26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í C-deild Alþingistíðinda. (2466)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal aðeins svara hv. flm. (TrÞ) fáu einu. Hann veik að því, hvílík hætta það yrði fyrir þjóðina, ef stoðirnar undir fjárhag hennar biluðu. Um þetta erum við sammála, að aðalatriðið sje að treysta fjárhagslegu stoðirnar undir sjálfstæðinu. En ein af leiðunum til þess er sú, að vjer förum með fullri fyrirhyggju og viti í utanríkismálunum. Því verður ekki barið inn í suma menn, að þessi mál sjeu annað og meira en hjegómamál. En það sjest af Spánarmálinu og kjöttollsmálinu, að þau snerta afltaugar efnahags vors. Jeg vil enn á ný vekja eftirtekt á því, að þessi mál verða yfirgripsmeiri með hverju ári, og að vjer getum alls ekki leitt hjá oss þann kostnað, sem af því leiðir, að þau verði afgreidd á viðunanlegan hátt. Það má ekki glepja mönnum sýn, að Danir fara með þessi mál að sumu leyti. Því hefir jafnan verið svo hagað, að það er íslenska stjórnin, sem tekur ákvörðun um, hvað gera skuli í hvert skifti. Þetta getur verið afskaplegur vandi fyrir stjórnina, ef hún hefir ekki sjerfróða menn sjer við hönd.

Jeg mintist á Jón Krabbe, sem er trúnaðarmaður vor í utanríkisráðuneytinu, og að vjer hefðum engan í hans stað, ef hans misti við. Hv. flm. (TrÞ) vildi telja stöðu hans lægri en rjett er, því að hún samsvarar „departementchef“. (MT: Ekki alveg.)

Hv. flm. (TrÞ) hjelt því fram, að vjer þyrftum oft að senda menn hjeðan að heiman, til þess að fara með mál vor. En ef vjer höfum ekki sendiherrann til þess að vera formaður fararinnar, getur alt lent í handaskolum. Ef vjer höfum engan mann, sem hefir lagt sig sjerstaklega eftir utanríkismálum, þá getur farið illa. Það getur heilbrigð skynsemi sagt hverjum og einum, að allar þjóðir væru ekki að hafa allan þennan kostnað að gamni sínu, ef hann væri óþarfur.

Jeg vona, að athugað verði, að hjer er um alvarlegt mál að ræða, sem ekki dugir að ráða til lykta án nákvæmrar íhugunar.