03.03.1924
Efri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í C-deild Alþingistíðinda. (2439)

14. mál, blöndun ilmvatna

Jónas Jónsson:

Jeg hefi skrifað undir nefndarálit þetta með fyrirvara, og eins og háttv. frsm. (EP) tók fram, geri jeg að engu kappsmáli, hvernig um það fer.

En jeg vildi aðeins nota tækifærið til þess að skjóta því til hæstv. forsrh. (SE), að mjer finst kenna hjer svipaðrar framsýni og hjá manni nokkrum, sem átti að fara að hengja, en bað um að fá lánaða regnhlíf, af því að úði var þann daginn, til þess að hann yrði ekki innkulsa á leiðinni og fengi svo kvef.

Þó aldrei nema frv. þetta geti orðið til bóta, að svo miklu leyti sem það nær, er það ekki að síður hlægilegt, þar sem hjer flýtur alt í áfengum drykkjum, og meðal annars er talið, að áfengisverslun ríkisins hafi ekki minna en 200 tegundir af hinu svo kallaða Spánar-„sprútti“. Hefði því óefað legið nær að fækka þessum víntegundum svo, að þær yrðu ekki fleiri en það sem nauðsynlegt er til þess að við stöndum við orð okkar við Spánverja. Svo jeg ekki tali um, hve miklu nauðsynlegra hefði verið að gera tilraun til að takmarka meir en gert hefir verið innflutning hinna sterku drykkja. En það vildi háttv. deild ekki gera í fyrra. Þá var felt frv., sem gekk í þá átt að herða að smyglurum.

Annars skal jeg taka það fram, að mjer finst frv. þetta svo nauðalítils virði, að stjórnin hefði helst ekki átt að bera það fram. Úr því hún kom ekki jafnframt með frv. í þá átt að hindra með öllu innflutning sterkra drykkja. Jeg sje þó ekki ástæðu til að greiða atkv. á móti því, af því jeg tel það bæði meinlaust og gagnslaust.