23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

1. mál, fjárlög 1925

Jónas Jónsson:

Jeg verð að leyfa mjer að segja hjer nokkur orð, og ætla jeg þá fyrst að snúa mjer að hv. þm. Vestm. (JJós).

Hann flytur hjer brtt. um að eyða 10 þús. kr. til erindrekstrar í Miðjarðarhafslöndunum. Jeg er háttv. þm. sammála í ýmsum aðalatriðum þessu viðvíkjandi, og mundi hafa stutt þessa brtt. hans, ef líkur væru fyrir því, að gagn yrði að slíkri fjárveitingu. En svo er ekki. Jeg vil líka benda á það, að þessi upphæð er að áliti kunnugra manna of lítil, ef hún á að koma að notum, því viðfangsefnin eru mikil. En upphæðin er samt of stór til þess að kasta henni út fyrir ekki neitt. Þeir menn, sem hafa fisksöluna á hendi hjer á landi, velta stærri fjárhæðum en aðrir landsmenn. Þeir ættu sjálfir að geta kostað erindrekstur í Suðurlöndum. En reynslan sýnir, að fisksalan fer ár eftir ár í handaskolum hjá þessum mönnum, af því að þeir standa á svo lágu menningarstigi, að ekki sýnist hyggilegt að eyða miklu fje þeirra vegna. Dæmin eru deginum ljósari um framferði þessara manna á undanförnum árum og hver áhrif fjármálastefna þeirra hefir haft á þjóðarbúskapinn.

Árið 1920 voru veittar 20000 kr. til sendimanns til Genúa. Í þá stöðu var valinn maður að nafni Gunnar Egilson. Sá maður hafði mjög lítið fengist við slík mál. Hann var ekki alinn upp í starfinu og mun hafa haft miklu minni þekkingu á því en t. d. hv. þm. Vestm., sem mun vera óvenjulega vel kunnugur fisksölu. Þessi maður sat nokkuð lengi í Genúa, en þau mistök urðu við þessa sendiför, að hann fjekk aldrei sitt erindisbrjef. Hann taldi sig hafa fengið loforð um erindisbrjef sem sendimaður frá þáverandi stjórn (Jóns Magnússonar), en stjórnin hafði brigðað það loforð. Þegar hann fór hjeðan, fjekk hann loforð um að fá erindisbrjefið í Kaupmannahöfn, og síðar fjekk hann loforð um, að hann skyldi fá það í Hamborg, og svo koll af kolli á leiðinni suður á bóginn, en aldrei fjekk hann brjefið, og förin varð því til lítils eða einskis.

Hver getur nú sagt um, hvort gagn yrði að þessari fjárveitingu nú? Það er sami forsætisráðherra nú og þá var, og sami maður mun ætlaður til fararinnar. Og hver getur búist við, að það sje til nokkurs að kasta fje í sömu mennina og eyddu fyrir nokkrum missirum 40–50 þús. kr. til einskis?

Jeg krefst þess að fá nú að vita, hvers vegna Gunnar Egilson fjekk ekki erindisbrjef. Og jeg krefst þess ennfremur að fá að vita, hvort það sje rjett, að það liggi í stjórnarráðinu hreint kærubrjef frá sendimanninum yfir þessari meðferð, og ef svo er, þá finst mjer rjett, að þingmenn fengju að sjá það. Jeg vona, að hæstvirtur forsætisráðherra, sem þá sat að völdum og sem er við völd einnig nú, skýri frá þessu.

En til hvers er að senda mann suður í lönd fyrir fiskkaupmenn, sem standa á svo lágu menningarstigi, að þeir hafa ekki haft mannrænu í sjer til þess einu sinni að læra spönsku, svo þeir væru færari um að komast í samband við þá þjóð, sem kaupir langmest af fiski vorum, og kynna sjer markaðshorfur þar. Og þeir hafa heldur ekki haft framtakssemi til þess að setja upp eina einustu skrifstofu á Spáni til að annast söluna. En sömu menn hanga oft mánuðum saman í Kaupmannahöfn til þess að versla við danska fiskkaupmenn, sem græða stórfje á því að vera milliliðir milli þeirra og Spánverja. En þessir sömu menn verja engu til þess að setja sig í samband við fiskkaupmennina á Spáni, þótt eðlilegast væri, að þeir hefðu sjálfir sendimenn þar syðra, eins og norskir fiskkaupmenn. Norðmenn hafa kjark til þess að fara suður á Spán til þess að kynna sjer markaðshorfur þar. Þeir eru þar með nefið niðri í öllu og kynna sjer alt, sem lýtur að starfi þeirra, og þess vegna gengur þeim betur fisksalan. Eðlileg leið hefði verið, að fiskkaupmenn hefðu haft fjelagsskap með sjer um slíkan erindrekstur. Þannig fara samvinnubændur að. Þeir hafa skrifstofur bæði í Englandi og Danmörku og selja þar sjálfir afurðir sínar, og fara ekki fram á neinn styrk úr ríkissjóði til þess. En þetta geta fiskkaupmennirnir íslensku ekki, af því að þeir eru ekki nógu þroskaðir til þess.

Á árunum 1920–1921, þegar sendimaður var hafður í Miðjarðarhafslöndunum til þess að greiða fyrir fisksölunni, þá hefði mátt búast við því, að fiskkaupmenn mundu hafa vit á að nota hann og hefðu snúið sjer til hans viðvíkjandi fisksölu þar syðra. En það var ekki því að heilsa. Þeir trúðu honum ekki. Þeir sögðu, að hann væri í venslum við tvö togarafjelög hjer í bæ, og því gætu aðrir ekki treyst honum. Svona er það ætíð með fiskkaupmenn hjer og útgerðarmenn. Þeir tortryggja hver annan. Þeir kunna ekki að vinna hver út af fyrir sig og þeir kunna ekki að vinna saman, og þegar landið ætlar að hjálpa þeim og lætur þeim í tje mann, þá þora þeir ekki að nota hann. Svo tortryggir eru þeir og lítt þroskaðir í starfi sínu. Og þegar skipuð var hjer útflutningsnefnd 1918, sem í voru 2 fiskkaupmenn, Thor Jensen og Ólafur Benjamínsson, þá gerðu útgerðarmenn sig svo digra að setja nefnd til þess að hafa „kontrol“ með útflutningsnefndinni, sökum þess að þeir tortrygðu hana. Svo tortryggir eru þeir, að þeir þora ekki að hafa neitt skipulag á sölunni. Það hefir verið rætt um að undirlagi Landsbankans, hvort ekki mundi mögulegt að mynda frjáls samtök meðal fiskútflytjenda til þess að koma skipulagi á fisksöluna. En þeir þora ekki að hafa fjelagsskap. Þeir trúa ekki hver öðrum og þeir játa það sjálfir.

Jeg vona því, að hv. þm. sjái, að á meðan íslenskir fiskkaupmenn standa á svona lágu stigi, að þeir hafa einu sinni ekki mannrænu í sjer til þess að mynda hring og kunna alls ekki að vinna saman, þá sje ekki til mikils fyrir mikið að verja fje til þess að reyna að hjálpa þeim. Þegar þeir eru búnir að sýna, að þeir kunni að vinna saman og að þeir sjeu yfirleitt starfi sínu vaxnir, þá vil jeg gjarnan vera með að veita þrefalda þessa upphæð, eða þó meira væri, til þess að greiða fyrir fisksölunni.

En við skulum nú athuga nokkuð nánar, hvernig ástandið er nú hjá fiskkaupmönnunum. Það er þannig, að þeir eru flestir háðir einum Englendingi, manni, sem ekki er hægt að segja, að hafi farið neitt sjerlega vel með fje það, sem hann hefir fengið til meðferðar hjer, eða gefið mikla ástæðu til að ætla, að honum væri trúandi fyrir stærra pundi. Yfirleitt má segja, að öll fisksalan sje í hinni mestu óreiðu, og þetta lagast ekki fyr en íslenskir fiskkaupmenn sjá, að þeir verða að standa saman. Ef samþykt væri þáltill. hv. 2. þm. S.-M. (TP) um skipulag á sölu sjávarafurða, þá mætti kippa þessu í lag. Það væri ekki mikið fyrir ríkið að hafa skrifstofu, eina eða fleiri, suður á Spáni, ef lag væri á þessum málum, og mætti vænta þess, að gagn yrði að því. Og jeg vona, að háttv. þm. sjái, að eina ráðið er að leggja ekki of mikið í hendur fisksalanna, eins og þeir eru nú, — gera þá að vissu leyti ómynduga um söluna, svo þjóðin bíði ekki óbætanlegt tjón af fáfræði þeirra. Jeg vona eftir þessa skýringu, að hv. þm. taki það ekki illa upp fyrir mjer, þótt jeg geti ekki greitt atkvæði með þessari brtt. Jeg vil gera alt til þess að fiskurinn seljist sem best, en jeg get ekki sjeð, að nokkurt gagn geti orðið að þessari fjárveitingu með því fyrirkomulagi, sem nú er á fisksölunni.

Jeg vil svo nota tækifærið til þess að biðja hæstv. forsrh. að gefa skýringu á því, hvernig á því stóð, að ekki var skipaður fastur ræðismaður í Genúa á árunum 1920–21, og hvað var því til fyrirstöðu, að hann fengi sitt erindisbrjef.

Háttv. þm. Vestm. benti á, að bankarnir hefðu beðið um þessa fjárveitingu. Jeg skal þó taka það fram, að þingið hefir ekki gert alt, sem bankarnir hafa beðið um. Bankarnir báðu t. d. báðir um innflutningshöft og það kom fram í háttv. Nd. frv. um innflutningshöft á nokkrum vörutegundum, en það var drepið þar með rökstuddri dagskrá frá stjórnarflokknum, og þar með var innflutningshöftunum komið fyrir kattarnef. (Fjrh. JÞ: Þetta er ekki rjett). Þingtíðindin og bókun Nd. sýna, að þetta er rjett.

Þá mintist hæstv. fjrh. á hafskipabryggjuna á Ísafirði og mælti á móti þeirri brtt., en hann hrakti alls ekki það, sem jeg hefi haldið fram, að till. eykur ekki útgjöld landssjóðs raunverulega. Enda barðist einn af stuðningsmönnum hæstv. fjrh. fyrir þessu máli í Nd.

Þá hefir hæstv. fjrh. mælt á móti brtt. mentmn. um að láta prófessor Sigurð Nordal fá styrk til ritstarfa. Jeg get vel skilið það, þó slíkt kæmi fram hjá hæstv. fjrh., því hann lagði mikla áherslu á það fyrir kosningarnar í haust, að hann vildi leggja heimspekisdeildina við háskólann niður, og á þinginu hefir hann viljað færa hana til og setja hana í samband við aðra deild, svo það er skiljanlegt, að hann sje á móti þessu og öðru, sem miðar að því að tryggja líf í þessari deild háskólans. Það hefir líka heyrst, að það hafi verið gert að flokksmáli í Íhaldsflokknum að koma þessu máli þannig fyrir, að engin kensla yrði í íslenskum fræðum, sem prófessor Sigurður Nordal kennir nú. Vel má vera, að þeir erlendu mangarar, sem styðja stjórnina með blaði sínu, vilji íslenskuna feiga. Og ef svo er, þá er skiljanlegt, að hæstv. fjrh. beitir sjer gegn því, að kensla verði framvegis í móðurmálinu við háskólann.

Sökum þess að þessi mótmæli hafa komið fram frá hæstv. fjrh., get jeg ekki látið vera að fara nokkrum orðum um þetta mál frá almennu sjónarmiði.

Í vetur varð það kunnugt meðal manna hjer í bænum, að háskólinn í Kristjaníu hefði boðið Sigurði Nordal prófessorsembætti með mjög góðum launakjörum, og var talið líklegt, að hann mundi þiggja það. Þá var það að ýmsir menn, sem hafa áhuga fyrir íslenskum fræðum, ljetu þá skoðun sína í ljósi við stjórnina, að þeir álitu það mikið tap fyrir menninguna í landinu, ef prófessor Nordal færi burt.

Þá mun kenslumálaráðherrann hafa snúið sjer til prófessors Sigurðar Nordals og spurt hann um, hvort hann mundi ekki fáanlegur til þess að vera kyr hjer við háskólann. Prófessorinn mun hafa gefið það svar, að það væri erfitt fyrir sig, því hann hefði ekki þau launakjör, að hann gæti starfað að rannsóknum sínum eins og hann þyrfti og vildi, en kvaðst hins vegar gjarnan vilja vera kyr. Það væri því eingöngu vegna hinna óhagstæðu ytri skilyrða, að hann ætlaði sjer að fara.

Síðan hefir verið mikið rætt um þetta, og í Nd. kom fram þáltill. um, að stjórnin skyldi semja við prófessor Nordal um að vera hjer áfram við háskólann. En þá leit hæstv. forsrh. svo á, að hann gæti ekki gert neinn samning samkvæmt þál.-till., því að fjrh. liti svo á, að hann væri ekki skyldugur til að greiða neitt samkvæmt slíkum samningi.

Stúdentar skrifuðu til þingsins brjef, þar sem þeir fóru mjög eindregið fram á það, að þingið sæi um það, að Nordal yrði kyr hjer við háskólann. Og við, sem erum í mentmn., höfum gerst svo djörf að bera fram brtt. þá, sem hjer liggur fyrir.

Mjer skildist á einum hv. þm. í Nd., sem líka er starfsmaður við háskólann, að hann og margir kennarar þar yrðu að sinna allskonar aukavinnu til að geta lifað. Þessi sami maður hafði vísindastyrk fyrir fáum árum; þingið leit þá svo á, að vert væri að losa þennan fræðimann frá matarstriti, svo hann gæti unnið á sínu sviði. Og jeg veit ekki betur en að hæstv. stjórn hafi greitt atkv. með styrk til eins af dósentunum við háskólann til að vinna að þýðingu á erlendu skáldriti. Sá styrkur er uppbót á launum. Jeg segi þetta af því að mjer skildist á hæstv. fjrh., að það væri einhver ósvinna að fara fram á launauppbót handa nafnkendum fræðimanni, sem er einn af starfsmönnum háskólans. Vitaskuld eru rithöfundalaun af þessu tægi ekki annað en einskonar uppbót. Allir, sem til þekkja, vita, að prófessorar í sumum greinum við háskólann hafa miklar aukatekjur, t. d. læknar. Læknir við háskólann, sem væri í jafnmiklu áliti í læknisfræði og Sigurður Nordal er í málfræði, mundi hafa stórkostlega „praksis“, líklega svo skifti tugum þúsunda á ári. Lögfræðingur eins og Einar Arnórsson hlýtur að hafa miklar aukatekjur fyrir störf sín sem lögfræðingur. En þegar kemur að íslenskri sögu og málfræði, er ómögulegt fyrir fræðimenn okkar að snúa vísindum sínum í peninga. Nýlega er komin út sagnfræðibók eftir Pál Eggert Ólason, feiknaverk, og bregður skörpu ljósi yfir íslenska sögu, — er sem ótæmandi brunnur fyrir lestrarfúsa menn og alla þá, sem stunda íslenska sagnfræði,

En slík bók gefur höf. engar aukatekjur. Það er meira að segja ómögulegt að láta útgáfu slíkrar bókar bera sig. Hvernig hefði farið, ef höf. hefði orðið að sinna tímakenslu til að draga fram lífið? Í raun og veru er það alrangt að bera saman aðstöðu málfræðings og sagnfræðings við aðra vísindamenn við háskólann, eins og lögfræðinga og lækna, sem geta haft stórmikil aukalaun í viðbót við embættistekjurnar.

Hvað ætli hæstv. fjrh. þekki marga starfsmenn íslenska, kennara, presta, lækna eða aðra, sem útlendar þjóðir bjóða til sín með vildarkjörum til þess að taka þátt í vísindastarfsemi hjá þeim? Jeg veit ekki um neinn annan en Sigurð Nordal. Að vísu eigum við marga mjög góða embættismenn og fræðimenn. En það eru fáir, sem tekst það að lyfta sjer svo hátt yfir fjöldann með gáfum og þekkingu, lyfta sjer upp yfir þá einangrun, sem þjóðin skapar, svo að erlendar þjóðir gefi því gaum. Til þess þarf Íslendingur að hafa mikla yfirburði. Slíkt álit annara þjóða á íslenskum vísindamanni er einsdæmi. Þetta er höfuðröksemdin á móti hæstv. fjrh. Nálega enginn af okkur hinum er eftirsótt útflutningsvara. Engin útlend þjóð hefir kept um okkur hæstv. fjrh., að báðum ólöstuðum, og svo er um flesta.

Jeg vil minna á tvö dæmi, sem brjóta í bága við sparsemina í þessari hv. deild. í fyrra átti jeg þátt í, að skáldinu Einari Kvaran var veitt launauppbót. Háttv. deild sýndi þá, að hún skildi, að það er óhæfa að halda ágætt skáld á 3000 kr. launum, en hafa svo heilan hóp ljelegra starfsmanna á miklu hærri launum. Fyrir fáum dögum bárum við hv. þm. Vestm. (JJós) fram tillögu um að veita einum af okkar mestu gáfumönnum, dr. Helga Pjeturss, launauppbót. Af sömu ástæðum vil jeg leggja með því að sleppa ekki núverandi prófessor í íslensku burt úr landi. Jeg vil gera afbragðsmönnum okkar það fært að starfa í landinu, en skera niður liðljettingana.

Jeg vil taka það fram, af því að það er ef til vill orðið flokksmál að flæma íslenskuprófessorinn úr landi og sumir munu halda, að við, sem erum á móti því, höfum gert það að flokksmáli okkar megin, en svo er ekki. Jeg býst við, að þessir þrír menn, Einar Kvaran, dr. Helgi Pjeturss og Sigurður Nordal, sjeu allir annaðhvort ópólitískir eða í andstöðu við Framsóknarflokkinn, að því leyti sem kemur til þátttöku í opinberum málum. Frá mínu sjónarmiði skiftir engu um stjórnmálaskoðanir slíkra manna. Víngarður þeirra er í listum og vísindum, en ekki í stjórnmálabaráttunni. — Jeg leyfi mjer að gera þær kröfur til háttv. þm., að þeir blandi ekki pólitík inn í þessi mál.

Það hefir verið af ýmsum mönnum og blöðum hnýtt í mig fyrir að vera „jafnaðarmaður“. Flokksbræður mínir virðast ekki bera neinar brigður á, að jeg fylgi þeim að málum. En svo mikið er víst, að jeg er ekki sá jafnaðarmaður, að jeg vilji ekki gera mun á kaupi manna eftir dugnaði og hæfileikum. Jeg vil, að þeim afbragðsmönnum, sem okkar þjóð stendur mikill sómi af, sje borgað meira en meðalmönnum.

Jeg vildi óska, að hæstv. fjrh. væri það nálægt, að hann heyrði mál mitt. Íhaldsstjórnin og stuðningslið hennar þarf ekki að hræðast að heyra nefndar 10 þús. kr. handa merkum vísindamanni. Hæstv. forsrh. hefir skipað bankastjóra við Íslandsbanka með 20000 kr. launum, en í viðbót önnur 20 þús. kr. í dýrtíðaruppbót. Undirgjaldkeri Landsbankans, sem enga sjerþekkingu hefir, fær kringum 10 þús. kr. Forstjóri áfengisverslunar ríkisins hefir 18000 kr. laun. Eftir því, sem mjer er kunnugt, hafa bæjarfógeti og lögreglustjóri ekki lakari laun en meðalbankastjóri, eða um 25 þús. kr. Þannig eru nóg dæmi til, að sjerstaklega duglegum mönnum í vandasömum stöðum eru borguð óvenjuleg laun.

Hæstv. forsrh. her fram till. hjer í dag um að halda við háskólann manni, sem hefir verið í fjárlögum nokkur ár, eftir að hv. Nd. var búin að fella liðinn niður. Jeg get vel skilið, að hæstv. forsrh. vilji ekki sem kenslumálaráðherra láta rýja háskólann starfskriftum. En að þessum manni alveg ólöstuðum verða menn að játa, að það er ekki sambærilegt, hvað mikill skaði yrði að því, vísindalega og bókmentalega, þótt hann flytti burt, eins og hinn fyrnefndi. Jeg vil þá spyrja hæstv. forsrh., hvort það er rjett, sem heyrst hefir, að það sje flokksmál í Íhaldsflokknum að styðja að brottför prófessorsins; ennfremur hvað hæstv. forsrh. hugsar sjer gagnvart háskólanum og hvort við í mentmn. megum ekki vænta stuðnings hans og hann sje okkur frekar þakklátur fyrir að vilja halda við svo virðulegri stofnun, sem stendur undir hans stjórn. Alment er litið svo á, og það líklega með rjettu, að fari próf. Sigurður Nordal hjeðan, höfum við engan til að skipa hans sæti um óákveðinn tíma. Nokkrir stúdentar í norrænudeild háskólans vita þá ekki, hvað þeir eiga að gera. Álít jeg því ekki ósanngjarnt, að við í mentmn. fáum skýringu hjá hæstv. forsrh., sem málið heyrir undir, hvað hann hugsar sjer að gera; hvort hann álítur það borga sig að leggja niður íslenskukenslu við háskóla hins „fullvalda ríkis“. En vitanlega byggist fullveldi okkar fyrst og fremst á íslenskri tungu; það er fyrsta einkenni fyrir okkar þjóð, og þjóðernið hefir vakið rjettinn til sjálfstæðis.

Þá vil jeg víkja að því, sem háttv. 1. landsk. (SE) tók fram svo skarplega. Það eru ekki prófessorar og stúdentar ein göngu, heldur fólkið úti um landið, sem les bækur og hugsar nokkuð, sem vill alls ekki missa prófessor Sigurð Nordal og metu starfsemi hans og embætti miklu þýðingarmeira en ýms þau, sem þingið hefir verið að skapa öðruhvoru. Jeg vil skjóta því til hæstv. fjrh., að jeg man ekki betur en að hann á síðasta þingi mælti fram með að stofna embætti til eftirlits með bönkum og sparisjóðum, sem nú er launað með 16000 kr. Jeg veit, að þegar hæstv. fjrh. athugar þetta, mun hann sjá, að hann hefir verið á þessari braut, að borga vandasömustu embættin svo, að hægt væri að skipa þau úrvalsmönnum.

Hvers vegna vill fólkið fyrir engan mun missa þennan mann? Af því að í bókum hans, ræðum og greinum finnur það yl og ljós, sem það kann að meta, en sem það þykist ekki verða vart við nema hjá sárfáum öðrum. Það má vel vera, að ólærðir menn úti um landið hafi þroskaðri og fágaðri smekk fyrir bókmentir heldur en verkfræðingar, eins og t. d. hæstv. fjrh. Þau ritverk metur fólk mest, og það með rjettu, sem eru þess eðlis, að vísindamenn hjer og erlendis og greindir alþýðumenn úti um landið vilja lesa þau og eru hrifnir af. Þeir höfundar eru mestir, sem tala í einu svo, að bæði vitringar og greindir menn lítt skólagengnir dást að sameiginlega. Þannig eru bækur próf. Sigurðar Nordals. En jeg þykist vita, að þó að hæstv. fjrh. sje ekki mjög gefinn fyrir bókmentir, hafi hann þó heyrt getið um Carlyle eða Ruskin og viti, hvað slíkir höfundar hafa að þýða fyrir sína þjóð. En á borð við þá er óhætt að meta próf. Nordal fyrir þessa þjóð.

Þá eru nokkur orð út af aðalmótbáru hæstv. fjrh., sem sje að hann bjóst við, að aðrir embættismenn kæmu á eftir með uppbótarkröfur. Skyldi hann ekki muna, hvernig fór 1919? Þá kom embættismannastjettin nálega öll „organiseruð“, heimtaði sín laun og fór allgeyst. Fletti maður upp í umr. t. d. ræðu frsm. launanefndar, núv. þm. V.-Húnv., sjer maður glögt, að þingið hefir verið kúgað til að hækka launin. Það er viðurkent, hvað átti að gera í launamálinu, þó ekkert hraun hefði runnið niður af Hjalla í Ölfusi þá. Verkfallshótun vofði yfir og þingið ljet kúgast. Við fáum launakröfur á næsta þingi án tillits til þess, hvernig við höfum gert við þennan eina mann, sem tvær þjóðir keppa um. Hæstv. fjrh. þarf ekki að óttast, að það verði margir slíkir, svo hann getur verið rólegur með sinn sjóð vegna þess. Jeg býst að minsta kosti ekki við, að gert verði stórt fjárboð í okkur hæstv. fjrh., hversu sem okkur kann að líða hjer.

Viðvíkjandi því, að ekki sje hægt að halda starfsmönnum með svona launauppbót, vil jeg minna hæstv. fjrh. á atriði, sem gæti orðið honum að gagni í sinni stöðu að athuga. Í mörg ár hefir póstmeistarinn hjer í Reykjavík haft 4 þúsund krónur á ári fram yfir hin lögmæltu embættislaun sín. Þetta hefir verið látið óátalið, en öllum er það kunnugt. Jeg álít, að hæstv. fjármálaráðherra ætti að reyna að spara á þessum stað. Þarna er ilt fordæmi. Staða póstmeistara er ekki svo vandasöm. Margir mundu vera færir um að gegna henni og fúsir til þess fyrir venjuleg laun.

Þá sagði hæstv. fjrh., að fornbókmentir okkar væru dýrasti þjóðarauðurinn. Þar er jeg honum sammála. En heldur þá hæstv. ráðherra, að það hefði borgað sig fyrir þjóðina að svelta svo höfunda fornbókmentanna, að þeir hefðu þurft að hröklast af landi burt, mennina, sem skrifað hafa hin ódauðlegu verk? Jeg held ekki.

Það er einmitt þetta, sem Sigurður Nordal er svo dýrmætur fyrir. Hann er frumlegur rithöfundur, sem áreiðanlega á eftir að auðga bókmentir okkar enn meir en hann þegar hefir gert með ágætum verkum.

Alveg á sama hátt og hæstv. fjrh. starfar að því að auka grasið í Flóanum, eins er hjer verið að reyna að auka hinn andlega gróður í landinu.

Jeg vænti því, að hæstv. fjrh. sjái, að það, sem mentamálanefndin er að gera hjer með tillögu sinni, er hliðstætt því, sem hann er að starfa að í Flóanum, aðeins flutt yfir á andlega sviðið; og eins og hann hefir trú á því, að þau störf hans verði til þess að efla grasræktina í Flóanum og jafnframt hina tímanlegu auðlegð Flóamanna, eins hefir mentamálanefndin óbifanlega trú á því, að tillaga hennar, með því að halda prófessor Sigurði Nordal heima, verði til þess að efla hina andlegu auðlegð þjóðarinnar í heild sinni, og jafnframt, að það síðar meir verði talið eitt hið besta verk, sem unnið hafi verið í þágu íslenskra bókmenta. Og má í þessu sambandi minna á hina fornu Grikki, sem annaðhvort gerðu við sína bestu menn að drepa þá á eitri eða reka þá í útlegð. Þessi fornfræga og gáfaða þjóð hafði nefnilega þann skaplöst, að kunna ekki að meta sína ágætustu menn fyr en þeir voru fallnir frá. Hjer er svipað að eiga sjer stað; það er verið að velta því fyrir sjer, hvort borga eigi öðrum eins ágætismanni og Sigurði Nordal ritlaun, sem svara 1/3 af launum eins undirbankagjaldkera eða 1/13 af launum eins bankastjóra, sem nú gerir ekkert annað en skemta sjer erlendis.

Þá var hæstv. fjrh. að mæla með núverandi stjórn sem sjerstaklega hæfri til þess að stöðva hinn stöðuga tekjuhalla, sem hefir verið á rekstri þjóðarbúsins nú undanfarin ár. En hann gætti þess ekki, að sá, sem er höfuð þessarar stjórnar, var og höfuð þeirrar stjórnar, er sat að völdum, er tekjuhallinn byrjaði að myndast. Þeirrar sömu stjórnar, sem bjó út fjárlögin fyrir 1920 og 1921. Jeg er því alveg hissa á, að hæstv. ráðherra skuli geta talað svo digurbarkalega og hreykt sjer svona hátt. Það er alveg eins hjákátlegt og agnarlítið drengkríli, sem tæplega stæði út úr hnefa, hreykti sjer upp á hundaþúfu og segðist vera stór og mikill maður, stærri og sterkari en Sigurjón Pjetursson. Þetta er þvert ofan í allan veruleika. Hallinn á fjárlögunum 1922 varð til undir stjórn hæstv. núverandi forsrh. (JM) og samverkamanns hans, núverandi atvinnumálaráðherra (MG). Þeir ljetu viðgangast, að fjárlög væru samþykt með 2 milj. kr. tekjuhalla og í þeirra stjórnartíð sköpuðust hinir miklu fjárhagslegu örðugleikar, og skal jeg nefna 4 atriði, sem skýra þetta hrun. Er þá fyrst, að innflutningshöftin voru rifin niður á þinginu 1921, og ber enginn meiri ábyrgð á því en núverandi fjrh. Hann gerði mest að því að koma þeim fyrir kattarnef. Hann var þá í fararbroddi kaupmanna, og reif því niður þá byrjun, sem núverandi samverkamenn hans höfðu verið með til að reisa og telja má hinn eina ljósgeisla í stjórnarferli þeirra, því að þar voru þeir óneitanlega komnir á rjetta leið. Og þegar búið var að reka þá út af þessari rjettu braut af kaupmönnum og braskaralýð, með núverandi hæstv. fjrh. í broddi fylkingar, misti þáverandi stjórn við þessar aðfarir fylgi allra þeirra, sem báru fyrst fyrir brjósti velferð þjóðarinnar. Það voru kaupmenn, sem eyðilögðu höftin 1921, einungis kaupmenn og braskarar; þeir þurftu að græða, þótt eyðslan feldi krónuna og setti ríkið á vonarvöl. Þeir höfðu þá sömu slagorðin eins og hæstv. fjrh. hefir nú. Þeir sögðu: Það má ekki banna innflutning frekar en svo, að við getum fengið nægilegar tekjur og nægileg laun.

Jeg er nú hræddur um, að hæstv. fjrh. standi á Dettifossbrúninni og honum geti orðið hún býsna hál, því að ennþá styðst hann við þá menn, sem áður rifu niður innflutningshöftin og hröktu núverandi samverkamenn hans út af rjettri leið.

Þetta eitt út af fyrir sig býst jeg við, að sje stærra atriði fyrir fjárhag landsins en þótt láta eigi einn ágætismann fá 3000 kr. ritlaun, til þess að hann geti lifað og starfað fyrir þjóð sína.

Þá er annað atriðið, þegar þeir menn, sem stóðu að Íslandsbanka, neyddu þáverandi stjórn til að taka enska lánið, sem er hinn dýrasti og versti baggi, sem þjóðinni hefir verið bundinn og sem aldir og óbornir munu súpa hið beiska seyði af. Það skyldi því engan undra, þó að því sje ekki tekið vel, þegar þessir menn, sem sóað hafa fje landsins fyrir hagsmuni nokkurra gæðinga sinna, vilja reka einn okkar mesta andans mann úr landi fyrir smávægilegan sparnað.

Þá er þriðja atriðið, þegar bankastjórarnir báðu um í vetur, að skipuð yrði gjaldeyrisnefnd. En það rak sig á hagsmuni kaupmannastjettarinnar og slagorð þeirra: „Frjálsir menn í frjálsu landi“. Er því búið að láta frumvarpið um nefndarskipun þessa liggja í Nd. í mestallan vetur, síðan þing byrjaði, þrátt fyrir það þó að einn bankastjóranna þykist geta sannað, að fleiri miljónir hafi tapast út úr landinu vegna lággengisins. Og engum er þessi dráttur og eyðing málsins meira að kenna en hæstv. fjrh. Það getur því enginn annað en hlegið að því, þegar þessir menn, sem kæft hafa frv. um gjaldeyrisnefndina og ekkert gert til þess að koma í veg fyrir miljónatap á þessum lið, þykjast af sparnaðarástæðum verða í nafni sparseminnar að drepa íslenskukensluna við háskólann.

Þá er fjórði liður. Þegar hæstv. fjrh. þykist vera að hugsa um hag ríkissjóðs, með því að leyfa innflutning á óþarfa, er hann líklega fremur að hugsa um hag kaupmanna eins og áður. Jeg er ekki í minsta vafa um það. Það hefði mátt segja annað, ef hæstv. fjrh. hefði getað beygt sig undir hinn sterka þjóðarvilja, að gera tilraun til að rjetta gengið við með sterkum innflutningshöftum og gjaldeyrisnefnd. En því fór fjarri. Jeg hefi minst á þetta hjer af því, að hæstv. fjármálaráðherra vill drepa andlega lífið í landinu í nafni eyrishagnaðarins, um leið og hann og hans flokkur hefir sett þjóðina á vonarvöl, kastað miljónum á glæ, sumpart með því, sem þeir hafa gert til tjóns, og sumpart með því, sem þeir hafa látið ógert að gera til gagns.

Jeg vona, að þessi upprifjun verði til þess, að hæstv. fjármálaráðherra gæti framvegis meira hófs, er hann í nafni grútarskaparins vill kefja andlegt líf, og eins í gorti sínu og sjálfhælni um fjármálavisku þá, sem búin er að koma landinu á kaldan klakann.

Jeg vil þá að síðustu beina einni fyrirspurn til hæstv. stjórnar og allra stuðningsmanna hennar. Er hún út af því, sem hinn fyrverandi ritstjóri aðalmálgagns þeirra hefir nýlega upplýst í blaði sínu. (Forseti HSteins: Þetta kemur fjárlögunum ekkert við). Það skal koma fram á sínum tíma. (Forseti HSteins: Jeg víti þingmanninn og leyfi honum alls ekki að fara að ræða þetta mál hjer). Viðkvæmt mun þetta mál stjórninni og fylgifiskum hennar. En það skal koma fram, þótt síðar verði, því að það kemur þjóðinni við, hvort útlendir menn sjeu að leggja undir sig þing og stjórn landsins.