19.02.1924
Neðri deild: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í C-deild Alþingistíðinda. (2410)

7. mál, vatnsorkusérleyfi

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Þessi vatnalög eru búin að vera alllengi á döfinni, eins og kunnugt er; fyrst hjá milliþinganefndinni, en síðan hafa þau legið fyrir 4–5 þingum. Fyrst í fyrra tókst Alþingi að binda enda á annað frv., þ. e. vatnalögin, en þetta frv. varð eftir óútrætt. Bæði þessi frv. voru lögð fyrir Ed. í fyrra, og þetta frv., sem hjer er um að ræða, komst svo langt, að það varð samþykt við 2. umr. í Ed. Ef tími hefði þá enst til þess að ganga frá frv. þar, er enginn vafi á því, að það hefði þá verið mjög í sömu mynd og þetta frv. En það komst ekki til Nd. í það sinn, og því áleit jeg rjett að leggja frv. nú fyrir þessa háttv. deild, til þess að hún eigi einnig kost á að sjá frv. og fjalla um það. Breytingar þær, sem Ed. í fyrra gerði á frv. stjórnarinnar, álít jeg mjög til bóta, einkum tvær þeirra, lenging sjerleyfistímans og ákvæði um árgjaldið. Frá mínu sjónarmiði sjeð er það stór kostur á frv., að sjerleyfistíminn var lengdur, úr 55 upp í 75 ár. Jeg álít það meiningarlaust að vera að gefa kost á sjerleyfi, en um svo stuttan tíma, að fyrirsjáanlegt er, að ekkert fjelag þorir að leggja út í starfrækslu í stærri stíl. Ekkert fjelag og enginn einstakur maður þorir að starfrækja orkuver eða leggja út í stóriðju með sjerleyfi til stutts tíma; það gera menn yfirhöfuð ekki, nema það sje víst, að umráðin yfir orkuverunum og öðru vari svo lengi, að fyrirtækin geti borgað sig og gefið sæmilegan arð, sem ekki verður á fáum árum. Hitt atriðið, sem jeg tel til bóta, er, að ákveðið er í frv., að árgjaldið skuli haldast óbreytt um ákveðið árabil. Enda segir það sig sjálft, að það er afarerfitt fyrir fjelög eða einstaklinga að leggja út í stóriðju, ef það má búast við, að árgjaldið hækki eftir örstutt árabil. Menn verða að hafa vissu um það, að árgjaldið breytist ekki um æðilangt skeið, og á því byggja menn útreikninga sína, að árgjaldið haldist óbreytt um tiltekið, allangt árabil. Jeg hefi verið í stjórn fjelags, sem, eins og kunnugt er, hafði áformað að starfrækja orkuver í Þjórsá, ef sjerleyfi hefði fengist, og er jeg því persónulega kunnugur, að það hefði alls ekki komið til mála, að fjelagið gæti hagnýtt sjer leyfið, þótt fengist hefði, ef árgjaldið hefði verið ákveðið og miðað við lægri árafjöldann. Það hefði alls ekki sjeð sjer fært að leggja út í þetta. Aðrar breytingar, sem Ed. í fyrra hefir gert á frv., eru fremur lítilvægar, en að mínu áliti þó heldur til bóta.

Um leið og jeg nú legg þetta frv. fyrir háttv. Nd., vona jeg, að henni vinnist tími til að ljúka nú loksins þessu máli, sem svo lengi hefir verið á ferðinni, enda þótt tímarnir sjeu nú ekki eins hentugir og var fyrir 4–5 árum síðan. Þá mundi hafa verið byrjað á starfrækslu hjer, ef sjerleyfislögin hefðu verið til. Nú eru ekki mikil líkindi til, að þau verði notuð fyrst um sinn; málið er ekki lengur praktískt, því góðu tímarnir eru horfnir, tækifærið er liðið hjá. Þó tel jeg rjett vera að binda enda á málið nú á þessu þingi, og vona jeg, að háttv. deild taki þessu frv. vel og annaðhvort vísi því til allshn., eða þá setji sjerstaka nefnd í það, ef deildin vill það heldur. Í fyrra var þetta mál í Ed. í allshn., en ef háttv. deild vill heldur kjósa sjerstaka nefnd í málið, má hún það fyrir mjer.