20.02.1924
Efri deild: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

16. mál, brúargerðir

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Þetta frv. stendur að mestu leyti í sambandi við frv. það til vegalaga, sem nú hefir verið lagt fyrir þessa hv. deild, sbr. t. d. 2. gr., og að nokkru leyti í sambandi við breytingar, sem í fyrra voru gerðar á stefnu vegarins um Norður- Þingeyjarsýslu, þegar valin var hin svokallaða nyrðri leið, sem gerir nauðsynlegt að brúa nokkrar ár, og eru í frv. taldar 4 þeirra, tvær í Þistilfirði og tvær í Vopnafirði. Það er auðvitað mál, að brúargerðir þessar hafa talsverðan kostnað í för með sjer. En meiningin er, að ekki verði ráðist í framkvæmdir þeirra fyr en efni ríkissjóðs leyfa.

Frv. þetta ljettir talsverðum byrðum af sýslufjelögum, og veitist þeim þá hægra að halda við sýslu- og hreppavegum og mun þess síst vanþörf. Jeg býst við, að frv. þessu verði vísað til samgmn., að lokinni umr.