til bóta á fjárhagsástæðum landsins. Næsta sporið yrði þá líklega einkasala á afurðum landsmanna, og að gjaldeyrisverslunin yrði lögð í hendur ríkisstjórnarinnar. Þetta liggur hjer að vísu ekki fyrir til umr., en jeg hefi þó eitthvert hugboð um, að þetta muni vera í undirbúningi hjá einhverjum þingmönnum. Get jeg ekki annað sagt um þetta, en að mjer finnist þessar fyrirætlanir vera hreinræktaður „bolsjevismus“, en um þetta verður máske síðar tækifæri að ræða hjer á þinginu. Það er annars mikil umhyggja, sem af sumum hv. þm. er látin í veðri vaka um velferð lýðsins. Það á að sjá um með lagahöftum, að landslýðurinn geri ekki ýmislegt, sem hann kunni að gera sjálfum sjer í óhag. En um leið eru sífelt lögð bönd á persónufrelsi manna, og allt á að framkvæmast með höftum og banni. Það er verið að fara með almenning eins og börn, sem bannað er að fara með skaðlega hluti. Allt óhóf á að lækna með banni. Þetta er alls ekki sæmilegt fyrir þjóð, sem telur sig vera menningarþjóð, og síst sæmilegt mönnum fram að bera, er telja sig vera meðal forystumanna á Alþingi. Það væri óskandi, að þetta frv. gæti orðið að notum að einhverju leyti, til þess að draga úr neyslu óþarfa varnings, eins og hv. flm. ætlast til, eftir að því hefir verið breytt. En jeg vil um leið óska, að það mætti takast að fá því þá breytt eitthvað á þann veg, að það gæti orðið ríkissjóði tekjulind um leið. Annars vinnur það þjóðinni aðeins ógagn.