06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í C-deild Alþingistíðinda. (2488)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Jón Kjartansson:

Það voru ummæli sessunauts míns, háttv. 1. þm. Árn. (MT), sem komu mjer til þess að standa upp. Hann undraði sig yfir því, að þetta skyldi ekki vera flokksmál hjá Íhaldsflokknum, Það stóð í einhverju blaði um þennan háttv. þm. (MT), að hann tilheyrði eða stæði a. m. k. mjög nærri Framsóknarflokknum. Það er nú samt ekki að sjá, að þetta hafi verið flokksmál þar. Ætti hv. þm. því fyrst að beina aðfinslum sínum þangað. Hinsvegar finst mjer ekkert að athuga við það, þó þetta sje ekki gert að flokksmáli. Aðalatriðið er, hvort hjer sje verið að skaða utanríkismál vor. Nú eru allir sammála um það, að sá maður, sem nú er sendisveitarritari, sje ágætur maður og mjög vel fallinn til að gegna sendiherrastörfum, get jeg því ekki skilið, að háttv. deild hafi á móti till. allshn., þar sem hjer er aðeins um fyrirkomulagsatriði að ræða. Það er heppilegt, ef sendiherraembættið losnar, að geta falið sendisveitarritara að gegna starfinu. Jeg get því ekki fallist á það, sem sessunautur minn, háttv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að frv. hafi versnað hjá allshn. Síst ætti Sjálfstæðisflokkurinn að vera á móti frv. eins og það er nú. Við álítum óheppilegt að afnema lögin, en heppilegt að leggja það á vald fjárveitingavaldsins, hvort eða hve miklu fje sje varið til þessa.

Virðast þá þessar deilur óþarfar. Allir eru sammála um, að sendisveitarritarinn sje heppilegur til að takast þetta starf á hendur. Það er aðalatriðið.

Þá vildi jeg beina fáum orðum til háttv. þm. Str. (TrÞ). Hann var að tala um ósamkomulag í Íhaldsflokknum. En hann ætti að skygnast um í sínum eigin flokki. Sjálfur hefir hann flutt hjer þrjú sparnaðarmál. Hann vill afnema dósentsembættið í klassiskum fræðum við háskólann. Helsti flokksmaður hans í Ed. vill láta flytja dósentinn að mentaskólanum.

Í öðru lagi vilja flokksmenn hans hjer í deildinni láta afnema kennaraembættið í hagnýtri sálarfræði. Helsti flokksmaður hans í Ed. vill gera þann prófessor að landsbókaverði, og enn annar að fræðslumálastjóra. Þannig mætti lengi telja. Þeir eru svo sem ekki allir sammála þar, og svo virðist sem þessar sparnaðartill. flokksmanna Framsóknarflokksins sjeu aðeins fram bornar til þess að sýnast.