26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í C-deild Alþingistíðinda. (2504)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Sigurður Eggerz:

Það var afskaplega margt skakt af því, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði í ræðu sinni. Í fyrsta lagi sagði hann, að vafi ljeki á um það, hvort við værum fullvalda ríki, og sendiherrann hefði verið sendur til þess að færa sönnur á, að svo væri. Þetta er algerlega rangt hjá hv. 5. landsk. Hann þarf ekki annað en líta í sambandssamninginn til þess að sjá, að við erum fullkomlega fullvalda ríki. Jeg held líka, að það hafi enginn dregið í efa, að svo væri, og í síðustu utanför minni varð jeg þess margfaldlega var, að um það var enginn ágreiningur. Jeg var þá í samsæti með ýmsum helstu stjórnmálamönnum Dana, og voru ræður haldnar allmargar, er snertu samband ríkjanna, og engum datt í hug að tala um Ísland öðruvísi en sem algerlega fullvalda ríki, enda sýnir sambandslagasamningurinn þetta ótvírætt. (JJ: Hvernig er það með utanríkismálin?) Umboð það, sem 7. gr. samningsins ræðir um, sýnir einmitt það greinilega, að við erum fullvalda. Annars hefir svo mikið verið um þetta rætt, að óþarfi er að fara lengra inn á það við þetta tækifæri. Þó sendiherrann danski heyri undir forsætisráðherrann danska, það ráðum við ekki við. Það er eingöngu dönsk ráðstöfun. En jeg vil taka það fram, að sendiherra okkar í Kaupmannahöfn stendur í beinu sambandi við utanríkisráðherrann danska. Að hann heyrir undir forsætisráðherrann íslenska kemur hinsvegar af því, að hann fer með utanríkismálin.

Jeg get ekki sjeð, að það rýri neitt virðingu sendiherra vors, þó hann hafi verið í samkvæmi með Sjálandsbiskupi. Dönum hefir heldur aldrei dottið í hug að draga fullveldi vort í efa. Hans hátign konungurinn hefir t. d. við móttöku erlendra þjóðhöfðingja skipað íslenska forsætisráðherranum jafnt sæti og danska forsætisráðherranum og með því undirstrikað fullveldi Íslands. Jeg get best borið um það, því jeg hefi sjálfur tekið þátt í slíkri móttöku, og vissi, að það var lögð mikil áhersla á það af konungi Íslands og Danmerkur að taka jafnt tillit til beggja ríkja sinna. Það er því algerlega órjett hjá hv. 5. landsk. að segja, að Danir viðurkenni ekki fullveldi Íslands. Og það er leiðinlegt, ef nú á að þurfa að hefja nýja baráttu til þess að fá íslensku þjóðina til að trúa því, sem aðrar þjóðir viðurkenna, sem sje, að Ísland sje fullvalda ríki.

En ef svo væri, eins og hv. 5. landsk. hjelt fram, að Danir sýndu ekki sendiherra vorum þann sóma, sem staða hans heimtar, þá ættum við auðvitað að gera kröfu til þess, að honum yrði skipað svo hátt sem vera ber, en alls ekki leggja embættið niður fyrir þá sök, því slíkt undanhald er ekki sæmandi fullvalda þjóð.

Hv. 5. landsk. talaði um, að sendiherrann gæti ekki komist af með þau laun, sem hann hefir, og það má vel vera, að nokkuð sje til í þessu. En þess ber líka að gæta í því sambandi, að sá maður, sem nú skipar sendiherraembættið, hefir stóra fjölskyldu, og þarf þessvegna mikið fje. Jeg skal líka geta þess, að meðal annara þjóða eru oft teknir efnaðir menn í sendiherrastöður, og mjer finst það væri rjett, að við athuguðum, hvort við gætum ekki farið hjer sömu leið og ýmsar aðrar þjóðir, og fengið efnaða menn til að gegna sendiherraembættinu, þó launin, sem fylgdu því, væru svo lítil, að tæplega yrði lifað af þeim einum saman. En jeg vildi taka það fram, að það væri oflátungsháttur, ef vjer gerðum þá kröfu til sendiherra vors, að hann hjeldi sig eins og sendiherrar stórþjóðanna, að því er veisluhöld og samkvæmislíf snertir. Til slíks væri engin ástæða, enda hefir sendiherra vor skilið þetta, en hefir þó komið svo fram, að sendiherrar stórveldanna taka fult tillit til hans. Jeg hefi oft verið með honum og sendiherrum annara ríkja, og veit, að honum er skipað alveg eins hátt sæti og þeim.

Mjer þykir einkennilegt, að því skuli vera haldið fram, að núverandi sendiherra telji embættið ekki nauðsynlegt, eins og hv. 5. landsk. gerði, þótt hann raunar þættist hafa það annarsstaðar frá. Jeg held, að jeg sje nú manna kunnugastur því, hvernig sendiherrann lítur á það mál, því jeg hefi margsinnis átt tal við hann um það, og veit, að bæði hann og Jón Krabbe telja embættið mjög nauðsynlegt.

Jeg skal viðurkenna það, að ekkert er því til fyrirstöðu, að sendiherraembættið væri ekki veitt þegar í stað, heldur væri skipaður chargé d’affaires í bili, en auðvitað aðeins í bili, eins og hæstv. forsrh. (JM) mintist á. En þá er bara spursmál um, hve mikill sparnaður yrði að því. Jeg fyrir mitt leyti held, að sá sparnaður yrði lítill, því jeg býst varla við, að hinni góðu fjárveitinganefnd takist að strika út allan risnukostnað handa slíkum embættismanni, því chargé d’affaires þarf vitanlega fje til risnu, engu síður en sendiherra, á meðan hann gegnir embættinu. Annars verð jeg að endurtaka það, að það er þreytandi, hjer á Alþingi Íslendinga, að þurfa að halda uppi löngum ræðum um eins sjálfsagt mál og þetta mál er.

Eitt fanst mjer mjög einkennilegt, sem hv. 5. landsk. (JJ) hjelt fram. Hann sagði, að við ættum að ala upp nokkra menn og láta þá læra þau fræði, sem mættu þeim að gagni koma við sendiherrastörf í framtíðinni. Mjer finst þessi uppástunga hans að vísu ágæt, en hvernig stendur á því, að vjer þurfum menn með sjerþekkingu til þess að gegna þessum störfum í framtíðinni, ef vjer þurfum þess ekki í nútíðinni? (JJ: Við þurfum máske á sendiherra að halda, þegar samningnum við Dani er slitið, en ekki fyr.) Jeg er margsinnis búinn að taka það fram, að við erum fullkomlega fullvalda ríki, og verður ekki með neinum rökum í móti mælt. Og vegna þess fullveldis getum vjer gefið Dönum umboð, eins og heimilað er í 7. gr. samningsins, og það er ekkert gert í þeim málum án þess, að vjer sjeum að spurðir. Það er ekki sett svo sem komma eða punktur í samninga, sem okkur varða, án þess að samþykkis okkar sje leitað. (JJ: Hvernig var með sendimanninn til Genúa?) Jeg veit vel, að það var ágreiningur milli íslensku og dönsku stjórnarinnar um, hvort sá maður skyldi skipaður sem íslenskur eða sem danskur embættismaður. Sá ágreiningur var aldrei útkljáður, og eftir því sem jeg veit best, var það að því, að þingið feldi burt fjárveiting til þessa sendimanns. Ef þessi ágreiningur hefði gengið svo langt, að tækifæri hefði gefist til þess að ræða það mál ítarlega við dönsku stjórnina, þá er jeg viss um, að hefði mátt kippa því í lag, ef henni hefði verið sýnt fram á, hve skýlaus rjettur vor var.

Jeg vil í þessu sambandi minnast á landhelgisgæsluna. Það var um tíma nokkur ágreiningur um það mál milli Dana og Íslendinga, en þegar í stað, þegar það mál var rætt nánar við dönsku stjórnina og henni sýnt fram á, hver rjettur vor væri í þessu efni, þá taldi hún sjálfsagt, að vjer hefðum sjálfstæða landhelgisvörn. Á sama hátt geri jeg ráð fyrir, að samkomulag hefði náðst um Genúamálið.

Og jeg vil í þessu sambandi benda á það, að í Danmörku einni hefir sendiherrann haft mjög þýðingarmikið starf með höndum, eins og skiljanlegt er. Danmörk og Ísland hafa mjög mikil viðskifti saman, og því er nauðsynlegt fyrir oss að hafa í Danmörku mann, sem geti jafnað ágreining, sem upp kann að koma viðvíkjandi viðskiftum þjóðanna. Og það eru allir sammála um, að það sje gott og nauðsynlegt fyrir oss að hafa gott samkomulag við Dani, en fyrsta skilyrðið til þess er vitanlega að hafa góðan mann við hendina, er jafnan geti veitt rjettar upplýsingar um mál þau, sem upp kunna að koma og valdið geta ágreiningi. Nú er líka ný stjórn að taka við völdum í Danmörku, jafnaðarmannastjórn, sem aldrei hefir farið með völd áður, og því er einmitt nauðsynlegt að hafa mann í Kaupmannahöfn, í því skyni, sem jeg hefi áður tekið fram.

Háttv. 5. landsk. hjelt því fram, að okkar sendiherra væri ekki sendiherra í eiginlegum skilningi. Jeg veit ekki, hvaða ástæðu hann hefir til að halda slíku fram. Jeg vildi að jeg vissi, hverjar þær ástæður væru, því þá skyldi jeg hrekja þær. Jeg hefi nú áður bent á, að sendiherra vor stendur í beinu sambandi við utanríkisráðherrann danska. Hann hefir samið við hann beint fyrir vora hönd. Og samningar milli Íslands og Danmerkur eru undirritaðir af sendiherra Íslands fyrir Íslands hönd og danska utanríkisráðherranum fyrir hönd Danmerkur. (JJ: Hver undirritaði samninginn í Madrid, sem gjörður var við Spánverja fyrir Íslands hönd?) Samkvæmt umboði því, er vjer gáfum samkvæmt 7. gr. sambandslaganna, undirritaði danski sendiherrann í Madrid samninginn fyrir vora hönd. Annars skal jeg geta þess, úr því minst hefir verið á samninginn við Spánverja, að Danir komu mjög drengilega fram í því máli fyrir okkar hönd. Þó danska stjórnin hefði af mjög eðlilegum ástæðum getað haft tilhneigingu til þess að draga ekki okkar taum sem skyldi, því að hún hafði sjálf hagsmuna að gæta á Spáni, því þá stóðu yfir samningatilraunir milli Dana og Spánverja, þá gætti hún þó okkar hagsmuna á mjög ákjósanlegan hátt. Annars hefi jeg ekki athugað, hvort samningar eru nú gerðir milli Dana og Spánverja.

Annars er það leiðinlegt með háttv. 5. landsk., að hann hefir snúist á móti þessu máli án þess að hugsa það nokkuð eða kynna sjer það til hlítar. Og hann hefir snúist á móti þessu máli í blaði sínu og reynt að telja þjóðinni trú um, að hjer væri aðeins um tildur og hjegóma að ræða, og blaðið hefir haft þau áhrif, að mjög margir gera gys að þessu og álíta, að við höfum alls ekki neitt að gera við sendiherra í Kaupmannahöfn. Þetta er dæmi þess, hve mikil völd stór og útbreidd blöð geta haft, því blað þetta hefir snúið svo mjög hugum manna frá þessu nauðsynjamáli, að þó reynslan hafi sýnt ótvírætt gagnsemi embættisins, þá standa margir þó enn andvígir þessu máli.

Það er algerður misskilningur hjá hv. 5 landsk., að vjer höfum sendiherrann aðeins til að auglýsa fullveldi vort. Vegna beinna hagsmuna þjóðarinnar verðum vjer að halda uppi þessu embætti. Það er altaf álitið, þegar um merk mál er að ræða, að þeim verði ekki ráðið til lykta án sjerþekkingar. Jeg skal t. d. nefna seðlaútgáfumálið. Hæstv. fjrh. (JÞ) treysti sjer ekki til að ráða því máli til lykta án þess að fá aðstoð sjerfróðs manns, og jeg segi það alls ekki hæstv. fjrh. til lasts, heldur þvert á móti. Og hvernig eigum vjer að fara að gera samninga við önnur ríki án þess að hafa nokkurn mann, sem sjerþekkingu hefir í utanríkismálum? Og vjer þurfum altaf öðru hvoru að vera að gera samninga við önnur ríki. Vjer höfum eigi einungið þurft að gera samninga við Spán og Portúgal, heldur við Finnland og fleiri ríki. Hvernig eigum vjer að geta heimtað það af forsætisráðherranum, sem þingmeirihlutinn venjulega styður vegna afstöðu til ýmsra innanríkismála, að hann hafi sjerþekkingu í utanríkismálum. Og hvernig á forsætisráðherrann, sem er önnum hlaðinn frá morgni til kvölds, að geta annað því, án nokkurrar sjerþekkingar annarsstaðar frá, að gera samninga við aðrar þjóðir og svara ýmsum tekniskum spursmálum, sem hann brestur sjerþekkingu á?

Alt skilningsleysi vort á þýðingu utanríkismálanna er að vísu afsakanlegt, af því að vjer um svo langt skeið höfum sama sem ekkert haft með slík mál að gera, en aðrir hafa hugsað um þau fyrir oss. En á þetta að halda svoleiðis áfram? Og jeg spyr: Til hvers vorum vjer þá að berjast?

Ef vjer nú lítum á þann 15–20 þúsund króna sparnað, sem yrði að því að leggja sendiherraembættið niður, og lítum svo hinsvegar á þá miklu hagsmuni, sem vjer höfum að gæta út á við, hvernig getum vjer þá varið það fyrir samvisku vorri að leggja embættið niður. Svo mikla trú hefi jeg á þessari hv. deild, að jeg er fullviss um, að hún gerir sig ekki seka í slíku glapræði. En ef þetta yrði nú ofan á, þá er aðeins um eina leið að ræða fyrir þá, sem vilja halda uppi sjálfstæði og heiðri Íslands, og það er að hefjast handa, hefja nýja sjálfstæðisbaráttu, því það væri illa farið, ef vjer sleptum sökum hirðuleysis úr höndum vorum, því, sem þjóðin hefir fyrir forgöngu sinna bestu manna barist fyrir í fjöldamörg ár, og unnið að lokum. Og það er sorglegt að þurfa að halda hjer langa ræðu til þess að benda á jafnaugljósan sannleika og þann, hve mikla þýðingu það hefir fyrir okkur að gæta vel hagsmuna vorra út á við, og hve hættulegt það getur verið fyrir okkur, ef vjer gætum ekki vel allra þeirra dýrmætu rjettinda, sem vjer höfum unnið með sjálfstæðisbaráttu vorri.