15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Frsm. minnihl. (Halldór Stefánsson):

Það hefir dregist nokkuð, að mál þetta kæmi til 2. umr., sumpart af ástæðum, sem kunnar eru frá umr. um verðtollsfrumvarpið, og svo af öðrum ástæðum, sem ekki þýðir að tala frekar um, en flestir munu skilja. Það kom brátt í ljós í nefndinni, að menn voru meira og minna sammála um, að gagnlegt væri að setja einhver höft á innflutning erlends varnings til landsins. En skoðanir manna skiftust aftur á móti um hitt, hversu víðtæk höftin skyldu vera og í hverju formi. Komu fram aðallega tvær skoðanir um það, í hverju formi höftum skyldi beitt, önnur vildi fara hátollaleiðina, en hin kaus fremur bann á innflutningi. Nú varð það að samkomulagi í nefndinni, að báðar leiðirnar skyldu farnar. Þessvegna bar nefndin í heild fram verðtollsfrv., og var svo frá því gengið, að formlega þurfti það engan veginn að reka sig á hreint aðflutningsbann.

En þegar að því kom að ákveða, hvernig bannið skyldi framkvæmt, þá skiftust skoðanir nefndarmanna aftur, og fram komu enn tvær stefnur. Önnur var sú, að þingið ætti að ráða formi bannsins, ráða því, hvað bannað yrði að flytja til landsins og hvað ekki. Hin stefnan vildi fela hæstv. stjórn að ákveða þetta samkv. heimildarlögum frá 8. mars 1920. Mun jeg víkja að þessu atriði síðar, en fyrst drepa örlítið á brtt. okkar minnihl. nefndarinnar.

Það er þá fyrst að segja, að við 1. gr. frv., upptalningu þeirra vörutegunda, sem skulu bannaðar, höfum við gert þær brtt. ýmist að fella úr eða bæta við. Þó höfum við meira gert að því að fella úr, og var það gert til að sveigja til, ýmist fyrir almenningsálitinu eða verðtollslögunum. Ætti frv. með þessum breytingum að vera aðgengilegra fyrir þá, sem þótti of langt gengið upphaflega. Önnur brtt. okkar er sú, að heimila landsverslun að flytja inn bannvörur, ef brýn nauðsyn kynni að reka til þess að einhverju leyti. Og brtt. II og III á þskj. 310 miða að því að tryggja hæfilegt verðlag á þeim bannvörum, sem fyrir kunna að liggja í landinu. Þessar till. eru einnig fluttar til samkomulags og í samræmi við þær mótbárur, sem frv. hefir sætt. Mun jeg smámsaman geta þessara brtt. nánar, en vil nú víkja nokkrum orðum að brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) á þskj. 212. Brtt. hans við 1. gr. getur ekki samrýmst tillögum okkar minnihlutamanna, og teljum við rjettara að samþ. okkar brtt. Um hinar brtt. hans er það að segja, að þær ganga í þá átt að girða fyrir of hátt verðlag, og fæ jeg því ekki betur sjeð en að þær sjeu samræmanlegar við þær brtt. okkar, sem jeg mintist á áðan, og stefna til hins sama. Munum við því ekki leggjast á móti brtt. hv. þm. (SvÓ), nema þeim, sem snerta 1. gr. Þær eru sumpart öryggi gegn háu verðlagi og sumpart fara þær fram á tekjuauka fyrir ríkissjóð.

Mun eg þessu næst fara nokkrum orðum um hinar almennu mótbárur, sem fram hafa komið gegn frv.

Við 1. umr. var strax bent á það, að ef frv. væri samþ., rýrðust tekjur ríkissjóðs eigi alllítið. Þessu verður ekki mælt í móti, en til þess að bæta ríkissjóði hallann gengum við að verðtollsfrv. Og þar sem það mun gefa ríkissjóði a. m. k. helmingi meiri tekjur en rýrnunin samkv. þessu frv. getur numið, þá er sú ástæða ekki lengur fyrir hendi.

Þá var það sagt við 1. umr., að frv. væri árás á kaupmenn. Frá okkar hálfu, flutningsmanna, er ekki um neina slíka árás að ræða. Ef að frv. er árás, þá mætti ef til vill segja, að það væri árás á það verslunarform, sem hjer hefir lengi staðið og hefir þá annmarka, að í skjóli þess hefir vaxið óhæfilegurfjöldi kaupmanna, og að í skjóli þess hefir ennfremur verið flutt inn og haft á boðstólum óforsvaranlega mikið af alóþörfum varningi, sem engum er til gagns. Það má líka kanske segja, að frv. sje árás á það afskiftaleysi, að vilja ekki ráða bót á þessum annmörkum. Nei, frv. er engin árás á kaupmenn þessa lands, heldur er það borið fram af þjóðhagslegum ástæðum.

Þó að frv. þetta hafi enn ekki verið mikið rætt í þinginu, þá hefir verið talsvert um það rætt, bæði nær og fjær, síðan það var borið fram. Hefir mönnum því gefist tækifæri á að kynnast þeim mótbárum, sem komið hafa fram gegn því, og vil jeg nú minnast dálítið á hinar helstu þeirra.

Það hefir verið sagt, að frv. geti ekki náð tilgangi sínum, vegna þess, hversu mjög slík lög, bannlög, yrðu brotin. Þessvegna væri mjög varhugavert og tilgangslítið að samþykkja það, þar eð það aðeins ylli fleiri lögbrotum og meiri siðspillingu.

Það er einkennilegt við þessa mótbáru gegn frv., að hún er einkum borin fram og haldið á lofti af þeim mönnum, sem best ganga fram í því að halda hlífiskildi yfir kaupmönnum. Því ef að þessi ummæli væru á rökum bygð, þá lýsa þau því vantrausti á heiðarleik kaupmanna yfirleitt, að jeg fyrir mitt leyti vil vísa þeim á bug. Við teljum kaupmenn yfirleitt svo vel hugsandi og heiðarlega borgara þjóðfjelagsins, að ekki sje rjett að hafna frv. af þessum ástæðum. Auðvitað kynnu slík bannlög að verða brotin eitthvað lítilsháttar, en ekki dugar að setja það fyrir sig, ef að heildarárangrinum verður að öðru leyti náð. — Annars ætti þessi ótti við lagabrot að gilda engu síður um verðtollinn en um bann á innflutningi, og verður því ekki sjeð, að þeir, sem hiklaust samþyktu þann toll, hafi nokkra ástæðu til að leggjast á móti þessu frv. — af hræðslu við lagabrot. Og eins og hv. 2. þm. Rang. (KlJ) tók rjettilega fram í umræðunum um verðtollsfrv. hjer á dögunum, þá er það tollalöggjöfin, sem hefir kent mönnunm að smygla vörum inn í landið og orðið þar nokkurskonar forskóli lögbrota, ef þau er nokkuð verulega að óttast. Það er því alveg ástæðulaust að gera mun á hættunni á lagabrotum, þegar um tolllög, og allra helst hátollalög, er að ræða annarsvegar, en hinsvegar bannlög, enda er gert ráð fyrir auknu eftirliti vegna verðtollsins. Strandlengjan er hin sama, og jafnerfitt að gæta tolllaga sem bannlaga. Hvötin til að brjóta er jafnrík, og jafnvel enn ríkari að brjóta tolllög, og er auðveldara að dylja þau brot.

Þá hefir það verið borið fram gegn þessu frv., að það leiddi af sjer dýrtíð í landinu, ef það næði fram að ganga. Þessi mótbára er ástæðulítil, einkum þegar þess er gætt, að frv. sjálft, og brtt. okkar, setja skorður við því, að svo geti orðið, með ákvæðunum um verðlagsnefnd og sölubann á þær verslanir, sem gera sig sekar í því að selja óhæfilega dýrt. Jeg skal geta þess, að hugmyndin um sölubann er komin frá tveim frúm hjer í bænum, sem komu á fund okkar fyrir hönd einhvers kvenfjelags, skildist mjer, og ræddu við okkur um frv. á mjög skynsamlegan hátt, enda þótt þær væru okkur ekki sammála um einstök atriði. — Loks hníga brtt. hv. 1. þm. S.-M (SvÓ) einnig í þá átt að tryggja sanngjarnt verðlag á vörum í landinu, þó að frv. verði samþykt. Verð jeg að segja, að ekki er síður ástæða til að vera hræddur við óhæfilegt verðlag í skjóli verðtollslaganna, en þó að þetta frv. nái fram að ganga með breytingum okkar.

Þá kem jeg að þeirri mótbáru gegn frv., að vöruskortur verði í landinu, ef það verður að lögum, því að það gangi ef langt í því að banna innflutning. Um þetta atriði má lengi deila. En jeg hefi þegar vikið að því, að við höfum, með brtt. okkar við 1. gr., sveigt talsvert til fyrir þessari skoðun, þar sem við höfum slept ýmsum vörutegundum, sem bannaðar voru í frv. upphaflega. Ennfremur eru til í landinu allmiklar birgðir þeirra vörutegunda, sem banna skal innflutning á samkv. till. okkar. Og þar sem ætlast er til, að bannið standi aðeins í 3 ár, má ætla, að þær endist langdrægt, svo að enginn skortur verði á algerlega nauðsynlegum varningi. Loks má benda á það, að við höfum í landinu mikið af innlendu efni, sem nota má — og nota á betur en tíðkast hefir síðustu árin. Og þetta er eitt hið veigamesta atriði í sambandi við þetta frv., að það á að laða menn og leiða og jafnvel knýja til að nota betur þau efni, sem til eru í landinu.

En þrátt fyrir það, þó að við óttumst ekki vöruskort, þá leggjum við samt til, að heimila stjórninni að flytja inn bannvörur, gegnum landsverslun, ef knýjandi nauðsyn verður fyrir hendi. Við gerum reyndar ekki ráð fyrir, að til þessa þurfi að koma, heldur er þetta miklu fremur öryggisráðstöfun, til þess að koma í veg fyrir að ástæðulaus ótti grípi fólk, svo að það hlaupi til og kaupi þær vörur, sem bannaðar verða, af óþarflega miklu kappi og máske of háu verði. En til þess ætlumst við, að þessi heimild verði ekki notuð, fyr en brýn ástæða verður til — og teljum við harla ólíklegt að svo verði nokkurntíma.

Þá vil jeg drepa á ágreining þann, sem varð í nefndinni um form haftanna, eða öllu heldur innflutningsbannsins, því að orðið „höft“ sýnist geta valdið og hafa valdið misskilningi, þar sem hátollurinn er í rauninni „haft“ líka.

Þegar litið er á það, í hvaða tilgangi við ætlum að setja innflutningsbann á ýmsar vörur, og þegar alment er álitið, að bannið komi því aðeins að nokkru gagni, að það nái ekki eingöngu til algerlega óþarfs varnings, heldur verði það einnig að ná til vörutegunda, sem fólkið telur sjer þægindi að, ýmist sönn eða ímynduð, og þegar við ennfremur lítum á, að bannið á að fá menn til að leggja fram vinnu, orku og ástundun til þess að nota betur þau efni, sem fyrir hendi eru, þá verður ljóst, að slíkt innflutningsbann kemur því aðeins að notum, að því verði örugt framfylgt. Í því efni má ekki sýna neitt hik.

Þegar maður ber saman þær tvær leiðir, sem nefndin hefir klofnað um, þá er það um heimildarlögin frá 1920 að segja, að þau eru of óákveðin og of sveigjanleg fyrir allri áleitni. Þetta er af sumum talinn kostur, hvað þau eru sveigjanleg, og má vera, að svo sje að nokkru leyti. En það er þó ennþá meiri ókostur, því að telja má það víst, að bannið verði fyrir mikilli áleitni, fyrst og fremst frá hálfu þeirra, sem eru á móti öllu slíku innflutningsbanni, og svo frá hinum, sem finst, að það snerti þægindi sín eða hagsmuni. Og þessir þættir mótstöðunnar hafa nóg ráð til þess að koma fram mótmælum sínum og óánægju sinni gegn banninu. Menn fá gerðar fjelagssamþyktir og jafnvel flokkssamþyktir, senda stjórninni áskoranir og fá blöðin til að ala á því áliti, að slaka þurfi að einhverju leyti til á banninu. Við höfum dálitla reynslu í þessum sökum, og hún segir okkur, hversu erfitt það er að standast slíka áleitni; en þegar slakað hefir verið til í einu atriði, þá er hætt við að það geti leitt til nýrra tilslakana. Stjórn, sem framfylgja ætti banni skv. heimildarlögum þessum, hefði sem sagt engan frið fyrir sífeldum áskorunum um tilslakanir — og ef nú er gert ráð fyrir því, að hún sjálf kynni að vera hikandi í áliti sínu um gagnsemi slíks innflutningsbanns, eða hversu víðtækt það skuli vera, þá er ekki ólíklegt, að hún myndi, þó ekki væri nema til að kaupa sjer frið, láta undan þessum áskorunum.

Af þessum ástæðum teljum við árangurinn af því að beita nefndum heimildarlögum mjög tvísýnan, og ekki þann, sem þörf væri á. — Ef að þar á móti ákveðið er með lögum, hvaða vörur er bannað að flytja til landsins og hverjar ekki, þá er málið þar með komið í fastar skorður og ósveigjanlegar, þann tíma, sem bannið stendur. Og vitneskjan um það, að engra tilslakana væri von, myndi halda niðri áleitni manna við stjórnina, en hinsvegar vekja hugsun þeirra og viðleitni í þá átt að reyna að bjarga sjer sem best gegndi. Þessvegna nær frv. þetta betur en heimildarlögin frá 1920 takmarki því, sem stefnt er að.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að nál. hv. meirihl. nefndarinar á þskj. 340. Þar er byrjað að rekja málið líkt og við gætum gert, eins og eðlilegt er, þar sem báðir hlutar nefndarinnar eru sammála um, að innflutningsbanni skuli beita. Leiðirnar skilur fyrst, þegar að formi bannsins kemur: hvort nota skuli heimildarlögin frá 8. mars 1920, eða setja ný lög. Hv. meirihl. talar um sveigjanleika nefndra heimildarlaga, og telur hann kost, vegna þess, að ekki sje að vita, nema rjett væri að banna að flytja inn fleira en í frv. er talið, og svo vegna hins, að komið gæti fyrir, að bannaðar vörutegundir yrði fluttar inn eftir sem áður í breyttu formi eða undir öðru heiti, og þurfi stjórnin að hafa heimild til að fyrirbyggja slíkt. Jeg skal ekki neita því, að þetta er að vissu leyti rjett hugsað, en ekki er líklegt, að til þessa komi, og enda er auðvelt að gera við því. Þyrfti ekki annað en t. d. láta heimildarlögin frá 1920 halda gildi sínu jafnhliða þessum nýju lögum, eða þá að taka upp í frv. sjálft heimild fyrir stjórnina til þess að gera ráðstafanir, sem fyrirbygðu slíkt. Annars þykist jeg hafa sýnt fram á, að heimildarlögin hafa fleiri ókosti en kosti, samanborið við ný lög, og þarf því ekki að fara um það fleiri orðum.

Í nál. eru taldir upp ýmsir ókostir á frv. Er hinn fyrsti sá, að ef til kæmi, þá myndi þurfa að auka mannahald við landsverslunina. Sje jeg ekki, að það ætti að teljast ókostur, ef því er haldið fram, sem sumir hv. þm. virðast gera, að bannið geti orðið til þess, að einstakir menn missi við það atvinnu sína. Getur ekkert komið sjer betur fyrir þá, en að þeirra sje þörf í landsverslunina. Þá hefir frv. verið talið það til foráttu, að það mundi valda ýmsum mistökum vegna ókunnugleika manna á vöruþörfinni og mistaka í vöruvalinu. En jeg hygg, að ekki væri um brýna þörf að ræða, ef landsmenn gætu ekki gert landsversluninni glöggva grein fyrir því, hvers þeir þörfnuðust. Gæti jeg frekar trúað því, að það yrði á engan hátt auðveldara en þennan að mæta þörfum landsmanna, auk þess sem líklegt væri, að hentugri og ódýrari vörur yrði þá fluttar inn. Þá er það sagt, að vörurnar mundu verða dýrari en ella. Jeg get ekki fallist á þá skoðun. Hygg jeg frekar, að þær verði ódýrari, því að þá er það á valdi landsverslunarinnar að ákveða verðið. Þá er ennfremur sagt, að verslunin eigi að vera frjáls að því er þær vörur snertir, er óhjákvæmilegt er að flytja inn. Þetta er gamla kenningin um frjálsa verslun, en á þá kenningu ætla jeg mjer ekki að deila hjer, þar eð þetta á hvort eð er að vera bráðabirgðaráðstöfun. Þá er á það minst, að innflutningur í gegnum landsverslun muni vekja tortrygni til þeirra manna, er undanþágu fái. Eftir tillögum okkar minnihlutamanna, þá á enginn sjerstakur að fá undanþágu. Þessi mótbára hittir því einmitt þá skipun, sem meirihl. vill hafa á um undanþágurnar. Þá segir loks í nál. meirihl., að ekki þurfi lengur að deila um það, að næg heimild sje til að banna innflutning eftir þörfum í heimildarlögunum, það sýni auglýsing sú um innflutningsbann, sem nú er í gildi. Um það er heldur alls ekki deilt; heimildin er næg eftir heimildarlögunum, ef ákveðinn þingvilji stendur að baki, og enda víðtækari en eftir frv. En það er formið á höftunum, sem um er deilt, hvort stjórninni verður falin slík ráðstöfun með heimildarlögum, eða hvort þingið sjálft samþykki ákveðin lög þar að lútandi. Eins og menn vita, þá hefir þjóðin látið uppi einróma álit sitt um það, að til varnar almenningshag bæri að banna innflutning á ýmsum vörutegundum, og hún hefir ætlast til þess, að þingið ákvæði, hverjar þær vörur skyldu vera. Er það lítilmótlegt fyrir þingið að ætla að skjóta sjer á bak við ríkisstjórnina í þessu efni. Tel jeg það heldur ekki rjett gagnvart stjórninni, því að hún mundi verða of mjög fyrir áleitni manna út af undanþágum, sem hún að öllum líkindum mundi verða að láta undan með. Jeg þarf ekki að minnast sjerstaklega á ræðu hv. frsm. meirihl. nefndarinnar. Hann rakti málið líkt og jeg mundi hafa gert, enda erum við að mestu sammála, nema um formið, en um það hefi jeg áður talað. Aðalágreiningurinn liggur í því, í hvaða formi eigi að setja þetta á, og því er ekki ástæða til að vera að fást um lítilsverðan ágreining um hin smærri málsatriði.