19.02.1924
Neðri deild: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í C-deild Alþingistíðinda. (2412)

7. mál, vatnsorkusérleyfi

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki fara langt út í viðauka þann við mál þetta, sem nú er fram kominn hjá háttv. þm. Dala. (BJ). Hann kvartaði um það, að breytingar þær, sem hann hefði borið fram á síðasta þingi við vatnalögin, hefðu eigi komist fram, en það frv. hefði verið skemt af áhrifum minnihl.- stefnunnar frá 1919.

Jeg ætla ekki að innleiða neina nýja deilu um það mál nú, en aðeins mótmæla sem fjarstæðu öllum hans kenningum um ríkisumráð vatna á einstakra manna löndum. Að vísu skal jeg játa, að svo leit út á síðasta þingi sem margir gerðu sjer ekki ljóst, hvert stefndi með ákvæði þeirra laga um þau umráð. Skal jeg sem dæmi benda á það, að við breytinguna, sem gerð var á 2. gr. laganna, fjell burtu skilgreining á rjetti, sem annars er hvervetna í lögunum viðurkendur, umráðarjetti landeiganda yfir vatninu. Við það urðu lögin álappaleg og skemdust, þótt þau geymi að öðru leyti skýr ákvæði um eignarumráð landeiganda, og einmitt þessarar skemdar vegnar vildi jeg ekki samþykkja þau. En það er einmitt þessi skemd laganna, sem háttv. þm. Dala. er nú að fagna yfir og flagga með, þótt ekki snerti þetta mál.

Margar af vatnsiðjuþjóðunum hafa engin sjerleyfislög, eins og þau, sem hjer er lagt til að sett verði, heldur hafa þær allar sjerleyfistakmarkanir í almennum vatnalögum. Aðrar hafa aftur á móti sjerstök lög um þetta efni. Engin þjóð hefir þau jafnítarleg og Norðmenn. Er tilgangur þeirra sá, að takmarka svo rjett þeirra manna, sem eiga mikilli vatnsorku yfir að ráða, að þeir geti ekki unnið þjóðfjelaginu ógagn með stórfeldum fyrirtækjum með útlendu fjármagni eða orðið þeirri innlendu stóriðju ofjarlar. En auk þess að verja með því móti minni máttar þjóðfjelag fyrir erlendu peningavaldi, er þar einnig haft fyrir augum að tryggja ríkinu álitlegar tekjur af stórfeldum vatnsiðjufyrirtækjum.

Að nokkru leyti eru þessi öryggisákvæði komin inn í vatnalögin frá síðasta þingi, t. d. þar sem umráðamanni vatnsrjettinda er bannað að virkja án stjórnarleyfis meira en 200 hestöfl.

Fyrir milliþinganefndinni 1919 vakti einnig þetta skýrt. En hún klofnaði, svo sem kunnugt er, um það, hver ætti vatnsrjettindin, landeigandi eða ríkið. Þess var því að vænta, að frv. meiri- og minnihluta yrðu ólík að ýmsu leyti, og kom sá munur fram bæði í vatnalagafrv. og frv. til sjerleyfislaga. Það er rjett hjá hv. þm. Dala., að frv. meirihl. liggur aðallega til grundvallar fyrir þessu frv., sem hjer er fram borið. Af þeim sökum er sá stóri galli á þessu frv., að það kemur hvergi fram, að sá, sem sækir um sjerleyfi, þurfi að eiga vatnsrjettindi. En svo er það þó hjá öðrum þjóðum, að eignarheimild að vatninu verður fyrst að sanna. Frv. er að þessu leyti í anda meirihl. En margt er í því að öðru leyti, sem er gerólíkt samkynja lögum hjá öðrum þjóðum. Hjer eru settar flóknar reglur um það, hvernig umsókninni eigi að vera hagað og hvernig eigi að stíla þær. Norðmenn leggja aftur á móti meiri áherslu á það, hverjum veita eigi sjerleyfið og kvaðir þær, sem umsækjandi verður að gangast undir vegna verkalýðs, dvalarhjeraðs og ríkis. Þar er mjög lítið um þetta endalausa form, sem er svo fyrirferðarmikið í þessu frv., að umsækjendum veitir sjálfsagt ekki af að hafa lögfræðing til aðstoðar bæði að baki og brjósti og verkfræðing til hvorrar handar. Er líkast sem lögin væru samin í því skyni að veita þessum mönnum atvinnu. Hinsvegar kannast jeg við, að ýms ákvæði, sem þörf eru, hafa verið tekin upp úr lögum Norðmanna. Skal jeg t. d. nefna ákvæðin um það, hvernig fara eigi með hlutabrjef í vatnsvirkjunarfyrirtækjum til varnar því, að þau komist á fárra manna hendur. Það vantaði í frv. meirihlutans.

Jeg lít svo á, að þetta frv. þurfi að breytast í verulegum atriðum, til þess að það geti orðið fyllilega nothæft. Þar þarf að koma fram meðal annars, að hver sá, sem sækir um sjerleyfi, þurfi að eiga vatnsrjettindi, því að í vitund fólksins eru vatnsrjettindin í höndum jarðeigandans, og hinsvegar leiðir af skilyrðum um algerða afhendingu til ríkisins að loknum sjerleyfistíma, að leyfishafi verður að eiga það, sem hann afhendir. Hjá Norðmönnum er þessi varnagli sleginn, og getur leigurjettur á vatnsrjettindum ekki komið þar til greina í sambandi við sjerleyfi.

Um þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í Ed. á síðasta þingi, skal jeg ekki fjölyrða að sinni. Það má vera, að það, að sjerleyfistíminn er lengdur, styðji að því, að sótt verði um sjerleyfi. En jeg met það lítils. Jeg er ekkert fíkinn í vatnsvirkjun útlendinga. Jeg er að svo stöddu alls ekkert fíkinn í neina stóriðju. Jeg tel hana óholla fyrir menningu þessarar fámennu þjóðar, og óska einskis frekar en að hún dragist, eða útlendingavastrið. En þegar þjóðinni vex fiskur um hrygg og hún getur sjálf hagnýtt afllindirnar, þá er alt öðru máli að gegna. Þá getur það orðið til þrifa og framfara, sem nú gæti valdið menningartjóni. Er mjer því ósárt um, þótt stóriðjan og virkjanirnar dragist enn um hríð.

Annars vil jeg benda á það, að eins og nú er um búið, þá eru litlar líkur til þess að slíkar umsóknir komi fram. Slík fyrirtæki þykja nú ekki lengur neitt ýkja-gróðavænleg, og auk þess er sjerleyfisgjaldið mjög hátt eftir frv., jafnvel að mínu viti óaðgengilegt. Býst jeg við, að flestum vaxi það í augum, enda harma jeg það ekki.

Af þessum sökum læt jeg mjer liggja í ljettu rúmi, hvort þetta frv. til sjerleyfislaga nær fram að ganga á þessu þingi eða ekki.

Það skiftir litlu máli, hvort frv. er sett í sjerstaka vatnamálanefnd eða vísað til allshn. En verði því vísað til allshn., sem jeg tel öllu viðfeldnara, þá væri ef til vill rjett að bæta 2 mönnum við þá nefnd, því hún hefir nú, eins og kunnugt er, þegar allmikið á sinni könnu, og er auk þess ekki sjerstaklega skipuð með hliðsjón af þessu máli.