15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í C-deild Alþingistíðinda. (2405)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Frsm. minnihl. (Halldór Stefánsson):

Þegar það var orðað að slita umræðum, þótti mjer það alger óþarfi um jafn mikilsvert mál, þegar á það er litið, hve langar umræður eru um ýms smámál. Hinsvegar skal jeg ekki lengja mjög umræðurnar, hvorki tala langt mál nje gefa sjerstakt tilefni til andsvara.

Jeg skal þá fyrst víkja að þeim orðum hæstv. atvrh. (MG), að traust landsfólksins til stjórnarinnar mundi miklu varða um afstöðu manna til þessa máls. Þetta er ekki aðalatriðið fyrir mjer. Jeg treysti hæstv. atvrh. (MG) allvel í þessu máli, og hefir hann gefið yfirlýsingu, sem gefur ástæðu til að treysta því, að hann muni framkvæma lögin frá 1920 og beita innflutingshöftunum allstranglega. En heimildarformið er miku erfiðara til framkvæmdar heldur en ákveðin lög um aðflutningsbann. Um aðfinslur hæstv. atvrh. (MG) við frv., að það gangi ýmist of langt eða of skamt, er það að segja, að þetta er jafnan álitamál, og má ef til vill til sanns vegar færa margt, er hann sagði. En það er engin ástæða til að vera andvígur frv., því að enn er tími til að auka við það eða draga úr, eftir því sem mönnum kemur saman um. Jeg hefi líka áður bent á aðra úrlausn á þessu, annaðhvort taka upp í frv. heimild fyrir stjórnina til þess að banna innflutning á fleiri tegundum en þar eru taldar, eða láta heimildarlögin frá 1920 standa óhögguð, þó að þetta frv. verði að lögum. Annars skal jeg ekki ræða um einstök atriði, sem hæstv. atvrh. (MG) nefndi. Jeg get tekið undir margt af því, sem hann sagði, og skal ekki standa á mjer að taka það til athugunar síðar við meðferð málsins, ef þess verður auðið.

Jeg vil benda á, að það, sem kallað er fölsk kaupgeta, getur stafað af öðru en lánum; hún getur líka komið af auknum tekjum af tollum, og þó að það sje ef til vill ekki að öllu leyti það sama, þá er það þó nokkuð líkt. Jeg vil því taka undir með hv. frsm. meirihl. (JAJ), að aðalatriðið á að vera spámaður á tekjum ríkissjóðs, bæjar- og sýslufjelaga og einstaklinga, sparnaður á öllum sviðum. En frv. hnígur einmitt að því að reyna að fá framgengt meiri sparnaði en verið hefir.

Þá vil jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. stjórn, hverjar tryggingarráðstafanir er auðið að gera um verðlag á vörum í landi hjer, með þeim heimildarlögum, sem hún vill beita. Jeg veit ekki, hvort slík heimild er til, sem beita mætti jafnframt lögunum. Í heimildarlögunum sjálfum eru engin slík ákvæði. Meðan ófriðurinn mikli stóð yfir, voru að vísu lög, sem heimiluðu að skipa verðlagsnefnd, en þau lög voru tímabundin við ófriðarástandið, og þori jeg ekki að fullyrða, hvort nokkur heimild er enn í lögum, er geti trygt menn gegn of háu verðlagi. Ef svo er ekki, er það bert, að þetta frv. er tiltækilegra en lögin frá 1920.

Hæstv. fjrh. (JÞ) hafði rannsakað, hve miklu næmi sú tekjurýrnun, sem samþykt þessa frv. mundi baka ríkissjóði, og komst að þeirri niðurstöðu, að hún mundi vera um 450000 kr. Jeg skal ekki vefengja þetta, og væri lítt afsakanlegt að samþykkja slíkan tekjumissi, ef ekkert hefði verið gert til þess að afla nýrra tekna í staðinn. En þegar við í minnihl. gengum að verðtollsfrv., sem áætlað var að myndi gefa 1 milj. kr. tekjuauka, enda þótt bannaður yrði innflutningur að miklum mun, var það með það fyrir augum, að tekjurýrnun myndi verða af innflutningshöftunum. Er ekki víst, að það frv. hefði verið samþykt viðstöðulaust hjer í hv. deild, ef ekki hefði verið gengið að því með þessum skilningi af okkar hálfu. Annars virðist mjer auðheyrt, að nokkurt ósamræmi er á milli hæstv. ráðh. (MG og JÞ) um það, hversu víðtækt höftunum skuli beitt. Hæstv. fjrh. (JÞ) ætlast ekki til, að banninu verði beitt svo freklega samkvæmt heimildarlögunum, að af því stafi veruleg tekjurýrnun. En það er atriði, sem mjög mikið hefir verið gert úr, sambandið milli bannsins og tekjurýrnunarinnar. Virðist mjer hæstv. fjrh. (JÞ) líta nokkuð einhliða á málið og sjá lítið annað í þessu máli en tekjur ríkissjóðs. En margs er að gæta, og víðar er veikur hagur en ríkissjóðs, og það er það, sem þetta frv. á að reyna að bæta úr það á að leiða til almenns sparnaðar og nýtni á það, sem er fyrir hendi, losa bundið fjármagn, sem liggur í óþarflega miklum vörubirgðum, minka gjaldeyrisþörfina og jafnvel bæta atvinnuleysið með því að stuðla að auknum iðnaði innanlands, og má alt þetta gera án þess að draga úr framleiðslunni. Heildarhagurinn virðist ekki missa neins í, þó að eitthvað kynni að tapast úr ríkissjóði, því að hann hefir því betra tækifæri til að efla hag sinn sem hagur almennings, er undir stendur, er betri. Hæstv. fjrh. (JÞ) vildi skora á hv. deild að draga undan tollvörur, ef frv. yrði samþykt. Þetta gæti komið til álita; málið er ekki komið svo langt, að allar leiðrjettingar og lagfæringar geti ekki komist að.

Jeg finn enga ástæðu til þess að víkja að ummælum hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Það er alkunnugt, að skoðanir hans eru nokkuð sjerstæðar, og geri jeg ekki ráð fyrir, að betur gangi hjeðan af en hingað til að gera upp við hann. Hv. þm. virðist sem fyr gleyma því, að bannið á ekki að hafa þann einn árangur að hefta innflutning, heldur og fá menn til að nota ódýrar vörur og efla innlenda framleiðslu og hagsýni um það, sem eytt er og notað.

Hv. þm. vildi telja þessa stefnu sem nokkurskonar átrúnað almennings, sem sprottinn sje af undirróðri blaða og einstakra manna. Nú hefir enginn betri aðstöðu en hv. þm. til að innræta almenningi skoðun sína. Hann ræður yfir fjöllesnu blaði, og er því undarlegt, að honum skuli ekki hafa tekist betur að fá almenning til þess að aðhyllast skoðun sína. En þó að menn hafi oft lítið álit á skoðun almennings, er hún þó oft rjett; hún er e. t. v. oft ekki síður bygð á tilfinningu en ályktunum af hugsunum, og þær geta oft ekki síður bent á rjetta leið.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um málið. Um það verður að fara sem auðið er. En það vil jeg taka fram að lokum, að verði frekar hallast að heimildarlögunum og árangur verði minni af banninu en líkur þykja til, þá er það ekki okkar sök, sem leggjum það til, að þingið ráði, en ekki stjórnin.