12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í C-deild Alþingistíðinda. (2393)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Pjetur Ottesen:

Jeg get tekið undir það með hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) að það, sem mestu máli skiftir nú, er að búa svo í haginn, að innflutningshöftin komi að sem mestu liði fyrir þjóðina, og er það þá vitanlega sú hliðin, sem að framkvæmd þeirra snýr, sem gerst þarf að athuga, því eftir því, hvernig um þá hnúta er búið, fer um árangurinn. Það er þetta, sem framundan er, sem mestu máli skiftir eins og nú er komið. Það er tómt mál að tala um það nú, þó hæstv. stjórn hafi illa gætt hagsmuna þjóðarinnar nú á undanförnum 2 árum, með því að láta nær með öllu undir höfuð leggjast að nota heimild þá, sem til er, til þess að takmarka og banna innflutning á óþarfavarningi. Hefir saga haftamálsins á undanförnum þingum verið dregin allmjög inn í umr. nú, og það svo einhliða, að eigi verður hjá því komist að skýra nokkuð, hver hinn eiginlegi og ráðandi þingvilji var í haftamálinu. Þessar miklu umr. munu hafa mest sprottið af því, að sumir háttv. þm. hafa, og það enganveginn ófyrirsynju eða ástæðulaust, ámælt hæstv. stjórn fyrir það að hafa ekki notað betur heimild þá til innflutningshafta, sem til er, en raun ber vitni um. En hæstv. atvrh. (KlJ) og stuðningsmenn hans hafa verið að afsaka stjórnina með því að túlka vilja undanfarandi þinga í haftamálinu, þannig, að hann hafi verið andvígur öllum höftum, og því hafi stjórninni verið vorkunn. Hvað sem þessu leið, er þetta vitanlega engin afsökun fyrir stjórnina, hafi hún á annað borð verið sannfærð um gagnsemi innflutningshafta, en jeg ætla nú að sýna fram á, að þessu var alls ekki svona varið.

Vilji undanfarinna þinga hefir mjög verið túlkaður hjer, mjög einhliða, að því er mjer virðist. Það hafa eingöngu verið dregnar fram skoðanir þeirra manna, sem þá voru á móti hömlunum. Aftur á móti hefir verið mjög, og nær með öllu, gengið fram hjá yfirlýstum vilja hinna, sem voru með höftunum. Því ber alls ekki að neita, að á þinginu 1921, er mest var um þetta mál rætt, voru mjög skiftar skoðanir um málið, en þó klofnaði nefndin ekki, sem hafði það til meðferðar, þó þessara mismunandi skoðana gætti þar allmikið. Nefndin var sem sje öll sammála um það, að heimildarlögin frá 8. mars 1920 væri látin standa, og ber það skýrastan vottin um, hver hinn ráðandi þingvilji var í þessu máli, því hefðu þeir menn, sem engar innflutningshömlur vildu hafa, verið í meirihluta, hefðu þau lög að sjálfsögðu verið feld úr gildi.

Jeg vil nú, út af orðum þeirra hv. þm., sem hafa haldið því fram, að frjáls innflutningur hafi þá verið eindreginn vilji þingsins, jeg vil nú út af orðum þeirra drepa með nokkrum orðum á skoðun hinna, sem jeg tel hafa verið fulltrúa hins ráðandi vilja. Jeg átti þá sæti í þessari nefnd, og einnig þáverandi þm. Ak. (Magnús Kristjánsson), og vil jeg nú lítið eitt drepa á afstöðu okkar í málinu:

Um það, hvernig nota bæri heimildarlögin, komst jeg meðal annars svo að orði:

„Það er altaf teygjanlegt orð, óþarfavara. Það fer eftir ástandinu í hvert skifti, en jeg lít svo á, að heldur eigi að ganga lengra en skemra í því efni.“ — Það er, að takmarka innflutninginn. Það var ýmislegt fleira, sem jeg sagði þá í þá átt, að það bæri að miða það, hve langt væri gengið í banninu, við ástandið á hverjum tíma, og hafði jeg þá samið alllangan lista yfir ýmsar vörutegundir, sem jeg vildi láta banna innflutning á, og sem var lagður til grundvallar, er samin var reglugerð um bann gegn óþarfa varningi, sem kom út þá nokkru síðar.

Á sama þingfundi kemst Magnús Kristjánsson svo að orði:

„Jeg mun því halda fast við þá stefnu, að bannaður sje allur innflutningur á óþarfavarningi, og skírskota til ræðu hv. þm. Borgf. (PO), sem er gagnlaust að hafa hjer upp aftur, en jeg get að mestu leyti fallist á.“

Á þessu geta menn sjeð, að það var skýlaus vilji okkar að nota þessi heimildarlög, og þá kom sá rjetti vilji þingsins fram, því eins og jeg hefi áður tekið fram, voru heimildarlögin látin standa óhögguð.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald), kom fram með þessa sömu fullyrðingu, að þingviljinn 1921 hefði verið mótsnúinn höftum og stjórnin hefði látið að honum. Þetta er hvorttveggja alveg rangt. Því eins og jeg drap á rjett áðan, gaf þáverandi stjórn þegar út reglugerð um takmörkun og bann á innflutningi óþarfavöru, og var sú reglugerð í gildi og henni framfylgt — þó undanþágur væru nokkrar veittar — alla þá tíð, er sú stjórn sat að völdum. Þó innflutningsnefndin væri afnumin, var það ekkert undanhald í málinu, en hinsvegar var heldur slakt á klónni með undanþágugjafir, og má svo ekki vera eftirleiðis — þó hinsvegar sje náttúrlega nokkurt aðhald frá þeirri hlið að ganga þó ekki svo langt, þó æskilegt væri að öðru leyti, að ríkissjóður, svo sárþurfandi sem hann nú er, sje ekki sviftur svo miklum tekjum, að honum sje stefnt í voða.

Vænti jeg nú þess, að það sjáist af aðgerðum stjórnarinnar, sem jeg hefi drepið á, hver hinn eiginlegi og ráðandi þingvilji 1921 hafi verið. Hvað viðvíkur meðferð málsins á þinginu 1922, þá var aftur meirihlutinn með því, út af fyrir sig, að rjetta það, sem áfátt væri við innflutningshöftin og framkvæmd þeirra, þó það mál væri þá af flm. þess dregið til baka af ósamkomulagi um önnur atriði, og verð jeg að vona, að nú sje einnig nægur stuðningur til þess að knýja fram takmörkun og bann á innflutningi óþarfs varnings. Og eins og áður er drepið á, er full heimild til þess í lögum, þar sem heimildarlögin eru. Jeg verð því að segja — þó ekki þýði að tala um liðna tímann — að þessvegna hefði mátt beita heimildarlögunum betur 2 síðastliðin ár en hæstv. atvrh. (KlJ) viðurkendi, að gert hefði verið, svo komið hefði meir að gagni landi og þjóð. En þar sem það hefir verið vanrækt, þá er því meiri ástæða nú til þess að taka vel í taumana.

Jeg ætla mjer ekki að fara út í sjerstakar greinar eða ákvæði þessa máls nú; þau koma sjerstaklega til athugunar, þegar málið hefir verið að fullu undirbúið og endanleg ákvörðun um það tekin, á hvaða grundvelli höftin skuli bygð. Verður þá vandlega að gæta þess, að búa svo um hnútana, að málið sje framkvæmanlegt. Eins og frv. þetta er úr garði gert, verður ekki hægt að framkvæma innflutningshöft. Og vil jeg sjerstaklega beina því til hv. nefndar, sem málið fær til meðferðar, að hún geri innflutningshöftin svo úr garði, að sem minstar undanþágur þurfi að veita. Væri betra að taka hreinlega út úr þá vöruflokka, sem ekki er algerlega hægt að banna innflutning á, og setja háa tolla á þá. Reynslan hefir sýnt, að undanþágurnar eru miður heppilegar, og jeg er hræddur um, að höftin kæmu að litlu gagni, ef enn væri inn á þá braut gengið.

Jeg ætla ekki að bera fram neinar ákveðnar tillögur þess efnis nú, enda gefst tækifæri til þess að koma því að síðar.

Jeg mun fyrir mitt leyti fylgja því nú sem fyr fast fram, að takmarka beri aðflutning til landsins, eins og sakir standa nú. Ber brýn nauðsyn til að losa fje það, sem bundið hefir verið og menn binda enn í ýmiskonar innfluttum óþarfavarningi, og eins gæti það verið nauðsynlegur og góður skóli fyrir eyðslugirnd þjóðarinnar, að gerðar væru ráðstafanir til þess að hindra hana í að nota allskonar óþarfa, sem henni er til mikils skaða og miðar að því að stofna í voða fjárhag og efnalegu sjálfstæði landsins.

Jeg vil að lyktum taka undir tilmæli hv. flm. (HStef), að stjórnin gefi þegar út reglugerð um bann gegn innflutningi óþarfavarnings, þar sem umræðurnar hafa þegar orðið og munu verða alllangdregnar um svo vandasamt mál, og nokkum tíma tekur það sjálfsagt, þangað til það verður til lykta leitt, í hvaða formi innflutningshöftin verða. Er jeg hræddur um, að sá tími yrði notaður til að flytja óskaplega mikið inn af þeim vörutegundum, sem bann eða hömlur yrðu settar á, og vænti því, að hæstv. stjórn verði við tilmælum um þetta. Skiftir það engu máli, þó að slík bráðabirgðareglugerð, sem gilda á í svo stuttan tíma, yrði ekki í einhverju atriði í samræmi við endanlegar lyktir þessa máls, t. d. eitthvað bannað, sem svo yrði ekki treyst til að banna í þeim fyrirmælum, er gilda eiga til frambúðar.