03.03.1924
Efri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

14. mál, blöndun ilmvatna

Jóhann Jósefsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls í þessu máli, en nokkur atriði, sem fram hafa komið í ræðum þeirra hæstv. forsrh. (SE) og hv. 5. landsk (JJ) hafa gefið mjer tilefni til þess.

Hæstv. forsrh. (SE) gat þess, að hann hefði gert töluverðar breytingar í þá átt að minka vín það, er læknar og lyfjabúðir mega láta úti. Er þetta vel farið, og því er ekki að neita, að það hefir borið töluverðan árangur, því að vínaustur á þessu sviði virðist hafa minkað að miklum mun. Og mun nú ekki eins auðvelt eins og áður var að fá „resept“, svo jeg tali á hinu almenna götumáli.

En það er til önnur leið að ná víni á löglegan hátt, en hún er sú, að ná því út á áfengisbækur þær, sem lögreglustjórar láta úti og menn fá út á áfengi til iðnaðar. En mjer er ekki kunnugt um, að stjórnin hafi sett neinar nýjar reglur til þess að koma í veg fyrir, að ákvæðunum um þetta yrði misbeitt. Og jeg er þeirrar skoðunar, að þetta sje miklu skaðlegra en þótt læknarnir hefðu fengið að halda sínum skamti. Tel jeg því mjög nauðsynlegt, að frekari reglur verði settar um áskrift á bækur þessar, svo að þær verði ekki misnotaðar hjer eftir eins og hingað til. Jeg veitti því eftirtekt, að fyrir nokkrum árum drukku menn hármeðul þau, er hjer er um að ræða, og þá sjerstaklega hið svokallaða „Bayrum“, en nú held jeg, að því sje að mestu hætt, af því að mönnum hafa opnast aðrar leiðir til að útvega sjer áfengi til drykkjar. Fyrst og fremst þetta iðnaðaráfengi, Í öðru lagi hin spönsku vín, og í þriðja lagi vín, sem menn búa til í landinu sjálfu, sem jeg hygg, að farið sje að búa til allvíða. En það tel jeg hættulegast af öllu fyrir bannið.

Annars hygg jeg, að ástandið sje yfirleitt orðið svo vont nú, að bannmenn sjeu farnir að verða vondaufir um hin blessunarríku áhrif bannsins. Já, svo vondaufir munu margir nú vera orðnir, að þeir myndu fæstir greiða atkvæði með banni, sem áður gerðu það, ef það ætti nú að leggjast undir atkvæði þjóðarinnar.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að það væri ekki nóg að setja ný og ný lög, sem hertu á banninu, heldur dygði ekkert annað en auka lögreglueftirlitið, og það væri samt erfitt. En mjer er næst að halda, að lögreglustjórar hafi ekki gert skyldu sína í þessum efnum undanfarið, hvað þá meira, og skal jeg því til sönnunar nefna eitt lítið dæmi, sem jeg þekki.

Einu sinni kom skip til Vestmannaeyja, sem fyrst hafði komið til Fáskrúðsfjarðar, og svo víða þaðan á leiðinni til Reykjavíkur, og hjeðan kom það til Eyja. Fór jeg þá í umboði lögreglustjóra um borð í það, til þess að athuga innsiglið fyrir vínbirgðum þess. En þegar til kom, höfðu þær aldrei verið innsiglaðar. Þótti mjer þetta svo merkilegt, að jeg fjekk það skriflegt hjá brytanum. Þegar nú svona misfellur eru á löggæslunni yfirleitt, er ekki undarlegt, þó að litið sje smáum augum á frv. það, sem hjer liggur fyrir til umræðu.