19.02.1924
Neðri deild: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í C-deild Alþingistíðinda. (2414)

7. mál, vatnsorkusérleyfi

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Mjer virðast þessar umr., sem hjer hafa farið fram, eiga öllu betur við 2. umr. en 1. umr. Skal jeg ekki gera gyllingar til að þær verði öllu lengri, en vil þó fara fáum orðum um sum atriði, sem fram hafa komið.

Hv. þm. Dala. (BJ) hjelt því fram, að það væri ekkert tiltakanlega langur tími, sem nefnd og þing væru búin að vera með þetta mál á döfinni. Jeg veit ekki, hvað hann kallar langan tíma, en það eru nú um það 8 ár, og það kalla eg langan tíma. Jeg er þó á sama máli og hann, að betra er að vera hóti lengur og vinna verkið betur. Háttv. þm. (BJ) kvað þennan drátt hafa verið heppilegan, og kom mjer það ekki á óvart. Hann hefir altaf verið hræddur við vatnavirkjun í stórum stíl, af ótta við það, að útlendingar kynnu þá að fylla landið. En frá mínu sjónarmiði er það óheppilegt, að ekki var undinn bráður bugur að lögunum. Jeg er í engum vafa um það, að ef sjerleyfislögin hefðu verið til 1920, þá hefði þá þegar verið farið að virkja vötnin í talsvert stórum stíl, og þótt þau fjelög hefðu brátt orðið að hætta hjer, þá hefðu þau samt verið búin að koma hjer á fót mannvirkjum, sem haldið hefðu áfram að vera til, og hefðu þá veitt mörgum atvinnulausum hjerlendum atvinnu við þau. Hefðu þau mannvirki síðar getað komið landinu að góðum notum.

Háttv. þm. (BJ) kvaðst vera ánægður með frv., að því leyti sem það væri bygt á allsherjarstefnunni. Þó vildi hann fella niður umbætur þær, sem gerðar voru á því í fyrra í Ed. Ekki get jeg fallist á það. Jeg lít svo á, að vatnalögin, eins og þau lágu fyrir í fyrra, hafi verið samfeld heild, bygð á eignarrjetti einstaklingsins yfir vatninu. Lagði jeg þetta þá fyrir einhvern hinn glöggvasta lögfræðing, sem jeg þekki hjer á landi, og var hann sammála mjer í þessu. Sama skoðun varð ofan á í nál. Ed. Þar sat og góður lögfræðingur. Leit hann svo á, að frv., eins og það kom frá Ed., væri bygt á þeim rjetti. Nú er spurningin sú, hvort breyting sú, sem gerð var í fyrra hjer í deildinni á 2. gr. frv., hafi breytt því svo, að heildin hafi raskast. Jeg er algerlega á móti því. Hjer er aðeins um orðabreytingar að ræða, en ekki efnisbreytingar. Áður en jeg lagði frv. hjer fram, bað jeg þó þennan sama lögfræðing, sem jeg gat um fyr, að athuga, hvort þessi breyting kæmi að nokkru leyti í bága við þetta frv., eins og það var samþ. í Ed. við 2. umr. þar. Gerði hann það, en komst að þeirri niðurstöðu, að svo væri ekki. Jeg veit að vísu, að meiri- og minnihl. nefndarinnar geta aldrei orðið sammála um þetta atriði, og verður það svo að vera. En jeg hygg, að sá ágreiningur nái skamt út fyrir nefndina. Tel jeg rjettast að ræða það ekki frekar, en snúa sjer að frv. sjálfu.

Háttv. þm. Dala (BJ) vildi stytta sjerleyfistímann að miklum mun. Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þá skoðun hans, en að eins taka það fram, að jeg tel 40 ár ekki ná nokkurri átt. Jeg hygði þá rjettara að láta vera að semja slík lög, heldur en að gera þau svo úr garði, að enginn geti notast við þau,

Háttv. l. þm. S.-M. (SvÓ) kvaðst einnig vera óánægður með frv., en jeg tel ekki neina ástæðu að fara út í það nú. Væntanleg nefnd fær að fjalla um slíkt. En þar sem hann tók það fram, að það stæði hvergi í frv., að sá, sem sækti um sjerleyfi, yrði að vera eigandi vatnsrjettindanna, þá vil jeg svara því. Það liggur í augum uppi. Sá, sem sækir um þessi hlunnindi, verður auðvitað að sanna rjett sinn til þeirra, eins og sá, sem um einkaleyfi sækir, verður að sanna, að hann hafi fundið upp þann hlut, sem hann biður um einkaleyfi á. Þetta er svo sjálfsagt, að óþarft er að taka það beinlínis fram. Jeg minnist þess, að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) óskaði, að ákvæði þessa efnis væri tekið upp í 2. gr. sjerleyfisfrv., og aðgætti jeg þá, hvort auðið væri að samræma þetta við aðrar greinir frv., en þá kom í ljós, að það var algerlega ósamrýmanlegt við sumar greinirnar.

Jeg skal svo ekki fjölyrða að sinni um frv. en vil mæla með því, að því verði vísað til allshn.