03.03.1924
Efri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í C-deild Alþingistíðinda. (2440)

14. mál, blöndun ilmvatna

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal ekkert um það segja hversu margar víntegundir eru í áfengisversluninni. Hvort þær eru 200 eða hvað, veit jeg ekki, fyr en jeg hefi aflað mjer upplýsinga um það. En það er víst, að það er lögheimilað að flytja inn vín með alt að 21% styrkleika, og meiri styrkleika hafa vín þau ekki, sem eru í áfengisversluninni.

Hinsvegar hefir stjórnin gert alt, sem hún hefir getað, til þess að draga úr misnotkun áfengis, meðal annars með því að draga úr skamti þeim, er læknar og lyfjabúðir hafa fengið, og yfirleitt gert alt, sem í hennar valdi hefir staðið, til þess að draga úr sölu áfengis. En það er satt, að það er ákaflega erfitt að gera það svo um muni, og hefir smyglun átt sjer stað bæði áður og eftir að þessi nýja undanþága var veitt frá bannlögunum. Stjórnin hefir því ekki lagt árar í bát í þessu máli, eins og mjer skildist eftir ræðu háttv. 5. landsk. (JJ), að hann væri fús til að gera. Þvert á móti. Og frv. það, er hjer liggur fyrir til umr., gengur sömuleiðis í þá átt, því að það á að koma í veg fyrir, að menn, sem hneigðir eru til víndrykkju, drekki vökva þessa, sem eru mönnum svo mjög óhollir.

Það er því heilbrigt að samþ. frv., því að það er spor í rjetta átt, þó að ekki sje beinlínis hægt að telja það stórmál.