26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í C-deild Alþingistíðinda. (2510)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Jóhannes Jóhannesson:

Ræða hv. 5. landsk. (JJ) bar vott um ákaflegan misskilning hans á þessu máli; blandaði hann þar saman óskyldum hugtökum og misskildi svo alt.

Vona jeg, að honum veitist frekari fræðsla, svo að honum auðnist að koma til rjetts skilnings á þessu máli.

Hv. 5. landsk. (JJ) furðaði sig á því, að sendiherra vor í Danmörku, hr. Sveinn Björnsson, skyldi hafa þar aðra aðstöðu en sendiherrar annara ríkja. Má þó hverjum, sem athugar þetta, vera ljóst, að þetta er ekkert furðulegt. Sendiherra vor í Danmörku kemur fram fyrir konung Dana sem umboðsmaður Íslands, en sami maður er konungur beggja ríkjanna, og af því stafar mismunurinn, sem er á afstöðu sendiherra vors til konungs og annara sendiherra.

Og hvað snertir danska sendiherrann hjer, þá heyrir hann undir danska forsætisráðherrann, en ekki utanríkisráðherrann, af sömu ástæðu.