06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Forsætisráðherra (SE):

Mjer er óskiljanlegt, hvað mörgum virðist ganga treglega að koma auga á það, að það er að öllu leyti mjög óheppilegt og óviðfeldið, að æðsti maður sendisveitar starfi undir þeim manni, sem hann á að semja við. Við hinu er ekkert að segja, að hann sje gerður að chargé d’affaires í bili, en sem ráðstöfun til frambúðar er það alveg óvenjulegt og, í einu orði sagt, ófært.

Mjer virtist hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) gefa flokksbróður sínum, hv. þm. Ak. áminningu, vegna þess, að hans hugarfar væri öðruvísi en það ætti að vera, en sá hv. þm. (BL) lagðist á móti afnámi sendiherraembættisins. Satt að segja bjóst jeg aldrei við öðru úr þeirri átt. Hitt þótti mjer leiðinlegra, að mjer skildist svo sem hv. þm. (BL) væri að amast við því, að hæstirjettur væri fluttur heim. Jeg er fyrir mitt leyti í engum vafa um það, að sú ráðstöfun hafi verið sjálfsögð og hin giftusamlegasta fyrir land vort.

Þá hefir hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) gert dauðastundir stjórnarinnar að umtalsefni. Til þess bjóst jeg ekki við að kæmi, svo mikla hugprýði sem jeg hjelt að jeg hefði sýnt í því dauðastríði. En þetta vil jeg segja við hv. 1. þm. Reykv. (JÞ): Sá, sem stendur, gæti sín, að hann ekki falli! Og þó jeg sje nú á dauðastundinni í þessum stól, þá vona jeg, að hv. þm. verði þess varir, að jeg lifi áfram í þingsölunum.