26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í C-deild Alþingistíðinda. (2461)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Mál þetta er alls ekki nýtt í þingsögunni. Um þetta mál hefir verið rætt og ófriður mikill staðið út af því á þingum og valdið umtali miklu um land alt. Hefir þetta verið einna mest ófriðarmál hjer á landi á síðari árum. Og þó er málið ekki gamalt mál. Á Alþingi 1919 fjell fyrst úrskurður um, að sendiherraembættið skyldi stofnað og veitt til þess í fjárlögum. 1922 var á Alþingi sá endi bundinn á þetta mál, sem nú er, og lögfest, að embættið skyldi standa. Það eru þessi lög frá 1922, sem jeg fer fram á í frv., að verði afnumin. Þó að þetta yrði, stóð þó glögt um úrslitin 1919, um fjárveitinguna til þessa embættis. Jeg veit, að margir hv. þm. munu minnast þess, að í Nd. urðu jöfn atkvæði um fjárveitinguna á fjárlögunum; jeg vek eftirtekt á þessu, vegna þess, að þetta skeði á því þingi, sem langdjarfast hefir verið til allra fjárframlaga. Á hvaða þingi öðru sem var, hefði þessi fjárveiting ekki verið samþykt, og jafnvel ekki heldur í það sinn, ef mótstöðumenn máls þessa hefðu neytt einhverrar annarar aðferðar en þeir viðhöfðu þá. Jeg er persónulega sannfærður um að á engu öðru þingi en þinginu 1919 hefði þetta mál náð fram að ganga. Þá var eins og væri einhver sjálfstæðisvíma á mönnum, sem olli því, að embættið var stofnað. Jafnvel á því þingi varð málið að vera hálfgrímuklætt, að því er kostnaðinn snerti. Meðhaldsmenn þessa máls gerðu miklu minna úr kostnaðinum við þetta embætti en nú er komið á daginn; svo örðugur var róðurinn. Ýmsir innan þings og utan, jeg þar á meðal, fullyrtu, að kostnaðurinn við embættið mundi stórkostlega aukast, er tímar liðu fram; en því var harðlega neitað, að kostnaðurinn væri of lágt áætlaður. En allar þessar spár hafa ræst. Skal jeg þessu til sönnunar nefna hjer nokkrar tölur. Á fjárlögunum 1920–21 var áætlað:

Laun 1920–21, 12 þús. kr., nú 20 þús.

Húsaleiga 2 — — — 3 —

Risna 2 — — — 5 —

Skrifst.kostn.. 12 — — — 14 —

Samtals 28 þús. kr., nú 42 þús.

Eða með öðrum orðum 1/3 hærra en meðhaldmenn sendiherraembættisins höfðu áætlað árið 1919. Jeg er því sannfærður um, að á Alþingi 1919 hefði þetta ekki náð fram að ganga, ef þeir menn, sem þá ljetu laðast til þess að vera með í því, hefðu trúað okkur, sem fullyrtum þetta um aukinn kostnað við embættið.

Jeg er ennþá sömu skoðunar eins og áður, að þetta embætti sje óþarft og alt of dýrt. Og nú er hjer komið saman nýtt þing. Tilgangur minn með þessu frv. er að fá úrskurð þessa nýja þings og gera tilraun um, hvort það vilji halda í embætti þetta eða taka nýja stefnu í málinu.

Þá ætla jeg að snúa mjer að aðalatriðum þessa máls, bæði sem mæla með og móti, og mun leitast við að gera það í sem fæstum orðum.

Meðhaldsmenn sendiherraembættisins telja það vera aðalástæðuna til stofnunar þess, að það sje merki um sjálfstæði landsins að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn. Móti því vil jeg segja þetta: Ef sjálfstæði Íslands er bundið við þetta embætti, gef jeg ekki mikið fyrir það. Jeg er sannfærður um, að annaðhvort erum við sjálfstæðir eða ekki, hvað sem þessu embætti líður. Og við erum það, — hvort sem við höfum sendiherra í Kaupmannahöfn eða ekki. Þessi ástæða er því einskis virði. Á öllum kosningaundirbúningsfundum fyrir síðustu kosningar hjelt andstæðingur minn þessu mjög ríkt fram. Jeg álít fjárhagslegt sjálfstæði aðalatriðið, en tel ekkert varið í sjálfstæði í orði. Mjer er illa við alt orðatildur, sem ekkert gagn gerir, hvort sem það er sendiherratitill eða eitthvað annað.

Þá kem eg að öðru atriði, sem fyrir mjer er höfuðatriði: Er svo mikið raunverulegt gagn að því að hafa sendiherra, að vert sje að halda þá þessvegna? Þetta eru einu ástæðurnar, einu rökin, sem jeg mun beygja mig fyrir, ef hægt er að sannfæra mig um þetta atriði. Í þessu sambandi vil jeg taka þetta fram: Jeg ber fult traust til núverandi sendiherra og dreg ekki í minsta efa, að hann hafi þegar gert mikið gagn. En hinsvegar er jeg jafnsannfærður um, að hann hefði gert sama gagn án sendiherratitils, þó hann hefði t. d. heitið skrifstofustjóri eða eitthvað enn annað, og jafnvel undir sumum kringumstæðum meira gagn. Jeg er sannfærður um, að gagninu má öllu ná án þessa titils, en kostnaðurinn af honum er árlega afarmikill. — Ennfremur skal jeg taka fram: Eins og jeg ber fult traust til núverandi sendiherra vors, ber jeg og fult traust til Jóns Krabbe, skrifstofustjóra, og tel jeg málefnum vorum vel borgið í hans höndum. Skrifstofustjóri gæti því gert sama gagn og sendiherra.

Þá hefi jeg slegið því föstu, að gagnið má alt hafa af sendimanninum, þótt hann heiti ekki sendiherra. Lítum nú á, hvað mundi sparast við, að titillinn yrði lagður niður og skrifstofustjóri færi með störf hans. Nú er veitt til þessa:

Til skrifstofuhalds 14 þús. kr.

Fyrir meðferð utanríkismála 12 — —

Ríkisráðskostnaður — 4 — —

Samtals 30 þús. kr.

Jeg er sannfærður um að þessi upphæð mundi langdrægt nægja til að sjá málum vorum borgið, ef að sendiherraembættið yrði lagt niður. En auk þess er veitt nú:

Sendiherralaun 20 þús. kr.

Húsaleiga sendiherra .... 3 — —

Til risnu 5 — —

Samtals 28 þús. kr.

Jeg er sannfærður um, að þessi upphæð mætti langdrægt spara, — 20–25 þús. kr. að minsta kosti. Vil jeg vekja athygli á þessu: — að það er meira unnið við að spara þetta fje, sem alt rennur annars út úr landinu, en þó lögð yrðu niður embætti innanlands, með tilsvarandi launasparnaði, því það fje fer ekki út úr landinu.

Frv. kveður ekki á um að hætta skuli að launa sendiherra í Kaupmannahöfn; heldur hitt, að það skuli ekki lengur vera lögfest embætti.

Þetta er aðalatriðið í þessu máli nú, og vil jeg æskja eftir, að umr. snúist aðallega um það.

Frv. á að koma í veg fyrir, að ef embættið losnaði, rjúki stjórnin þegar til að veita það aftur; — en það er hún nú skyld að gera, meðan það er lögfest. Jeg ætlast til, að ef frv. nær að ganga fram, að þá sje kominn fram ótvíræður vilji þingsins um það, að þetta mál verði undir það borið og að það fái að tala með um það, hvort skipa skuli aftur mann í þessa stöðu eða ekki. Til þessa er því meiri ástæða sem það hefir margfrjest, að núverandi sendiherra muni gjarnan vilja hverfa frá þessu embætti og flytjast hingað heim aftur. Ef svo færi, vil jeg, að þingið fái að fjalla um þetta mál — að það hafi sýnt það með þessu frv., ef það verður að lögum, — að það vill tala með um, hvað gera skuli. Þessvegna er í frv. svo kveðið á, að þingið skuli í hvert sinn veita fje á fjárlögunum til sendimannsins.

Enn er fimta og síðasta atriðið. — Það er þetta:

Jeg tel alveg óþarft á þessu stigi málsins að taka nokkra ákvörðun um það, hvort nú eigi að hætta að veita á fjárlögunum til sendiherra í Kaupmannahöfn eða ekki. Frv. fer fram á að nema lögin um lögfesting embættisins úr gildi; við það vil jeg láta sitja. Það er nógur tíminn til þess að taka ákvörðun um hitt, þegar sjeð verður út um það, hvort þetta frv. nær að ganga fram, og hætt verður að lögfesta sendiherrann. Þegar fjárlögin verða rædd, verður nógur tími til að ákveða þetta, ef frv. verður þá orðið að lögum, hvort veita skuli fje áfram í þessu augnamiði eða leggja embættið niður þegar í stað. Þetta verður sjeð áður en fjárlögin verða afgreidd. Jeg hefi afráðið fyrir mig, hvaða stefnu jeg tek í málinu, ef frv. verður samþ. Þá fyrst er tími til kominn að kveða endanlega á um það í fjárlögunum, hvað eigi að gera, en jeg tel það óþarft að blanda því inn í umræðurnar nú, og aðeins tímatöf að því.

Að endingu aðeins örfá orð enn: Jeg geng að því vísu, að nú verður mikill hvellur gerður að mjer út af þessu frv.

Þetta hefir altaf verið ófriðar- og hitamál, en jeg læt þá um það, þá góðu herra, sem hrópa vilja hátt út af þessu; jeg sit óhræddur fyrir þeim. Mjer stendur alveg á sama, þótt einhversstaðar komi hljóð úr horni. En eitt vil jeg þó benda á. — Það er í rauninni alveg þýðingarlaust að stofna til langra umræðna um þetta mál. Allir þm. munu þegar hafa þrauthugsað málið og vegið ástæður með og móti og breyta því í engu skoðun sinni við langar umræður. Háttv. þm. munu þegar vera reiðubúnir til að taka ákvörðun um málið. Jeg tel það jafnvel álitamál, hvort ekki mætti taka ákvörðun um málið umræðulaust með atkvæðagreiðslu þegar í stað. Að öðru leyti er jeg jafnsannfærður um, að hvernig sem atkvgr. annars fer, sem nú mætti vel fram fara alveg hljóðalaust, — að það er áreiðanlega vilji mikils meirihl. þjóðarinnar, að embætti þetta verði lagt niður.

Að loknum þessum umr. óska jeg að frv. verði vísað til allshn.