19.02.1924
Neðri deild: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í C-deild Alþingistíðinda. (2411)

7. mál, vatnsorkusérleyfi

Bjarni Jónsson:

Það er rjett, sem hæstv. atvrh. sagði, að það er kominn tími til, að vatnamálunum ljúki á Alþingi. En um hitt er jeg honum ekki sammála, að þessi frestur, sem á málinu hefir orðið, sje úr hófi tiltakanlega langur. Í flestum löndum öðrum hefir þessi löggjöf tekið lengri tíma. Mál þetta mun hjer hafa verið tekið upp um 1917, og er því aðeins um hæfilegan tíma að ræða, og enda tel jeg þenna frest hafa verið heppilegan og málefninu góðan. Það er hepni, að rás viðburðanna sló niður öfgadraumana um gullið, sem fallvötn og fossar áttu að vefa landi og þjóð. Þá dreymdi menn fagra drauma um stóriðju vatnsorkunnar og margt glæsilegt, er með henni fylgdi, og þá voru þeir vart taldir í húsum hæfir, sem í móti þessu mæltu. En þetta er eðlileg tímanna rás. Rjett fyrir ófriðinn ultu mörg fyrirtæki af þessu tæi um koll, enda stóðu slík fyrirtæki mjög tæpt víða erlendis, t. d. í Noregi Eydeverksmiðjurnar. En er ófriðurinn kom, komst alt í uppnám, sakir þess, að þörfin á sprengiefni jókst úr hófi, og voru gerðar kröfur til mjög aukinnar framleiðslu, og græddu fyrirtækin þá of fjár, sem nú hafa lítinn eða engan gróða.

Nú veit jeg ekki, hvernig stóriðjunni vegnar í Noregi, en jeg hygg, að líkt mundi hafa farið hjer, ef stóriðja hefði verið hafin fyrir þennan tíma. Hygg jeg nú, að yfir höfuð hafi álit manna skýrst á þessum málum, og nú vilji menn ekki renna blint í sjóinn um það, hvort þessi fyrirtæki muni borga sig. Álíta nú margir, að það sje mjög hæpið, að nokkur stóriðja geti borið sig hjer á landi, og flestir hallast nú að því, að hjer sje ekki um annan auð að ræða en kraft, afllindir, sem geymdar eru þjóðinni til þess að hún taki þær í sína þjónustu jafnóðum og hún þarf þess með sjálf.

Að því er snertir undirbúning málsins í nefndinni, sem jeg þó og hefi verið nokkuð við riðinn, tel jeg hann góðan. Jeg tek mark á því, að hjer er venjan að telja eftir mönnum, ef þeir fá borgun fyrir verk sín; en í þessu máli hefir mjög lítið verið talið eftir, og skil jeg það svo, að menn hafi verið sann færðir um, að vel hafi verið unnið. Jeg held jeg megi segja fyrir hönd meirihluta nefndarinnar, og tel jeg það ekki raup, að hann hafi lagt góð frv. upp í hendur stjórninni. Allar breytingar, sem gerðar hafa verið á frv. nefndarinnar, horfa til hins verra. Draumaruglið gerði það að verkum, er vatnalögin voru lögð fyrir þingið, að þau urðu talsvert lakari en frv. meirihl. milliþinganefndarinnar, því að stjórnin hafði lagt sjereign á vatni til grundvallar. Þessu frv. til sjerleyfislaga, sem hjer er lagt fram, er í mestu haldið til frv. meirihl. milliþinganefndarinnar, þó að breytingar sjeu á stöku stað, og þykir mjer öllu betur, að það er komið fram. Samverkamaður minn í meirihl. milliþingan. tók skýrt fram í nál., sem við sömdum í fyrra og lagt var fram á síðasta þingi, að þessi sjerleyfislög gætu á engan hátt samrýmst frv. stjórnarinnar til vatnalaga, sem samkv. 2. gr. var bygt á sjereignarstefnu, áður henni var breytt, en allsherjarstefnan var grundvallarstefna sjerleyfislaganna, enda óhugsandi að bera þau fram á öðrum grundvelli, því hitt yrði til þess að opna allar dyr. Með því að leggja fram þetta frv., sýnir stjórnin skilning sinn á þeirri breytingu, sem gerð var á 2. gr. vatnalagafrv. Með þeirri breytingu var allsherjarstefnan ákveðin í vatnalögunum, og því víkur stjórnin brott frá sjereignarstefnunni, en hverfur yfir til allsherjarstefnunnar. Hefði stjórnin lagt annan skilning í þetta, mundi hún hafa lagt fram sjerleyfislagafrv. minnihl., sem bygðist á sjereignarstefnunni, og samið var eftir norskum lögum. Enda þótt það, sem fram fór á Alþingi í fyrra, sje mönnum enn að vísu í fersku minni, vil jeg þó minna á 2. gr. í frv. stjórnarinnar til vatnalaga; þar segir svo — með leyfi hæstv. forseta: „Landareign hverri fylgir rjettur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, með þeim takmörkunum, sem lög og venjur setja.“ Þetta er, eins og sjá má, greinileg skilgreining á fullum eignarrjetti, og þegar einstaklingur á í hlut, verður löggjöfin að takmarka notkun hans, ef hún vill ekki þola hana án takmarka. Að afnema eignarrjettinn er ekki hægt samkvæmt stjórnarskrá vorri, og því verður að takmarka hann. Samkvæmt brtt. okkar meirihl.-manna í milliþinganefndinni var 2. gr. vatnalagafrv. breytt, og hljóðar því 2. gr. vatnalaganna nú svo — með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir rjettur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Jeg og samverkamaður minn í nefndinni í fyrra erum báðir vel minnugir og þakklátir hæstv. atv.- og fjrh. (KlJ) fyrir þá mikilvirku aðstoð, sem hann þá veitti okkur, og er það honum að þakka, að þessari breytingu varð komið á, og breytingin er afar þýðingarmikil. Hjer er í lög leidd notkunarheimild á hlut, sem annaðhvort er ríkiseign eða res nullius, auk þess herðir það á og skýrir stefnu laganna, að skilgreining eignarrjettarins var í frv. stjórnarinnar, en var feld í burtu úr greininni af þinginu, og í staðinn sett afnota- og umráðaheimild. Sýnir þetta, að þingið leit svo á, að hjer væri um allsherjareign eða res nullius að ræða, og er þar með allsherjarstefna vatnalaganna ákveðin. Þar sem nú að allsherjarstefnan hefir sigrað, get jeg vel verið með þessu frv. til sjerleyfislaga, en ekki hefði mátt eiga sjer stað, að þau yrðu leidd í lög, ef sjereignarstefnan hefði sigrað. Þó vil jeg leyfa mjer að nefna nokkur atriði, þar sem þessu frv. hefir verið breytt til hins verra frá frv. meirihl. milliþinganefndarinnar, sem það er að mestu leyti samhljóða í höfuðatriðunum. Er sjerleyfistíminn lengdur að stórum mun; í 11. gr. þessa frv. stendur, að tímalengdin megi vera alt að 75 árum í stað 55 ára, sem nefndin hafði í till. sínum látið sjer lynda, eða með öðrum orðum, lengdur tíminn um 20 ár og gert að 3 aldarfjórðungum, sem sjerleyfin megi standa.

Sakir þess, hversu alt er nú á annan veg en var á uppvaxtarárum okkar, sem hjer sitjum, er þetta alt of langur tími, og stórhættulegt að binda sig um svo langt skeið. Það, sem áður tók tugi ára, ryðst nú yfir oss á einu, tveimur eða þremur árum. Það hafa orðið ýmislegar og víðtækar breytingar í viðskifta- og þjóðlífi voru, sem og annara þjóða, og nýir straumar og öflugir eru komnir til, sem setja allar breytingar miklu örar yfir nú en menn óraði fyrir áður, og er því alls ekki viðunandi að hafa slík sjerleyfi svo langlíf sem hjer er farið fram á. Þeir, sem mesta hafa reynsluna í þessum efnum, eru altaf af stytta sjerleyfistímann hjá sjer. Það var einn milliþinganefndarmaður, sem nú á ekki setu hjer, er hafði kynt sjer mjög vatnamál í Vesturheimi; á hann son þar vestra, sem þar er orðinn nákunnugur, og segir hann í brjefum sínum, að þar hafi menn byrjað á 100 ára sjerleyfistíma, en síðan iðrast eftir, og væru nú einlægt að stytta tímann, eftir því sem því yrði viðkomið, og væri nú komnir niður í 30–35 ár. Þessvegna álít jeg 55 ár fullríflegan tíma, og að ekki komi til mála að hafa hann hjer lengri. Það telja allir, sem vanir eru slíkum fyrirtækjum, að ef þau borgi sig ekki á 30–35–40 árum, eigi alls ekki að leggja í þau, því þá geri þau það aldrei. Þessi 55 ára tími ætti því fullkomlega að nægja hjer.

Svo er 33. gr. frv. Hún kveður svo á, að landsstjórninni sje heimilt eftir 40 ár að taka vatnsvirkjunina í sínar hendur. Meirihl. vatnamálanefndar lagði aftur á móti til, að þetta mætti gera hvenær sem væri, einungis með 5 ára fyrirvara, enda verð jeg að líta svo á, að þetta sje heppilegra. Þau 40 ár, sem frv. ákveður, eru auðvitað miðuð við hinn langa sjerleyfistíma. Vonast jeg til þess, að nefnd sú, sem væntanlega fjallar um þetta, lagi þetta, ásamt fleira, sem miður fer í frv.

Að lokum er svo í 2. lið 27. gr. breyting á orðalagi frá því, sem var hjá nefndinni. Tel jeg, að nefndin hafi þar komist skýrar að orði, og því rjett að taka upp hennar orðalag.

Jeg vildi segja þetta við 1. umr. málsins, í því skyni að þurfa síður að ónáða nefndina seinna, er hún skilar málinu til 2. umr. Efast jeg ekki um, að hún muni fallast á þetta, sem jeg hefi nú sagt, og lagfæra þann ágalla.