06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í C-deild Alþingistíðinda. (2494)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Magnús Guðmundsson:

Það var aðeins viðvíkjandi stefnuskrá Íhaldsflokksins, sem jeg tók til máls. Hv. þm. Str. hrósar sjer af lestrarkunnáttu sinni, og skal jeg ekki efast um hana. En nú stendur í yfirlýsingu flokksins á þessa leið:

„Fyrsta verkefni flokksins ljetum við vera það, að beitast fyrir viðreisn á fjárhag landssjóðs. Vjer viljum, að því leyti sem frekast er unt, ná þessu takmarki með því að fella burtu þau útgjöld landssjóðs, sem vjer teljum ónauðsynleg, og með niðurlagningu eða samanfærslu þeirra landsstofnana og fyrirtækja, sem vjer teljum, að þjóðin geti án verið eða minkað við sig henni að skaðlausu. Vjer búumst við, að ekki verði hjá því komist að auka að einhverju leyti álögur á þjóðinni í bili, til þess að ná nauðsynlegri rjettingu á hag landssjóðs; en flokkurinn vill sjerstaklega láta sjer ant um að koma þessum málum sem fyrst í það horf, að unt verði að draga úr þeim álögum til opinberra þarfa, sem nú hnekkja sjerstaklega atvinnuvegum landsins.

Vjer teljum, að eftir því sem fjárhag landssjóðs er nú komið, sje ekki unt að veita fje úr honum til nýrra framfarafyrirtækja að neinu ráði, meðan viðreisn fjárhagsins stendur yfir. En jafnskjótt og fjárhagur landssjóðs leyfir, mun flokkurinn vilja veita fjárhagslegan stuðning til framfarafyrirtækja, og þá einkum til þeirra, sem miða beinlínis til eflingar atvinnuvegum landsmanna. Að sjálfsögðu vill flokkurinn nú þegar veita atvinnuvegunum þann stuðning með löggjöfinni, sem unt er, án hnekkis fyrir fjárhag landsins.

Vjer teljum, að viðreisnarstarfið hljóti fyrst um sinn að sitja svo mjög í fyrirrúmi fyrir öllum öðrum málum, að vjer sjáum ekki nauðsyn til að gefa aðra eða víðtækari stefnuskrá en þetta að svo stöddu, en óskum, að þjóðin dæmi flokk vorn, þegar til kemur, eftir verkum hans og viðleitni í landsmálum.“

Nú segist hv. þm. (TrÞ) hafa lesið þessa yfirlýsingu. Hví neitar hann þá, að þetta standi þar, og segir, að ekkert sje á stefnuskrá flokksins annað en embættasparnaður?