06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í C-deild Alþingistíðinda. (2474)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Björn Líndal:

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) gaf mjer tilefni til að taka til máls. Mjer skildist hann gera ráð fyrir, að mál þetta hafi verið gert að flokksmáli í Íhaldsflokknum. Jeg vil taka það fram, að svo er alls ekki. Það hefir komið til umræðu á flokksfundi, og hygg jeg, að skoðanir flokksmanna á þessu máli sjeu mjög skiftar. Jeg vil því leyfa mjer að gera stutta grein fyrir afstöðu minni til málsins.

Málið hefir nú verið rætt frá ýmsum hliðum, en jeg vil vekja athygli manna á einni hlið þess, sem mjög miklu skiftir, í mínum augum, en það er, hvort það sje vansalaust fyrir heiður og virðingu þjóðarinnar, að þetta embætti sje lagt niður. Mjer virðist þjóðin hafa reynt á síðustu árum að sýnast meira en hún var. Það er eins og hið nýfengna sjálfstæði hafi stigið mönnum til höfuðs. Vjer gátum ekki lengur sótt mentun vora til erlends háskóla, sem mentamenn vorir um margar aldir höfðu stundað nám við. Vjer gátum ekki lengur hlítt við þann dómstól, sem reynst hafði oss rjettlátur æðsti dómstóll um margar aldir. Vjer höfum reynt að sýnast meira en vjer erum, en nú virðast þau straumhvörf vera orðin, að vjer viljum sýnast minni en vjer erum. En jeg vil, að vjer sýnumst það sem vjer erum, hvorki meira nje minna.

Sú upphæð, sem talið er, að hjer muni sparast, er svo lítil, að mjer finst vjer gera oss hlægilega með því að leggja niður sendiherraembættið fyrir einar 20 þús. kr. Það er ekki vegna þess, að jeg hafi frá upphafi verið fylgjandi stofnun þessa embættis. Því fer fjarri. Mjer fanst embættið einn liður í þeirri mikilmenskukeðju, sem þjóðin var að reyna að skreyta sig með. En þar sem embættið var stofnað og hefir vakið athygli á þjóðinni, tel jeg varhugavert að leggja það niður, ekki síst, þegar ekki meiri sparnaður er í aðra hönd. Þessa sömu upphæð mætti spara með því að segja upp 2 meir en óþörfum starfsmönnum við áfengisverslun ríkisins eða landsverslunina.

Því hefir verið fleygt, að núverandi sendiherra væri í þann veginn að sækja um lausn frá embætti. Ef menn vildu spara embættislaun hans, væri auðsætt að gera það á þann hátt, að veita embættið ekki aftur fyr en vjer þykjumst hafa vel hæfan mann í það. En ef vjer tökum embættið af manninum, komumst vjer ekki hjá því að veita honum eftirlaun, sem ekki kæmi til, ef hann bæði um lausn af sjálfsdáðum.

Afstaða mín er því í stuttu máli þessi, að jeg tel þennan sparnað ekki svo mikinn, að vjer getum gert, oss hlægilega fyrir hann; þó að einstakir menn geti gert sig hlægilega fyrir 5 eða 10 þús. kr., getur íslenska þjóðin ekki gert það fyrir 20 þúsundir.