06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í C-deild Alþingistíðinda. (2484)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Magnús Torfason:

Samkvæmt afstöðu minni í þessu máli, þá gladdi það mig stórlega, er þetta frv. kom fram, og jeg verð að segja, að með því frv. get jeg verið. En jeg fæ ekki sjeð, að háttv. allshn. hafi nokkuð bætt um það, nema síður sje. Jeg get ekki sjeð, að það sje nein þörf á því að búa til lög um það, hvað gera eigi á fjárlögunum. Ef þinginu sýnist að setja sjerstakan sendisveitarritara, ef fje er veitt, þá á að setja þetta í fjárlögin. Sje ekki veitt fje til sendiherraritara, þá nær það heldur ekki lengra. Það er því langhreinlegast að afnema embættið alveg, því þá er þingið frjálst um það, hvað það vill gera framvegis. Það sem þó einkanlega í mínum augum gerir það, að mjer finst tillögur háttv. allshn. spilla frv., er það, að með þessu móti er sendiherraembættið gert að þingbitlingi. Það álít jeg alls ekki viðeigandi. Það á ekki að vera hnotabit um það á hverju þingi, hvort embættið skuli standa af náð þingsins frá ári til árs. Annaðhvort á að afnema það alveg eða þá ekki.

Það, sem aðallega kom mjer til þess að standa upp, það voru orð háttv. 1. þm. Skagf. (MG) um það, að sendiherrann mundi líklega segja af sjer á þessu ári. Ef nú þetta er rjett, sem hert var á með því að segja, að honum væri fyrirbúið starf hjer á landi, hversvegna vilja menn þá ekki bíða þangað til að vissa er fengin fyrir því, hvort hann segir af sjer eða ekki. Ætti einmitt frv. þm. Str. (TrÞ) að liggja ósnert þangað til, svo menn gætu þá samþykt það, ef svo sýndist. Jeg vildi taka þetta fram. Og úr því þetta er ekki flokksmál hjá Íhaldsflokknum — en mjer hafði ekki dottið annað í hug en svo væri — þá get jeg ekki betur sjeð en það sje rjettast og hyggilegast að afgreiða málið svona. Minsta kosti held jeg, að ef jeg hefði staðið í sporum 1. þm. Reykv. (JÞ), þá hefði jeg ekki viljað fara svo í málið, að því yrði ekki komið aftur í samt lag og var.