06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Forsætisráðherra (SE):

Jeg get vel skilið það, að hv. þm. Str. (TrÞ) sje í góðu skapi, enda fer sólskinsbrosið ekki af andliti hans. Hann hefir jafnan barist gegn sendiherraembættinu, og hefir nú fengið glæsilegan stuðning. Má telja þetta einn af „Tímans“ stóru sigrum, og sýnir, hvað sterk blöð mega sín mikils.

Það er ómótmælanlegt, að aðstaða vor út á við veikist að stórum mun, ef embættið verður lagt niður. Jeg á ekki aðeins við álitsrýrnunina, sem því fylgir, heldur ekki síður við það, að örðugra verður fyrir oss að fylgjast með á öllum sviðum, þegar þessum persónulega millilið er kipt burt.

Hv. þm. Str. (TrÞ) hjelt að jeg sæi einhverjar sýnir, sökum þeirra stóru viðburða, sem væru að gerast. En jeg get sagt honum, að jeg hefi sjeð þær áður. Jeg hefi altaf verið þeirrar skoðunar, að þetta mál væri eitt af okkar stóru sjálfstæðismálum og jeg er sannfærður um, að ekki líður á löngu, að hv. þm. (TrÞ) skilur þessar sýnir.