03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í C-deild Alþingistíðinda. (2516)

58. mál, stofnun háskóla

Flm. (Jón Þorláksson):

Jeg skal svara því strax, að jeg er ennþá alveg sömu skoðunar og jeg var, þá er jeg hjelt ræðu þá, er hv. þm. Str. (TrÞ) las upp úr. En það er eigi að dylja, að umræðurnar um starfaflutning embættismanna hafa styrkt mjög mótstöðuna móti embættafækkuninni. Jeg hefi litið í kring um mig í þessu efni, og jeg held, að mitt fyrirkomulag verði til þess að koma embættafækkuninni fljótar á og án þess að embættismönnum sje kastað út á klakann, sem kallað er, ef þeir yrðu bæði í senn, sviftir starfi og launum. Jeg ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp ákvæði 16. greinar stjórnarskrárinnar, 3. lið, hjer að lútandi. Þar stendur:

„Konungur getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, þó svo, að þeir missi einskis í af embættistekjum og að þeim sje gefinn kostur á að kjósa um, hvort þeir vilji heldur embættaskiftin eða þá lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.“

Jeg sje, að nú er komin fram í frv.- formi tillaga um að flytja embættismann í aðra tiltekna stöðu, þegar embætti hans verður lagt niður. Mjer sýnist, að með því muni Alþingi ganga fullnærri konungsvaldinu, því valdi, sem konungi er gefið með þessu ákvæði stjórnarskrárinnar. Jeg hefi því ekki treyst mjer til þess að bera þetta fram í öðru formi en því, sem frv. mitt fer fram á. Jeg get fullvissað háttv. þm. Str. (TrÞ) um það, að hjá mjer eru engir bakþankar í þessu, og ef Alþingi samþykkir þetta frv. mitt, álít jeg hverri stjórn sem er skylt að framfylgja því — og að því muni verða unt að koma í framkvæmd mjög fljótlega.