06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í C-deild Alþingistíðinda. (2468)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Frsm. (Jón Þorláksson):

Allshn. hefir nú athugað frv. þetta, og hefi jeg í rauninni litlu að bæta við það, er í nál. stendur.

Það er álit nefndarinnar, að kostnaðurinn við meðferð íslenskra mála í Kaupmannahöfn sje of mikill, sjerstaklega nú, þegar fjárhagurinn er eins þröngur og hann er. Enda hefir kostnaðurinn orðið miklu meiri í reyndinni en gert var ráð fyrir, þegar þetta embætti var stofnað. Síðan hafa launin verið tvöfölduð, og það óefað að brýnni nauðsyn, því þau laun, sem upphaflega voru ákveðin, voru og eru vitaskuld of lág til þess að maður í slíkri stöðu komist af með þau, ef hann á ekki kost annars fjárs sjer til framfærslu.

Hinsvegar hafði nefndin vitneskju um það, og álit ýmsra þeirra manna, sem þessu eru kunnugastir, að koma mætti málinu fyrir á ódýrari og þó fyllilega viðunandi hátt, sem sje þann, að láta sendisveitarritarann annast málin, sem starfrækjanda (chargé d’affaires). Þó að sú leið væri farin, væri það fjarri því, að það væri einsdæmi. Það er svo að segja tíska nú á tímum, að hin efnaminni ríki kveðji heim sendiherra sína, þá sem ekki er brýn nauðsyn á, og láti annast störf þeirra á kostnaðarminni máta. Væri okkur enginn vansi í að fara að þeirra dæmi.

Víma stríðs- og veltiáranna, þegar hver kepti við annan um íburð og bruðl úr hófi, er nú úti, og nú þykir hver sá fremstur og færastur, sem mestan sparnað sýnir í búskap sínum.

Eins og nál. ber með sjer, er ekki lengra gengið en það, að lögunum sje breytt í þá átt, að sendiherra sje hafður, hvenær sem veitt er fje til þess í fjárlögunum. Mætti með rjettu segja, að slík lagasetning væri óþörf, því þingið hefir altaf í hendi sjer að skipa sendiherra, þegar það vill gjalda honum kaup, en hún skaðar ekki.

Skal jeg svo ekki orðlengja meir um málið að sinni.