26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í C-deild Alþingistíðinda. (2501)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi bæði í hv. Nd. og einnig hjer við sum tækifæri haft ástæðu til að minnast á þetta mál. Þessvegna get jeg látið nægja að fara fáum orðum um það að þessu sinni.

Það er auðsjeð, að með þessari lagabreytingu er sama sem verið að fella alveg niður sendiherrastöðuna. Enda er í fjárlfrv. ekki gert ráð fyrir fjárveitingu til sendiherrans, aðeins til skrifstofuhalds.

Því hefir óspart verið haldið fram, að sambandslögin hafi aukið mjög á útgjöld vor. En þeir, sem aðeins vilja renna augum yfir fjárlögin, sjá, hve mikil fjarstæða þetta er. Til Dana greiðum við 12 þús. kr. á ári. Það er nú alt og sumt. Og sparnaðurinn, sem hjer er farið fram á, er rúm 20 þús. kr. á pappírnum. En auðvitað nær ekki nokkurri átt, að sparnaðurinn verði svo mikill, þar sem skrifstofan á að halda áfram. Og líklega verður einhver að veita henni forstöðu. Í bili mætti auðvitað hafa chargé d’affaires, þangað til nýr sendiherra væri fenginn. En engri átt nær það til frambúðar, að sami maður, sem er departementchef hjá utanríkisráðherranum, sje okkar æðsti maður í Danmörku, sem á fyrir vora hönd að semja við utanríkisráðherrann.

Ljettúðin er yfirleitt of mikil á hinu háa Alþingi, þegar talað er um utanríkismálin. Vjer ráðum þeim nú að öllu leyti, þannig að minsta kosti, að ekkert er í þeim gert öðruvísi en vjer segjum fyrir. En til þess að taka ákvörðun í slíkum málum, þurfum vjer, ekki síður en aðrar þjóðir, sjerþekkingu. Í stjórnarráðinu er nú engin sjerþekking í þessum málum, og nú á að koma fyrir kattarnef þeirri sjerþekkingu erlendis, sem vjer vorum búnir að fá oss í þessum málum.

Jeg hygg, að öllum muni ljóst, að vjer í framtíðinni munum taka þessi mál í vorar hendur. En hvernig verðum vjer undir þau búnir, ef vjer höldum áfram að sofa svefni andvaraleysisins í þessum málum. Þegar Norðmenn tóku við sínum utanríkismálum, voru þeir búnir að undirbúa menn til þeirra starfa. Hjer er litið svo á, að vjer megum sleppa þessum eina manni, sem fengist hefir við utanríkismál. Vjer vitum, að stjórnum fjelaga, eins og t. d. Sambandsins, þykir sjálfsagt að hafa 2–3 menn út um heiminn, sem fari svo að segja með utanríkismál fjelagsins. En fyrir heila þjóð þykir það óhæfa og tildur að hafa einn einasta mann sem umboðsmann úti í heimi. Þessi maður hefir alstaðar verið notaður, þar sem við höfum þurft á sendimanni að halda erlendis. Hann hefir verið sendur til Spánar, Englands, Noregs o. s. frv. Er því skiljanlegt, og enda vitanlegt, að maður þessi, sem er mjög vel fær til slíkra starfa, hefir aflað sjer mikillar sjérþekkingar í öllum utanríkismálum, sem er hverjum manni ómissandi, sem við þau fæst. Annars gegnir það stórfurðu, að þar sem jafnvel einstök fjelög í landinu, svo sem Sambandið, geta ekki komist af án þess að hafa fulltrúa erlendis — og það tvo frekar en einn — þá skuli þeir menn vera til, sem álíta, að þjóðin sjálf komist af án slíks fulltrúa.

Jeg skal ekki segja, hvernig þessi hv. deild lítur á nauðsyn þessa sendimanns, en ef hún samþykkir frv. þetta, eins og hv. Nd. hefir gert, þá er það sýnilegt, að þjóðin er að missa trú á fullveldi sínu. Er þá eini möguleikinn, sem fyrir hendi er, sá, að hefja nýja sjálfstæðisbaráttu. Gamla sjálfstæðisbaráttan var um það, að ná öllum málum vorum í vorar eigin hendur. Hin nýja verður í því fólgin að hvetja þjóðina til þess að sleppa ekki aftur þeim rjettindum, sem hún hefir fengið. Það er meira en lítið alvörumál, ef að búið er að sljófga svo sjálfstæðismeðvitund þjóðarinnar, að hún horfi óátalið upp á það, að þau vopn sjeu slegin úr hendi henni, hjer á Alþingi, sem hún hefir barist langri og strangri baráttu til þess að ná. Jeg verð að leyfa mjer að vænta þess, að þessi hv. deild athugi samviskusamlega, ekki aðeins hið fjárhagslega tjón, sem það bakar landinu að leggja sendiherraembættið niður, heldur og hvílík minkun það er fyrir þjóðina. Það er ekki til neins að vísa til þess, að sumar aðrar þjóðir hafi kallað nokkra sendimenn sína heim og lagt embætti þeirra niður. Þetta getur að vísu vel verið satt, en það er þá aðeins þar, sem þessara sendimanna hefir ekki lengur verið þörf. Flestar, ef ekki allar sjálfstæðar þjóðir, hafa fulltrúa víðsvegar í öðrum löndum, eða alstaðar þar, sem þær eiga nokkurra verulegra hagsmuna að gæta. Ef við værum að reisa okkur hurðarás um öxl, með því að hafa of marga sendimenn erlendis, þá væri máske ástæða til þess fyrir þingið, að taka í taumana. En það er nú síður en svo, að því sje þannig varið.

Hjer er farið fram á að leggja niður starf eina sendimanns landsins í útlöndum, sem við notum þar að auki sem fulltrúa okkar svo að segja um allan heim, eftir því sem þörf krefur. Færri en einn umboðsmann erlendis getum við ómögulega komist af með, og er furðulegt, að hv. Nd. skuli vilja afnema embætti hans. En það virðist vera vilji þeirrar hv. deildar, því að þó að svo sje ákveðið í frv. þessu, eins og hún hefir skilið við það, að sendiherraembættinu skuli haldið við liði, þegar fje sje veitt til þess í fjárlögunum, þá hefir það jafnframt vakað fyrir háttv. deild að veita ekki fje til þess á fjárlögunum, eins og hefir komið á daginn. Enda fengist enginn sæmilega hæfur maður til þess að taka að sjer stöðu, sem þannig væri háð dutlungum þingsins frá ári til árs.

Það er í rauninni hið allra erfiðasta, sem fyrir þingmenn getur komið, að þurfa að standa í því að reyna að sannfæra þingið um svo einfalt mál sem þetta. Það er jafnaugljóst eins og 2 og 2 eru 4, að við megum ekki missa þennan eina sendiherra okkar erlendis. Reynsla alheimsins sýnir þetta best. Eða halda menn, að allar aðrar þjóðir, t. d. frændur okkar: Danir, Norðmenn og Svíar, geri sjer að leik að verja ógrynnum fjár til þess að geta haft fulltrúa víðsvegar um allan heim? Nei, reynslan hefir sýnt þeim, að það borgar sig vel.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar að sinni, en jeg vona, að ef svo skyldi fara, að þessi hv. deild sýndi sama andvaraleysi í máli þessu og hv. Nd., þá sjeu þó til meðal þjóðarinnar menn, sem vekja athygli hennar á því, hvað hjer er í húfi.