23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

1. mál, fjárlög 1925

Forsætisráðherra (JM):

Háttv. 5. landsk. (JJ) var með ýmsar fyrirspurnir til stjórnarinnar, og satt að segja skildi jeg ekki sumar af þeim. Jeg skal þó þegar svara einni þeirra, enda þótt í raun og veru sje óþarfi að taka hana til greina. Hún var út af sendimanninum til Spánar og síðar til Genúa. Hv. þm. (JJ) spurði, að því er mjer skildist, hvers vegna Gunnar Egilson hefði ekki verið skipaður ræðismaður í Genúa. Hann hefði nú ekki þurft að spyrja að þessu, hefði hann lesið þingtíðindin 1921. Þá var málið mikið rætt. Þegar þessi maður fór hjeðan, bjóst hann við að verða skipaður, enda var í upphafi ætlast til þess af þinginu. En er til kom, var lagður misjafn skilningur á 7. gr. sambandslaganna um það, hvort hann ætti þá að vera íslenskur eða danskur embættismaður. Vjer vildum skoða hann sem íslenskan. En hvorki þingið nje stjórnin vildu halda þessu til streitu, enda hefði það að líkindum orðið að koma fyrir gerðardóm. Þetta hefði háttv. 5. landsk. átt að geta sagt sjer sjálfur, enda hefir alt í þessu máli verið gert með fullu samþykki þingsins.

Jeg hefi aldrei sjeð kærubrjef þau, er háttv. 5. landsk. talar um, hvorki fyr nje síðar. Ef til vill hafa komið fram kvartanir yfir að vera ekki skipaður ræðismaður, en alls ekki yfir því að hafa ekki umboð. Það fjekk hann frá Kaupmannahöfn. Það er sjálfsagt satt, að erindisbrjef hafi hvorki verið í mörgum eða stórum liðum. Starfssvið þessa manns varð líka að skapast smátt og smátt, ef framhald átti að verða á dvöl hans þarna.

Þá hefir háttv. 5. landsk. haldið því fram, að maðurinn hafi verið illa til þessa fallinn. Það get jeg ekki fallist á, enda hygg jeg, að þeir, sem vit hafa á, telji hann einmitt vel til þessa fallinn, þótt háttv. 5. landsk. geri það auðvitað ekki. Það er nú einu sinni hans hugsunarháttur, að skoða alla verslunarmenn sem einhverjar lægri verur, en jeg veit, að háttv. þm. Vestm. (JJós) tekur af mjer ómakið að svara honum því viðvíkjandi. (JJ: Jeg hefi sannað þetta um fiskkaupmennina). Háttv. 5. landsk. sannar aldrei neitt. Allar hans röksemdir eru öfgar og sleggjudómar, ef ekki annað verra. Hans skoðun á verslunarstjettinni er sú, að hún eigi engan annan rjett að hafa en að vera sett undir fjárráð. Hann talaði um, að það væri hneyksli, að fiskkaupmennirnir kynnu ekki spönsku. Jeg skal ekkert segja um kunnáttu þeirra í því máli, en jeg hygg, að hægt sje að komast af á Spáni án þess. Hitt er beinlínis ósatt, að þeir komi aldrei til Spánar. Annars er ekki vert að vera að lengja umræður út af ummælum háttv. 5. landsk. (JJ: Jeg átti hjer eina fyrirspurn um íslenskukensluna við háskólann). Já, háttv. 5. landsk. átti margar og óskiljanlegar fyrirspurnir. Hann spurði um fjárveitinguna til kennarans í íslenskri tungu við háskólann og virtist áfella mig fyrir að vera henni fylgjandi, af því að einn flokksbróðir minn hefði farið hörðum orðum um þennan mann í Nd. Þetta er nú alls ekki satt. í nál. því, er hjer kemur til greina, er aðeins sagt, að kensla hans gæti komið að meira liði annarsstaðar, og jeg get varla skilið þau ummæli á þann hátt, sem háttv. 5. landsk. vill vera láta. Annars er þetta útúrdúr, þar sem háttv. 5. landsk. veit hjer ekkert, hvað hann er að fara.

Þá spurði hann, hvort það hefði verið gert að flokksmáli Íhaldsflokksins að veita ekki próf. Sigurði Nordal launahækkun. Það hefði í sjálfu sjer ekkert verið á móti því að gera það og fleira að flokksmáli, því að satt að segja finst mjer of mikið los á atkvæðagreiðslu manna um ýms mál. En þetta hefir ekki verið gert. En það hefir víst verið gert að flokksmáli hjer af Framsóknarmönnum

Þessi háttv. þm. (JJ) spurði, hvernig færi um kensluna í íslenskum fræðum við háskólann, ef próf. Sigurður Nordal færi. Jeg býst nú við, að þá kæmu dagar og þá kæmu ráð og að maður kæmi í manns stað, eins og háttv. 5. landsk. sagði um annað tilfelli hjer. Hvað ætti að gera, ef — sem vonandi kemur ekki fyrir í bráð — ef þessi maður fjelli frá! Jeg hygg, að vjer myndum reyna að halda uppi íslenskukenslunni samt.

Jeg skal ekki segja um það, hvort rjett er að veita þessa launauppbót, en jeg get ekki skilið, að próf. Sigurði Nordal komi að miklu gagni aðrar eins ræður og hv. 5. landsk. flytur fyrir þessari hækkun. Slíkar ræður hljóta að vera hverjum manni bjarnargreiði.

Þá mintist háttv. 5. landsk. á höftin, og reyndi þar að gera upp á milli vor ráðherranna. Jeg skal ekki fara langt út í það, þar sem þessi háttv. þm. er búinn að tala tvisvar og má því aðeins gera stutta athugasemd. Háttv. þm. (JJ) var að hæla tveim af oss ráðherrunum fyrir að vera með höftum 1920. Þetta ár voru gefin út bráðabirgðalög, sem komu fyrir þingið 1921. Í Nd. voru þessi bráðabirgðalög feld með 22 shlj. atkv. (JJ: Það sýnir, hve kaupmenn voru sterkir). Það sýnir, hve Framsóknarmenn voru sterkir. Eftir voru heimildarlög, sem bönnuðu innflutning á ýmsum vörum. 1922 tekur stjórn Framsóknarflokksins við. Henni kom aldrei til hugar að nota sjer þessi höft. (JJ: Það var hætt að beita þeim áður).

Jeg hefi rifjað þetta upp til að sýna fram á, að hvorugur getur ásakað annan í þessu efni. Og í hreinskilni sagt, þá hefi jeg ekki mikla trú á þessum höftum, þótt sjálfsagt sje að framfylgja þeim, er þau eru komin á.

Þegar helst hefðu þau mátt að gagni koma, voru allir á móti þeim, jafnt Framsóknarmenn og aðrir. Jeg vil ekki þar með segja, að ekki geti orðið eitthvert gagn að innflutningshöftum úr þessu, en sem sagt hefi jeg ekki trú á þeim.

Þá skal jeg snúa mjer að hinum ýmsu brtt. Jeg skal ekki tala langt mál um brtt. háttv. fjvn., en þakka henni, að hún hefir tekið eins og hún hefir gert í till. mínar um laun þjóðskjalavarðar og eftirlaun landsbókavarðar.

Jeg vil þá snúa mjer að brtt. minni. Hún er komin fram af því, að jeg tel þing og stjórn hafa miklar skyldur við þann mann, dr. Alexander Jóhannesson, sem kennir íslenska málfræði við háskólann. Á þinginu 1919 komu tilmæli frá fjvn. um, að þessi maður væri ráðinn við háskólann og látinn afsala sjer stöðu, sem hann hafði á hendi fyrir þýska ríkið. Var svo gerður við hann einskonar þegjandi samningur um, að hann yrði við háskólann sem kennari í íslenskri tungu. Hann hefir haft dósentslaun og hafði ástæðu til að byggja á því, að hann hjeldi þessu áfram. Það er því að minni skoðun hrein brigðmælgi, ef fjárveitingin á að falla niður, fyrir utan það, að hann má ekki missa sig frá háskólánum. Vænti jeg þess, að háttv. deild geti fallist á þessa tillögu mína, en annars skal jeg ekki orðlengja frekar um þetta atriði, þar sem það er mjög kunnugt, bæði hjer í þessari hv. deild og í hv. Nd. Jeg býst við, að allir muni geta fallist á, að nauðsynlegt sje að halda uppi kenslu í íslenskri málfræði við háskólann, og lofi þessu því að standa fyrst um sinn.