26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í C-deild Alþingistíðinda. (2505)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Jóhannes Jóhannesson:

Hv. 5. landsk. sýndi með ræðu sinni, að hann kann ekki að gera mun á jafnólíkum hugtökum og umboði og aðild.

Hv. þm. taldi vafasamt, hvort Ísland gæti talist fullvalda ríki. Og jeg skildi þau orð hv. þm. þannig, að hann teldi landið ekki fullvalda, sökum þess, að það væri ekki fullvalda í utanríkismálum. Ef svo væri, þá væri ekki um nein íslensk utanríkismál að ræða, en þá hefði Ísland ekki getað gefið Dönum umboð til þess að fara með þau, því til þess að geta gefið öðrum umboð til þess að fara með utanríkismálin, þurftum við að hafa fult vald yfir þeim sjálfir. Og ef vjer værum ekki fullvalda, þá gætum vjer ekki sagt sambandssamningnum upp eftir 1940. Allir sjá því, hve mikla fjarstæðu hv. þm. (JJ) fór með, og ætla jeg því ekki að fara fleiri orðum um þetta, því menn, sem ekki skilja jafnofureinfalt mál, vil jeg alls ekki deila við.