03.03.1924
Efri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í C-deild Alþingistíðinda. (2442)

14. mál, blöndun ilmvatna

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal ekkert fjölyrða um það, hversu margar tegundir vina munu vera í áfengisversluninni. Það get jeg upplýst síðar, ef þurfa þykir. Annars finst mjer það skifta minstu máli, hve tegundirnar eru margar, heldur sje aðalatriðið, hver skaðsemi þeirra er, því að 12 tegundir geta verið skaðlegri en 200.

Hið eina, sem verulegan árangur gæti borið í þessu máli, er að herða að miklum mun lögreglueftirlitið. En það er alveg fjarstæða, sem sumir bannmenn halda, að það muni duga að vera sífelt að breyta lögunum og setja ný og ný lög. Annars vildi jeg óska, að hv. 5. landsk. (JJ) mætti taka við stjórnartaumunum, svo hann fengi tækifæri til að sýna röggsemi sína í þessu máli. En jeg er þeirrar skoðunar, að stjórnin geti ekki tekið á þessu máli verulega hörðum tökum, nema því aðeins, að hún hafi verulega sterkan meirihl. að baki sjer í málinu.