19.02.1924
Neðri deild: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í C-deild Alþingistíðinda. (2415)

7. mál, vatnsorkusérleyfi

Bjarni Jónsson:

Jeg hugði, að ýmsir fleiri hv. þm. mundu vilja ræða mál þetta frá almennu sjónarmiði, og ætlaði jeg því að bíða um hríð að taka til máls aftur. En þar sem hv. þm. er nú svo tregt tungu að hræra, skal jeg nú þegar gera nokkrar athugasemdir við ræðu hæstv. atvrh. (KlJ).

Hæstv. atvrh. (KlJ) var mjer ekki sammála um það, að frestur sá, sem orðinn er á þessari lagasmíð, sje heppilegur. Hygg jeg þó, að gild rök megi færa fyrir þessu.

Ef þvílík sjerleyfislög hefðu verið gengin í gildi 1919–1920, ætlar hæstv. atvrh. (KlJ), að þá hefðu risið upp hjer á landi mikil og stórkostleg fyrirtæki, sem veitt hefðu fjölda manns atvinnu. En þar til er því að svara, að á þeim árum var enginn atvinnuskortur. Landsmenn áttu þá ærið að vinna, að gegna atvinnuvegum landsins til sjávar og sveita, er þá gáfu af sjer góðan ávöxt, ef menn hefðu kunnað með að fara og haft vit á að selja í tæka tíð. Náttúran rjetti fram fullar hendur, og ekki er henni um að kenna, þó að landsmenn hafi verið orðnir fátækari að þessum árum liðnum. Þeir hefðu og ekki auðgast neitt við það, þó að erlend fjelög hefðu þá veitt mönnum atvinnu. Menn hefðu ef til vill átt eitthvað afgangs af kaupi sínu, en til móts við það hefðu verið gerð hjer stórkostleg mannvirki, sem staðið hefðu svo ónotuð um aldur og æfi. Mjer er kunnugt um, að fjelag það, er hæstv. atvrh. (KlJ) nefndi, hafði þá í hyggju að ráðast í atvinnurekstur, sem aldrei hefði getað borgað sig, einmitt af þeirri ástæðu, sem verkfræðingur þessa fjelags tók fram við mig. Þá er jeg spurði hann, hvort þetta myndi ekki geta orðið til þess að skip vor hefðu meira að flytja frá landinu, neitaði hann því og kvað jafnmikið skiprúm þurfa undir hráefnin, sem flytja þyrfti til landsins. En með því móti getum vjer ekki kept við Noreg í þessum efnum. Það er deginum ljósara, að það getur ekki borgað sig fyrir oss að vinna úr hráefnum, sem flutt eru yfir höfin, þegar flytja verður afurðirnar út aftur. Jeg tel því heppilegt, að þetta skuli hafa beðið meðan draumvíman var að renna af mönnum, því að sú víma er nú runnin af flestum mönnum, þó að einhverjir kunni enn að ganga duldir hins sanna í þessu efni. Það er heppilegast, að landsmenn noti það, sem landbúnaðurinn og fiskiveiðarnar gefa af sjer, og það er yfrið nóg til þess að ala þjóðina, og það þótt hún aukist um helming. En þá fyrst, þegar þjóðin er orðin svo mannmörg, að þessir atvinnuvegir hrökkva ekki til, er gott að grípa til þessa afls, ef það þá hefir verið geymt þjóðinni, en ekki fengið útlendingum í hendur til þess að græða á eða til þess að fara á höfuðið á, sem sennilegra er að verða myndi. En það myndi aftur verða þjóðinni til ámælis og til stórspillingar lánstrausti landsins, ef menn gætu sagt, að alt færi á höfuðið, sem fje væri lagt í hjer á landi. Bankarnir yrðu þá og ver staddir og krónan ef til vill hrapa niður í námunda við markið. Þessar yrðu afleiðingarnar, en til jafns við þetta hefði eitthvað flust inn af erlendu fólki, og læt jeg kynbótamennina um að meta það, hvílíkur fengur það væri þjóð vorri. En vita þykist jeg, að væri um reiðhesta að ræða, myndu menn ekki vera tiltakanlega hrifnir.

Jeg skal enn ítreka það, að jeg get ekki fallist á að hafa sjerleyfistímann lengri en frv. meirihl. milliþinganefndarinnar kveður á. Jeg verð að halda því fram, að hafi fyrirtæki ekki borgað sig á 25–30 árum, svo að eigandinn geti látið það af hendi eftir 35–40 ár með vel sæmilegum ágóða, hefði það betur verið óstofnað. Það má minna á fyrirtæki, sem hefir sjerleyfi hjer á landi, svo sem Íslandsbanka. Sjerleyfi hans gildir einungis um 30 ár, og þó að tilkostnaðarminna sje í upphafi að setja á stofn banka, þá er það fult eins áhættumikið eins og t. d. iðjuver, sem stofnað er á heilbrigðum grundvelli, en ekki fyrirsjáanlegt, að fara muni á höfuðið. Því að bankar fá oft og einatt mikla skelli, sem vegur á móti því, að stofnkostnaðurinn getur verið minni. Jeg tel því nóg að hafa sjerleyfistímann 35–40 ár, en til samkomulags í nefndinni ljet jeg mjer lynda, að hann yrði ákveðinn 55 ár. En 75 ár er alveg óhóflegt.

Jeg man það, að hæstv. atvrh. (KlJ) sagði það í fyrra hjer í hv. deild, er hann kom okkur hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) til hjálpar með brtt. okkar við 2. gr. vatnalagafrv., að hann hefði borið brtt. undir lögfræðing hjer í bæ, er hann teldi einna snjallastan í þeirri grein, og spurt hann, hvort lögin yrðu ekki samfeld heild, þó að brtt. okkar yrði samþykt. Kvað lögfræðingurinn það rjett vera, að lögin yrðu þá samfeld heild, og er það rjett svar, er sýnir, að þetta hefir verið góður löfræðingur. Því að með brtt. okkar urðu lögin fyrst samfeld heild. (Atvrh., KlJ: Nei, nei.) Jú, einmitt, því að áður stönguðust ákvæði frv. sem mannýg naut. Frumvarpið var samið í upphafi af Einari prófessor Arnórssyni, og allsherjarstefnan var alstaðar höfð fyrir augum. Lögfræðingur sá, sem hæstv. atvrh. (KlJ) gat um, hefir því rjett fyrir sjer, en lögfræðingurinn í Ed. fer villur vegar. Jeg hefi áður sannað það óhrekjanlega með tilvitnunum í gömul lög, að sá, sem les þau án þess að limlesta móðurmál sitt, hlýtur að komast að þeirri niðurstöðu, að allsherjarstefnan hafi altaf ráðið til forna.

Það er og rjett hjá þessum sama lögfræðingi, að frv. þetta er ekki í ósamræmi við vatnalög þau, sem samþykt hafa verið. Þó að sjereignarstefnan hefði orðið ofan á í fyrra, hefði frv. samt ekki þurft að vera í ósamræmi við lögin, en þá hefði það orðið ónýtt og gagnslaust. Því að frv. er bygt á allsherjarstefnunni, að fallvötn sjeu ríkiseign eða þá res nullius, sem ríkið eigi að ráðstafa með lögum.

Það er algerlega gagnlaust, þó að hv. þm. reyni að vefengja það, sem jeg nú hefi sagt um þýðingu brtt., sem samþykt var í fyrra, og færi til þess langar ræður. Hver og einn dómstóll, í þessu landi eða öðru, myndi dæma á þá leið, að þá hefði lagabálkurinn verið færður úr sjereignarstefnunni yfir í allsherjarstefnuna, og þeir, sem þekkja allan undirbúning frv., vita, að þá fyrst varð lagabálkurinn sjálfum sjer samkvæmur.