06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal játa það, að nál. hv. allshn. olli mjer mjög mikilla vonbrigða. Því í eðli sínu er þetta, að fella niður sendiherrann, og hitt, að ákveðið skuli með fjárlögum, hvenær hann skuli vera, alveg það sama. Það er hvorttveggja til þess, að embættið legst niður. Því þó þingið kynni að veita fje til embættisins, þá er enginn maður svo skyni skroppinn, að hann þyrði að taka við því, og er því, ef þetta nær fram að ganga, loku fyrir það skotið, að við höfum sendiherra í öðrum löndum.

Það er að nokkru leyti rjett, sem hv. frsm. (JÞ) sagði, að smáþjóðirnar reyndu að spara kostnað sinn við þessi embætti sem önnur, með því að kalla heim sendiherrana, þar sem þeir eru ekki alveg nauðsynlegir. En það eru engin dæmi til þess, að nokkur sjálfstæð þjóð dragi inn alla sína sendiherra, heldur einstöku þá, sem minst eru nauðsynlegir, og þá er farin sú leið að láta embættin standa opin, en fá þau chargé d’affaires, — jeg kann ekkert gott íslenskt orð yfir það — í hendur um stundarsakir.

En þegar þessi einasti sendiherra Íslands á að fara frá, þá hlýtur sú spurning að koma fram af alefli, hvort ekki hafi verið gagn að þessu embætti, þann tíma, sem vjer höfum haft það. Þó að vísu sje erfiðara að gera grein opinberlega fyrir starfi þessara manna en annara opinberra starfsmanna, þar sem störfin eru þannig í eðli sínu, að ýmsu, sem þessir menn hafa með höndum, og sumu því þýðingarmesta, er ekki hægt að skýra opinberlega frá, þá leyfi jeg mjer að fullyrða, að reynsla sje fengin fyrir því, að embættið hafi orðið að mjög miklu gagni. Og að reynslan af þessu starfi sje orðin sú, að ekki komi til nokkurra mála að leggja það niður

Ef vjer lítum til annara þjóða, þá er það fje, sem þær verja til sinna utanríkismála, afarmikið, og þar sem það er vitanlegt, að mál þau, sem vjer eigum að sækja út á við, eru afarmörg og þýðingarmikil fyrir þjóðina, þá verð jeg að segja það, að þó þessi maður hefði aðeins veitt eitt einasta gott liðsinni í þeim málum, þá hefði hann margborgað laun sin. Við erum altaf að gera samninga við útlönd, og jeg vil benda hv. deild á, að það er beinlínis nauðsynlegt fyrir stjórnina að hafa menn, sem skyn bera á þessi störf, sjer við hönd. Jeg get í þessu sambandi tekið fram, að jeg hefi í minni stjórnartíð ekki fundið annað en danski utanríkisráðherrann hafi borið mál vor mjög fyrir brjósti sjer, og á hann þakkir fyrir það, en þó svo hafi verið, þá nær það engri átt, að vjer höfum ekki full afskifti af þessum málum, þar sem það er á voru valdi, hvað í þeim er gert.

Jeg skal segja það hreint og beint, að mig tók það sárt að sjá, að frsm. þessa máls (JÞ) skyldi einmitt vera formaður Íhaldsflokksins, sá, sem flestir búast við, að taki við stjórn landsins. Mjer þykir afstaða hans til þessa máls afarill, því mjer virðist hún sýna ákaflega lítinn skilning á þýðing utanríkismála.

Jeg hefi nú aðvarað hið háa Alþingi. Jeg hefi bent á vora eigin reynslu. Og jeg hefi sýnt fram á, að allar aðrar þjóðir skapa þessum málum öndvegissess og verja ærnu fje til þeirra. En erum vjer þá svo smáir, að vjer eigum ekki ráð á einum sendiherralaunum? Eða, með öðrum orðum: höfum vjer ráð á að spara þetta fje og þau afskifti, sem vjer, í gegnum þetta embætti, getum haft á skipun þessara mála vorra?