26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í C-deild Alþingistíðinda. (2463)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Bjarni Jónsson:

Það hittist illa á, að jeg skyldi eiga að tala næst á eftir hæstv. forsrh. (SE). Hefði jeg heldur kosið, að einhver af ástvinum hv. flm. (TrÞ) hefði verið á milli, eða hann sjálfur. Hv. flm. ljet skilja á sjer hjer í öðru máli, að jeg myndi sem þm. hafa orðið ærið dýr þessu landi. Það má vera, að jeg sje dýr orðinn, en þá ætla jeg, að hv. flm. yrði öllu dýrari þm., ef hann kæmi fram þessu frv. sinu. Og jeg vil taka svo djúpt í árinni að fullyrða, að þótt það væri satt, sem ýmsir menn hafa verið að fleipra um mig í rógburðarskyni, sökum þess, að jeg hefi viljað styrkja nokkra fátæka menn, þótt það væri satt, segi jeg, að jeg væri allra þm. dýrastur, þá má hv. flm. vara sig á því, ef hann fengi nú ósk sína uppfylta, að hann yrði ekki, er tímar liðu, talinn 100 þúsund sinnum dýrari.

Hv. flm. byrjaði ræðu sína á því að tala um, að lög þessi hefðu verið samin í mestu sjálfstæðisvímunni, með öðrum orðum: í einskonar fylliríi. Vildi hann nú, slíkur bindindismaður sem hann er, stofna einskonar sjálfstæðisbindindi. En hann má vara sig á því, þessi mikli bindindispostuli, að hann verði ekki sjálfur ver haldinn af annari vímu ekki betri: — ósjálfstæðisvímunni. Það virðist svo sem hann og einstaka menn aðrir eigi svo bágt með að hrista af sjer endurminningar liðins tíma, að þeim er sem þeir sjeu enn að starfa í fortíðinni. Þeim finst enn sem ómögulegt sje að framkvæma það, sem þegar hefir fengist framgengt. Eins og sjá má af sumum frv. þeim, er fram hafa komið upp á síðkastið, hefir ósjálfstæðisvíma þessi hjá einstaka manni náð „deliríum“-stiginu. Er í rauninni mjög misráðið að senda slíka menn á þing. Í nútíðina eiga þeir ekkert erindi. Öðru máli er að gegna um það, hve verðmætir þeir kunna að verða að menjagildi sem forngripir í íslenskum stjórnmálum.

Hv. flm. benti hv. deild á það, eins og góðum klerki sæmir, hve einskisvert það sje að sýnast á þennan hátt. Jeg felst á það með honum, að lítil bót sje að því að sýnast það, sem maður ekki er. En eins og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) tók rjettilega fram ekki alls fyrir löngu, þá er það oft bæði rjett og heppilegt að gera sjer far um að sýnast það, sem maður er. Á þetta ekki hvað síst við um viðskifti þjóða á milli. Það má að vísu segja, að sjálfstæði okkar í bókstaflegri merkingu sje ekki undir því komið, að við höfum sendiherra í Kaupmannahöfn. Samningnum hjeldum við engu að síður. En heimurinn gæti engu að síður auðveldlega gleymt því, að við værum sjálfstæð þjóð. Það hjálpar ekki eingöngu, þótt þessi samningur sje til. Heimurinn hefir annað að gera en að vera sífelt með þann brjefmiða í hendinni. Nei, það eina, sem hjálpar, er að við högum okkur þannig, að aðrar þjóðir hafi ávalt opin augun fyrir sjálfstæði landsins. Hjer er það skylda okkar að sýnast það, sem við erum. Sendiherra er besta auglýsingin hjá öðrum þjóðum um afstöðu þessa afskekta og lítt þekta lands. Hann sýnir ómótmælanlega, að við höfum rjettinn til að vernda — fullveldisrjettinn. Ef við aftur á móti sendum bara einhvern skrifstofustjóra, þá sýnir það ekkert í því efni. Sjerhver verslun getur gert það sama. Eða hvað ættum við svo sem að græða á því, að þessi maður heiti eitthvað annað en sendiherra? Er það bara ósjálfstæðisvíman, sem er orsök í því, að hv. flm. þolir ekki orðið? — Það er engum efa bundið, að það hefir mikilsverða þýðingu fyrir viðskifti Íslands við aðrar þjóðir að hafa þarna mann, sem getur umgengist sendiherra þeirra. Það gagn er meira en nemur 45 þúsundum króna. Hvað ættum við að gera í slíkum málum, ef við næmum burtu þennan mann? Jú, við sáum það nýlega, hvað hv. flm. (TrÞ) myndi gera vilja. Hann myndi, eins og í kjöttollsmálinu, vilja senda 2–3 menn utan, bláókunnuga menn og titillausa. Þessir menn ættu að taka það að sjer að framkvæma fyrir Íslands hönd hina vandasömustu samninga, — samninga, sem á kynni að velta líf og velmegan þjóðarinnar. — Það er hverju orði sannara, sem hæstv. forsrh. (SE) tók fram, að slíkar sendiferðir eru ekki ætlandi mönnum, sem ekki eiga færi á að tala við aðra erlendis en undirtyllur undirtyllanna.

Jeg þarf ekki heldur að benda á það, sem hæstv. ráðh. tók fram, að ný ríki hafa margfalt meiri þörf fyrir slíka menn en önnur eldri. Það minsta, sem unt er því að hugsa sjer að við getum komist af með, er einn sendiherra í einu, mann, sem á aðgang að hæstu stöðum erlendis. Undir því er alt komið; hinir verða ávalt að sæta milligöngu annara, og þessir aðrir eru oft menn, sem lítinn skilning bera á erindið, sem þeim er ætlað að reka, og líta auk þess niður á svo smáa sendimenn svo smárrar þjóðar.

Þessi sendiherra, sem við höfum í Kaupmannahöfn, er sjálfkjörinn til að fara allar okkar sendiferðir erlendis. Er nauðsynlegt að hafa þarna mann, sem er vanur slíkum samningum og má treysta. Er í rauninni óskiljanlegt, hvernig sá maður getur stofnað til slíks frv., sem ætlaði að springa fyrir skömmu síðan af ákafanum að senda menn utan til samninga um kjöttollinn. En slíks er von af manni, sem geisist áfram á harða stökki, alt eftir því, sem hans ríka lund knýr hann, og hleypur svo á heila veggi, sökum þess, að sjónin er ekki skörp að sama skapi sem fjörið er mikið.

Enn er eitt atriði. Árið 1919 var það bundið fastmælum, að hvert land um sig skyldi hafa sendiherra sinn í hinu til þess að gæta hagsmuna sinna. Jeg hefi síðan brugðið Dönum um það, að þeir hafi gert rangt í því að láta sendiherrann heyra undir annan ráðherra en venja er til. Jeg vildi því ógjarnan, að við gengjum lengra í því en þeir að ganga á bak talaðra orða. — Mjer er líka sem jeg sæi þá frændur okkar Norðmenn og Svía, er þeir frjettu þetta uppátæki okkar. Það yrði áreiðanlega brosað þar handan við hafið. Nokkrir myndu brosa raunamæddir, en aðrir skellihlæja. Og það væri heldur engin furða, því eftirminnilegri þjóðarskömm getur ekki á hverri öld.

Þá skal jeg lítillega minnast á sparnaðinn hjá hv. flm. Hann kvað spár sínar hafa ræst í því, að kostnaðurinn við embætti þetta hefði altaf verið að aukast. Það sáu fleiri fyrir en hann, að svo kynni að fara að krónutali. En myndi hann nú hafa aukist mikið raunverulega? Myndu 42 þúsundir nú vera meira fje en 28 þúsundir árið 1919? — Hann var að tala um það, hv. flm., hvað sparað væri, þegar þetta embætti væri niður lagt og falið Jóni Krabbe skrifstofustjóra. (Jeg þekki annars ekki þann mann, — engan skrifstofustjóra með því nafni. Jón Krabbe, sá er jeg þekki, er trúnaðarmaður í utanríkisráðuneytinu danska og sendisveitarritari hjá sendiherra vorum). Hann kvað með þessu sparaðar 25 þúsundir. — Og setjum nú svo, að þetta sje rjett reiknað. En hvað kemur á móti? Hvað kostar að senda árlega nefndir, 2, 4 eða 5 menn út um öll lönd? Það myndi augsýnilega verða langtum dýrara. Það einasta, sem hjer vinst, væri því, að enginn þeirra manna hjeti sendiherra. Þeir væru allir óþektir menn og fákunnandi á því sviði og gætu lítið gert. Á þessa leið yrði þá allur sparnaðurinn. Jeg hafði gaman að því, er hv. flm. byrjaði ræðu sína með því, að lítið þýddi að ræða málið. Jeg get vel skilið, að hann þoli illa að heyra mál manna um slíkt efni, — og í rauninni ætti það best við, að svona mál færi fram í kyrþey, og að aldrei yrði uppvíst, að það hefði fram komið á Alþingi Íslendinga.

Hv. flm. kvað, í lok ræðu sinnar, þetta vera vilja meirihl. þjóðarinnar. Þetta er ósatt, eins og meirihlutinn af því, sem þessi hv. þm. skrifar eða lætur skrifa í blað sitt.

Það er svo langt frá, að þó að hann riti um þetta í meira en 20 ár í blað sitt, þá mun aldrei fylgja því svo mikill ótími fyrir þjóð vora, að hún fallist á þessa skoðun. Hann getur ekki heldur haft annað fyrir sjer um þennan þjóðarvilja en í mesta lagi vilja nokkurra manna í því kjördæmi, sem hann var kosinn í í haust, í stað sjer miklu betri manns.

Sparnaðurinn við þetta verður ekki nema ímyndun ein, auk þess sem hv. flm. (TrÞ) kveður þetta gert til þess eins að ná lögunum í burt, en til þess sje ekki ætlast, að hætt verði að borga sendiherranum. Hver er þá sparnaðurinn? Eins og það kosti nokkuð, þó að lögin fái að standa í lagasafninu, þar sem þau eru komin. Það mætti og leggja niður sendiherraembættið, án þess að fella lögin úr gildi, og færi betur að gera það í hundahljóði, svo að vjer verðum oss síður til athlægis fyrir. Jeg get fullvissað hv. flm. (TrÞ) um það, að ef hann kemur þessu frv. fram, og jafnvel þó að það komist ekki lengra en það er komið, mun hann verða frægur að endemum, og jafnsögufróður maður sem hv. þm. er, ætti að skilja, hvílíkt eftirmæli hann mun fá fyrir þetta. Þetta er illa hugsað og ilt ráð, og ætti hv. flm. (TrÞ) að taka frv. aftur nú þegar og láta það ekki fara lengra.